Fullnusta refsinga. Agaviðurlög. Málsmeðferð.

(Mál nr. 10771/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun Fangelsismálastofnunar um að flytja A úr opnu fangelsi á Sogni í fangelsið Litla-Hraun. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist einkum á því að ákvörðun Fangelsismálastofnunar hefði ekki falið í sér agaviðurlög gagnvart A heldur viðbrögð fangelsisyfirvalda við því að forsendur fyrir afplánun hans væru brostnar. Var í því efni vísað til þess að hann hefði brotið gegn samkomulagi sem hann hefði gert við fangelsis­yfirvöld um afplánun á Sogni og hefði málsmeðferðin tekið mið af því. Athugun umboðsmanns laut að því hvort fyrrnefnd afstaða ráðuneytisins, og þar með úrskurður þess í máli A, hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður benti á að markmið laga um fullnustu refsinga væri m.a. að tryggja réttaröryggi þeirra sem sæta afplánun í fangelsum. Þá væri sérstaklega gert ráð fyrir því í lögunum að ef brot fanga væri þess eðlis að tilefni þætti til að flytja hann úr opnu fangelsi í lokað skyldi setja málið í þann lagalega farveg sem ákvæði VII. kafla laganna, um agabrot, agaviðurlög o.fl., mæltu fyrir um og viðhafa þá málsmeðferð sem þar kæmi fram. Þá benti umboðsmaður á að þótt Fangelsismálastofnun hefði svigrúm til mats þegar teknar væru ákvarðanir um hvar fangi skyldi afplána, sem og hvernig ætti að bregðast við brotum fanga á lögum og reglum sem um afplánun þeirra gilda, þá skipti máli hvernig slíkar ákvarðanir kæmu til og þá með hliðsjón af því í hvaða lagalega farveg setja skyldi slík mál. Ef ástæður flutnings úr opnu fangelsi í lokað mætti á einhvern hátt rekja til háttsemi fanga vegna brota á þeim reglum sem gilda um afplánun hans og eðli brotsins og alvarleiki væru með þeim hætti að tilefni væri að beita agaviðurlögum væri þannig, í þágu réttaröryggis og íþyngjandi eðlis slíkrar ákvörðunar, gerðar strangari kröfur en ella til þeirrar málsmeðferðar sem skyldi viðhafa. Jafnvel þótt fleiri ástæður kynnu að koma þar til, eins og mat á hvort fangi uppfyllti almennt skilyrði til að afplána í opnu fangelsi, veitti það stjórnvöldum ekki, eitt og sér, heimild til að víkja frá þeim málsmeðferðarreglum sem mælt væri fyrir um í VII. kafla laga um fullnustu refsinga. Með hliðsjón af atvikum máls, og í ljósi þess að ráðuneytið hafði lagt til grundvallar að heimfæra mætti háttsemi A til ákvæða laga um agaviðurlög, var það álit umboðsmanns að leggja hefði átt málið í farveg málsmeðferðarreglna VII. kafla laga um fullnustu refsinga. Þar sem það hefði ekki verið gert hefði úrskurður ráðuneytisins ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður mæltist til þess að dómsmálaráðuneytið tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis af hans hálfu, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu sem og í framtíðarstörfum sínum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 28. apríl 2022.