Lögreglu- og sakamál. Meðferð ákæruvalds. Niðurfelling máls.

(Mál nr. 11257/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun ríkissaksóknara þar sem staðfest var ákvörðun héraðssaksóknara um að fella mál hennar niður á grundvelli laga um meðferð sakamála. Í málinu voru til rannsóknar kærur A á hendur tilgreindum mönnum vegna ætlaðra kynferðisbrota gegn henni á árunum 2011 og 2013. Kvörtunin laut að meðferð málsins og þeirri ákvörðun að fella það niður.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lagaákvæðum um rannsókn sakamála og saksókn. Í því sambandi benti hann á það svigrúm sem handhöfum ákæruvalds er fengið í lögum um meðferð sakamála við mat á því hvort höfða beri sakamál í kjölfar rannsóknar eða fella mál niður.

Athugun umboðsmanns í málinu beindist einkum að rannsókn atviks sem átti sér stað árið 2013. Benti hann á að fyrir lægi að skýrslur hefðu verið teknar af A, ættingja hennar og kærða auk þess sem vettvangur málsins hefði verið rannsakaður og myndir teknar. Einnig hefði gagna verið aflað frá Landspítala og sálfræðingi. Umboðsmaður taldi gögn málsins þó ekki bera með sér að rannsakað hefði verið hvort ættingi A gæti borið um atvikið eða hvort A og kærði hefðu verið spurð nánar út í aðstæður umrætt sinn við skýrslutökur. Um væri að ræða atriði sem hefðu mögulega getað skipt máli við framgang málsins hjá ríkissaksóknara. Embættinu hefði því verið ritað bréf þar sem óskað hefði verið nánari skýringa á rannsókn málsins m.t.t. þessara atriða og hvernig hún hefði að þessu leyti samræmst ákvæðum laga um meðferð sakamála.

Með hliðsjón af svörum ríkissaksóknara, m.a. um að frekari rannsókn á þeim atriðum sem umboðsmaður vísaði til hefði ekki breytt sönnunarstöðu málsins, því svigrúmi sem embættið nyti við ákvörðun um saksókn og að virtum gögnum málsins að öðru leyti taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við afstöðu saksóknara og þar með ákvörðun embættisins að fella málið niður á grundvelli laga um meðferð sakamála.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 8. apríl 2022.

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 18. ágúst sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun ríkissaksóknara 19. ágúst 2020 þar sem staðfest var ákvörðun héraðssaksóknara 27. apríl sama ár um að fella niður mál nr. 318-2018-11489 með vísan til 145. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Kvörtun yðar lýtur að meðferð málsins og þeirri ákvörðun að fella það niður, en í málinu voru til rannsóknar kærur A á hendur tilgreindum mönnum vegna ætlaðra kynferðisbrota gegn henni á árunum 2011 og 2013.

    

II

Í 2. þætti laga nr. 88/2008 er fjallað um rannsókn sakamáls. Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laganna er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Í 1. mgr. 54. gr. laganna segir að rannsaka skuli og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða, svo sem um stað og stund og öll nánari atvik, sem ætla má að skipt geti máli, leita þess sem grunaður er um brot, finna sjónarvotta og aðra sem ætla má að borið geti vitni, svo og hafa uppi á munum sem hald skal leggja á og öðrum sýnilegum sönnunargögnum. Þá skal rannsaka vettvang ef við á og yfirleitt öll ummerki sem kunna að vera eftir brot.

Í XXII. kafla laga nr. 88/2008 eru almennar reglur um saksókn. Í 145. gr. laganna kemur fram að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn sé lokið athugar hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Ef hann telur það sem fram er komið við rannsókn málsins ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa en ella höfðar hann mál á hendur sakborningi. Telji ákærandi á þessu stigi að rannsaka þurfi mál frekar áður en ákvörðun um saksókn verði tekin getur hann mælt fyrir um frekari rannsóknaraðgerðir af hálfu lögreglu, sbr. 2. mgr. 57. gr. laganna.

Með framangreindu ákvæði 145. gr. laga nr. 88/2008 hefur Alþingi falið handhöfum ákæruvalds að leggja mat á það í ljósi þeirra upplýsinga og gagna sem aflað hefur verið við rannsókn sakamáls hvort mál teljist fullrannsakað og þá hvort efni séu til að gefa út ákæru á hendur sakborningi. Vegna þess svigrúms sem handhöfum ákæruvalds er samkvæmt framangreindu fengið í lögum nr. 88/2008 við mat á því hvort höfða beri sakamál í kjölfar rannsóknar eða fella mál niður beinist athugun umboðsmanns Alþingis samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, einkum að því að kanna hvort niðurstaða í máli sé reist á málefnalegum sjónarmiðum, mat á gögnum máls sé ekki bersýnilega óforsvaranlegt sem og hvort réttra málsmeðferðarreglna hafi verið gætt. Það er þar af leiðandi ekki hlutverk umboðsmanns að leggja á það mat hvort efni séu til útgáfu ákæru.

  

III

Athugun umboðsmanns hefur einkum beinst að rannsókn þess atviks sem átti sér stað árið 2013 á þáverandi heimili A. Fyrir liggur að skýrslur voru teknar af henni, ömmu hennar og kærða auk þess sem vettvangur málsins var rannsakaður og myndir teknar. Einnig var gagna aflað frá Landspítala og sálfræðingi.

Fyrrgreind gögn bera ekki með sér að rannsakað hafi verið hvort amma A gæti borið um atvikið 2013, svo sem um ástand A og kærða kvöldið fyrir viðkomandi atvik, um nóttina eða morguninn eftir. Jafnframt virðast hvorki A né kærði hafa verið spurð nánar út í aðstæður umrætt sinn við skýrslutökur. Þar sem hér gat verið um að ræða atriði sem hefðu mögulega getað skipt máli við framgang málsins var embætti ríkissaksóknara ritað bréf 16. nóvember sl. þar sem óskað var nánari skýringa á rannsókn málsins m.t.t. þessara atriða og hvernig hún hefði að þessu leyti samræmst ákvæðum 2. þáttar laga nr. 88/2008.

Í svarbréfi ríkissaksóknara 21. desember sl. kom fram að það hefði verið mat héraðssaksóknara, síðar staðfest af ríkissaksóknara, að rannsókn málsins hefði verið nægilega lokið til þess að unnt væri að taka ákvörðun um saksókn samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008. Ákæruvaldið hefði þannig talið rannsókn málsins nægilega til þess að leggja mat á alla þætti sönnunar, svo sem ásetning til kynferðisbrots. Í því hefði falist sú afstaða ákæruvaldsins að frekari rannsókn væri ekki til þess fallin að breyta sönnunarstöðu málsins. Niðurstaða ákæruvaldsins um að málið teldist ekki líklegt til sakfellis, vegna vafa um að kærði hefði haft ásetning til kynferðisbrots, hefði byggst á heildarmati á fyrirliggjandi sönnunargögnum, einkum mati á framburði kæranda og kærða um atvikið. Málið hefði verið nægilega upplýst að því er varðar sum þeirra atriða er fyrirspurn umboðsmanns laut að en svör við öðrum atriðum hefðu haft takmarkaða sjálfstæða þýðingu vegna þess sem þegar lægi fyrir um atvik og aðstæður að öðru leyti. Að mati ríkissaksóknara hefði rannsókn málsins því verið í samræmi við ákvæði 2. þáttar laga nr. 88/2008.

Svör ríkissaksóknara verður að skilja á þann veg að tekin hafi verið afstaða til þess að frekari rannsókn á þeim atriðum sem umboðsmaður vísaði til hefði ekki breytt sönnunarstöðu málsins og það hafi ekki verið talið líklegt til sakfellis eftir heildarmat á öllum gögnum þess. Að teknu tilliti til fyrrgreinds svigrúms sem ríkissaksóknari nýtur við ákvörðun um saksókn og að virtum gögnum málsins að öðru leyti tel ég mig ekki hafa forsendur til þess að gera athugasemdir við þessa afstöðu saksóknara og þar með þá ákvörðun embættisins að fella málið niður á grundvelli 145. gr. laga nr. 88/2008.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. a- og b-liði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.