Opinberir starfsmenn. Umboðsmaður Alþingis mælir með gjafsókn.

(Mál nr. 11632/2022)

Óskað var eftir að umboðsmaður legði til við dómsmálaráðherra að veitt yrði gjafsókn í dómsmáli gegn íslenska ríkinu.  

Tilefni málshöfðunarinnar stafar af því að fjármála- og efnahagsráðuneytið lýsti sig ósammála áliti setts umboðsmanns og ákvað að fylgja ekki þeim tilmælum sem hann beindi til þess. Í ljósi aðstæðna ákvað umboðsmaður að verða við beiðninni og leggja til að gjafsókn yrði veitt.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. apríl 2022.

  

Vísað er til erindis yðar 17. mars sl. þar sem óskað er eftir því að umboðsmaður Alþingis leggi til við dómsmálaráðherra að yður verði veitt gjafsókn vegna máls sem þér hyggist höfða á hendur íslenska ríkinu. Samkvæmt því sem greinir í erindinu er tilefni málshöfðunar­innar að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur lýst sig ósammála áliti setts umboðsmanns Alþingis 30. desember 2020 í málum nr. 10343/2019 og 10475/2020 og ákveðið að fylgja ekki þeim tilmælum sem hann beindi til þess.

Eftir að hafa kynnt mér erindi yðar svo og þær upplýsingar sem mér bárust 22. apríl sl. hef ég ákveðið að nýta þá heimild sem umboðs­manni er falin samkvæmt d-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Hjálagt fylgir bréf mitt til dómsmálaráðherra þar sem ég legg til að yður verði veitt gjafsókn til höfðunar málsins.

   


    

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra 26. apríl 2022.

       

Í mars 2020 leitaði A til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem beindist m.a. að þeirri afstöðu fjármála- og efnahags­ráðuneytisins að stjórnsýslulög nr. 37/1993 ættu ekki við um ákvarð­anir um laun forstöðumanna og því ætti hún ekki rétt á rökstuðningi eða aðgangi að gögnum á grunni þeirra laga.

Um framangreinda afstöðu ráðuneytisins fjallaði settur umboðs­maður Alþingis í áliti 30. desember 2020 í málum nr. 10343/2019 og 10475/2020. Það var álit hans að afstaða ráðuneytisins á þá leið að stjórn­sýslulög giltu ekki um ákvarðanir ráðherra um reglubundin heildarlaun fyrir starf forstöðumanns á grundvelli 39. gr. a laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, væri ekki í samræmi við lög. Sú niðurstaða byggðist á því að ákvörðun ráðherra teldist ákvörðun um rétt eða skyldu manns og væri þar með stjórnvaldsákvörðun. Sá einstaklingur sem gegndi starfi forstöðumanns þegar ákvörðun væri tekin væri því aðili máls í skilningi stjórnsýslulaga, en af því leiddi m.a. að ákvörðun ráðuneytisins um að synja beiðni A um rök­stuðning og aðgang að gögnum máls hefði byggst á röngum laga­grund­velli. Settur umboðsmaður bendi því til ráðuneytisins að taka erindi A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysa þá úr beiðninni í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Jafnframt beindi hann því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.

A upplýsti umboðsmann Alþingis 11. maí sl. um að ráðuneytið hefði með bréfi sama dag hafnað beiðni hennar um rökstuðning og aðgang að gögnum á grundvelli stjórn­sýslulaga. Í bréfi ráðuneytisins, sem fylgdi erindi A, kom efnislega fram að það væri ekki sammála áliti setts umboðsmanns. A leitaði aftur til umboðsmanns með erindi 17. mars sl. og upplýsti að hún hefði ákveðið að höfða mál gegn íslenska ríkinu í tilefni af afstöðu ráðuneytisins þar sem myndi reyna á rétt hennar til rökstuðnings og aðgangs að gögnum samkvæmt stjórn­sýslulögum og þar með hvort þau lög hefðu átt við um téða ákvörðun ráðherra. Óskaði hún eftir því að umboðsmaður nýtti heimild sína til að leggja til að henni yrði veitt gjafsókn í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Samkvæmt umræddu ákvæði getur umboðsmaður lagt til við dóms­málaráðherra að veitt verði gjafsókn í máli sem heyrir undir starfs­­svið umboðsmanns og hann telur rétt að lagt verði fyrir dóm­stóla til úrlausnar. Upphaflega var mælt fyrir um slíka heimild til handa umboðsmanni í 10. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns, sbr. þingsályktun nr. 11/110. Í greinargerð með tillögu til þeirrar þingsályktunar kom fram að með því ákvæði væri umboðsmanni heimilað að leggja til að þeim er kvörtun hefði sett fram yrði veitt gjafsókn „til að fá leyst úr mikilsverðum vafaatriðum fyrir dómstólum“ (sjá þskj. 658 á 110. löggjafarþingi 1987-1988, bls. 6). Í nefndar­áliti allsherjarnefndar um tillöguna kom jafnframt fram að nefndin legði „mikla áherslu á að umboðsmaður [fengi] heimild til að veita gjaf­sókn þar sem hér [væri] um að ræða nýtt embætti sem ætlað [væri] að stuðla að réttarbótum í þjóðfélaginu“ (sjá þskj. 947 á 110. löggjafarþingi 1987-1988).

Af hálfu umboðsmanns Alþingis hefur verið litið svo á að einkum komi til greina að beita fyrrgreindri heimild í tilvikum þar sem hann hefur látið í ljós álit sitt á því að athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög og beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, en stjórnvaldið hefur ekki farið að þeim, enda sé það þá jafnframt mat umboðsmanns að málið hafi almenna þýðingu. Þar sem ég tel þessi sjónarmið eiga við um mál A er hér með lagt til við yður, herra dóms­málaráðherra, að henni verði veitt gjafsókn, sbr. d-lið sömu málsgreinar, til að höfða mál á hendur íslenska ríkinu vegna afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins samkvæmt áðurnefndu bréfi 11. maí sl.