Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11525/2022)

Kvartað var yfir stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga. 

Í kvörtuninni kom fram að ýmis atriði henni tengd hefðu verið borin undir lögregluna, Vinnueftirlitið og Persónuvernd. Þar sem þeim var ólokið sem og ágreiningi við stjórn Innheimtustofnunar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunarefnið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst 1. febrúar sl. og beinist að stjórn Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Eftir því sem fram kemur í henni lýtur hún að málsmeðferð í tengslum við tímabundið leyfi yðar frá störfum hjá stofnuninni sem yður var tilkynnt um 14. desember sl. í kjölfar þess að ný stjórn var skipuð yfir stofnuninni. Samkvæmt því sem greinir í kvörtun yðar hafið þér borið ýmis atriði, sem tengjast náið framangreindri atburðarás, undir lögregluna, Vinnueftirlitið og Persónuvernd.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál séu þau enn til meðferðar hjá stjórnvöldum, sbr. m.a. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þar segir að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hafi fellt úrskurð sinn í málinu. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að fyrrgreindum málum hjá lögreglunni, Vinnueftirlitinu og Persónuvernd sé ólokið, auk þess sem fyrirliggjandi gögn gefa ekki annað til kynna en að staða yðar hjá Innheimtustofnun sveitarfélaga sé enn til athugunar. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalda að lokinni málsmeðferð þeirra getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.