Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11550/2022)

Kvartað var afgreiðslu matvælaráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum um sölu búmarks en í svari þess kom fram að gögnin væru ekki í vörslu þess. 

Var viðkomandi bent á að bera erindi sitt upp við úrskurðarnefnd um upplýsingamál áður en lengra væri haldið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til erindis yðar 11. febrúar sl. sem snertir afgreiðslu matvælaráðuneytisins á beiðni um aðgang að gögnum um sölu búmarks. Í svari ráðuneytisins 10. febrúar sl. kemur m.a. fram að umbeðin gögn séu ekki í vörslum þess.

Í tilefni af kvörtun yðar tek ég fram að á grundvelli upplýsingalaga nr. 140/2012 starfar úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem hefur það hlutverk að leysa úr ágreiningsmálum um aðgang almennings að upplýsingum hjá stjórnvöldum, sbr. V. kafli laganna. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laganna er heimilt að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefndina.

Ástæða þess að ég nefni framangreint er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í því. Þar sem þér getið freistað þess að leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál með erindi yðar brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til þess sem rakið er að framan læt ég máli þessu lokið af minni hálfu með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér kjósið að leita til úrskurðarnefndarinnar getið þér leitað til mín á ný að fenginni niðurstöðu hennar ef þér teljið yður þá enn beittan rangsleitni.