Opinberir starfsmenn. Kjaranefnd. Laun. Ógilding. Upplýsingaréttur. Jafnræðisreglur.

(Mál nr. 2903/1999)

A kvartaði yfir málsmeðferð og niðurstöðu kjaranefndar um mat á störfum hans sem prófessors við lagadeild Háskóla Íslands sem byggð var á matsreglum nefndarinnar sem fylgdu úrskurði nefndarinnar um launakjör prófessora frá 2. júlí 1998.

A kvartaði í fyrsta lagi yfir því að slíkir annmarkar hefðu verið á málsmeðferð og ákvörðun kjaranefndar við ákvörðun launa prófessora við Háskóla Íslands, þ. á m. hans sjálfs, bæði formlega og efnislega, að úrskurður hennar 2. júlí 1998 og síðari ákvarðanir byggðar á honum yrðu að teljast varða ógildingu. Í öðru lagi kvartaði A yfir að kjaranefnd hefði ekki haft heimild til að krefja prófessora, þ. á m. hann, um þær upplýsingar og þau gögn og með þeim hætti sem hún gerði. Í þriðja lagi kvartaði A yfir að kjaranefnd hefði ekki mátt neita að láta honum í té nauðsynleg gögn, sem ráðið hefði röðun annarra prófessora í launaflokka, til þess að hann hefði getað séð hvort jafnræðis hefði verið gætt. Í fjórða lagi taldi A, hvað sem öðru liði, að kjaranefnd hefði borið að ákveða honum áfram þau hæstu laun sem hún hefði úrskurðað prófessorum við Háskóla Íslands því ella væri honum mismunað hlutfallslega miðað við aðra en það væri ólögmætt.

Settur umboðsmaður tók fram að ákvörðun kjaranefndar um laun A hefði verið byggð á 1. mgr. 11. gr. laga nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, og rakti í framhaldi af því ákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem er sambærilegt fyrrnefnda ákvæðinu en varðar aðra ríkisstarfsmenn en þá er kjaranefnd ákvarðar laun. Settur umboðsmaður rakti til hvaða atriða kjaranefnd hefði litið við ákvörðun launa prófessora við Háskóla Íslands og ástæður þess að viðmiðunarreglur kjaranefndar voru settar. Hann vísaði til álita umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2271/1997 og 2272/1997 og taldi að þau sjónarmið sem þar kæmu fram ættu almennt við um kvörtun A. Settur umboðsmaður féllst því á það með kjaranefnd að hún hefði haft heimild til að setja sér umræddar matsreglur í þeim tilgangi að stuðla að samræmi í úrlausnum sínum. Hið sama gilti um vinnureglur og viðmiðunarreglur nefndarinnar. Hann taldi að nefndin hefði ekki þurft til þess sérstaka lagaheimild og fyrrnefndar reglur væru í grundvallaratriðum reistar á málefnalegum sjónarmiðum og ættu að geta þjónað því markmiði að stuðla að jafnræði milli prófessora við launaákvarðanir þeirra. Settur umboðsmaður taldi að ætla mætti að slíkar reglur gætu tekið einhverjum breytingum. Þá vísaði hann til athugasemda sinna í málum nr. 2974/2000 og 2973/2000 varðandi stigagjöf fyrir fræðibækur og tímaritsgreinar. Einnig tók hann undir gagnrýni A varðandi skilyrði reglnanna fyrir stigagjöf fræðibóka.

Ennfremur taldi settur umboðsmaður að kjaranefnd yrði að taka afstöðu í hverju einstöku máli á grundvelli málefnalegs mats á atvikum og aðstæðum innan þess lagaramma sem nefndin starfar eftir. Kjaranefnd yrði því að geta lagt sérstætt mat á hvert mál fyrir sig og leysa úr því með rökstuddum hætti án þess að vera fyrirfram bundin af fastmótuðum efnisreglum. Settur umboðsmaður taldi því að kjaranefnd hefði verið heimilt að ákveða prófessorum misjafnlega há laun fyrir störf undir sama starfsheiti enda væri það gert á grundvelli hlutlægra og málefnalegra ástæðna og að því virtu að launakjör prófessora tækju að ákveðnu marki mið af árangri þeirra í starfi. Þá taldi settur umboðsmaður að kjaranefnd hefði verið rétt, með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga, að kveðja sér til aðstoðar menn sem hefðu sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði og að í þeirri ráðagerð hefði ekki falist valdframsal frá nefndinni til sérfræðinganna enda væri það kjaranefnd sem tæki endanlega ákvörðun um launakjör prófessora. Kjaranefnd hefði borið að leita lögbundinnar umsagnar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 120/1992 sem hún hefði og gert. Settur umboðsmaður gerði ekki athugasemd við þá ákvörðun kjaranefndar að byggja ákvörðun sína um launakjör prófessora á hugmyndum sem fengust við þessa álitsumleitan og taldi að í slíkri ákvörðun fælist engan veginn að félagið hefði bundið einstaka prófessora með yfirlýsingum sínum eða málflutningi fyrir nefndinni. Settur umboðsmaður tók undir með kjaranefnd að í 3. ml. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 120/1992 væri beinlínis byggt á því að fræðilegt mat nefndarinnar færi fram, annars vegar á álagi sem starfi fylgir og hins vegar á sérstakri hæfni starfsmanns er nýtist í starfinu. Settur umboðsmaður taldi að þátttaka prófessora í undirbúningi á mati á verkum annarra prófessora og talsmanna prófessora við hina lögbundnu álitsumleitan yrði hvorki felld undir vanhæfisástæður 3. gr. stjórnsýslulaga né ólögfestar vanhæfisreglur.

Settur umboðsmaður rakti 1. mgr. 9. gr. laga um nr. 120/1992 og taldi að af orðalagi ákvæðisins yrði ráðið að um væri að ræða tæmandi talningu á þeim upplýsingum sem kjaranefnd er heimilt að krefja embættismenn um áður en hún tekur ákvörðun um laun þeirra. Benti hann á að samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laganna er nefndinni ætlað að taka tillit til sérstakrar hæfni er nýtist í starfi og sérstaks álags sem starfinu fylgir. Settur umboðsmaður taldi að við samanburðarskýringu ákvæðanna yrði að ætla kjaranefnd víðtækar heimildir til að krefja prófessora um upplýsingar um gögn er varða starfsferil þeirra. Taldi settur umboðsmaður þannig að kjaranefnd hefði verið heimilt að krefja A um þær upplýsingar sem hún þurfti á að halda til að komast að niðurstöðu um sérstaka hæfni hans í starfi og ekki hefði verið að finna í opinberum gögnum.

Settur umboðsmaður rakti ákvæði 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga um rétt aðila máls á því að kynna sér skjöl og önnur gögn er málið varða nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill að það sé verulegum vandkvæðum bundið. Benti hann á að sá réttur félli ekki niður eftir að ákvörðun hefði verið tekin þar sem aðili stjórnsýslumáls gæti átt ríka hagsmuni af því að geta fengið að kynna sér þau gögn sem ákvörðun hefði byggst á til að meta réttarstöðu sína. Þá rakti settur umboðsmaður 17. gr. stjórnsýslulaga og taldi að af orðalagi þess mætti draga þá ályktun að stjórnvaldi bæri að leggja mat á þau andstæðu sjónarmið sem uppi væri í hverju máli og þá vegna einstakra gagna. Væri ekki hægt að útiloka aðila frá aðgangi að gögnum með almennum hugleiðingum þess efnis að upplýsingar af ákveðnu tagi væru almennt fallnar til þess að valda einhverju tjóni. Settur umboðsmaður taldi undantekningarákvæði stjórnsýslulaga um rétt aðila að gögnum máls ekki eiga við og beindi þeim tilmælum til kjaranefndar að hún léti A í té sundurliðun stigagjafar fyrir hvern prófessor kæmi fram ósk frá honum þess efnis.

I.

Hinn 13. desember 1999 leitaði A, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, til umboðsmanns Alþingis. Kvartaði hann í fyrsta lagi yfir, að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð og ákvörðun kjaranefndar við ákvörðun launa prófessora við Háskóla Íslands, þar á meðal hans sjálfs, bæði formlega og efnislega, að úrskurður hennar 2. júlí 1998 og síðari ákvarðanir, byggðar á honum, varði ógildingu. Í öðru lagi kvartaði hann yfir, að kjaranefnd hafi ekki haft heimild til að krefja prófessora, þar á meðal hann, um þær upplýsingar og þau gögn og með þeim hætti, sem hún gerði. Í þriðja lagi kvartaði hann yfir, að kjaranefnd hafi ekki mátt neita að láta honum í té nauðsynleg gögn, sem ráða röðun annarra prófessora í launaflokka, til þess að hann gæti séð, hvort jafnræðis hafi verið gætt og í fjórða lagi, að hvað sem öðru líði, beri kjaranefnd að ákveða honum áfram þau hæstu laun, sem hún úrskurðar prófessorum við Háskóla Íslands, því að ella sé honum mismunað hlutfallslega, miðað við aðra, en það sé ólögmætt.

Máli þessu var lokið með áliti, dags. 20. september 2001.

II.

Með bréfi til forseta Alþingis, dagsettu 16. mars 2000, vék Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sæti í máli þessu. Með bréfi forseta Alþingis 21. mars 2000 var Helgi I. Jónsson, héraðsdómari, settur til að fara með málið, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.

III.

Þann 2. júlí 1998 kvað kjaranefnd upp úrskurð um launakjör prófessora. Í úrskurðinum segir meðal annars svo:

„Samkvæmt 8. gr. laga, nr. 136/1997, um háskóla, skal yfirstjórn hvers skóla taka ákvörðun um fyrirkomulag kennslu, náms og námsmats og um skipulag rannsókna. Í lögum um Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands er kveðið á um að háskólaráð skuli setja reglur um starfsskyldur háskólakennara. Slíkar reglur hafa verið settar í Háskóla Íslands, sbr. reglur háskólaráðs um vinnuskyldu fastra kennara frá 8. september 1988 [...]. Starfsskyldur prófessora felast einkum í rannsóknum, kennslu og stjórnun. Í reglum um starfsskyldur, sem háskólaráð hafa sett, kemur fram hvernig vinnutími skiptist milli þessara þriggja þátta. Þá gegna prófessorar oft ýmsum störfum í þágu þjóðfélags og vísindasamfélagsins.

Prófessorsstarf hefur um margt sérstöðu. Til prófessora eru gerðar miklar hæfniskröfur og til að tryggja að þær verði uppfylltar eru skipaðar dómnefndir hverju sinni til þess að meta hæfni umsækjenda. Prófessor er sinn eigin stjórnandi að því marki sem skor, deild eða háskólaráð setja honum ekki sérstakar reglur. Honum ber að skila af sér ákveðinni kennslu samkvæmt þeirri kennsluskyldu sem á honum hvílir og að sinna ákveðnum stjórnunarstörfum, t.d. setu á deildarfundum. Að öðru leyti ráðstafar prófessor tíma sínum sjálfur. Starfsfrelsið felur í sér mikla ábyrgð.

[...]

Prófessorar hafa fram til þessa tekið laun í samræmi við ákvæði í kjarasamningum. Prófessorar við Háskóla Íslands hafa fengið laun samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs og Félags háskólakennara frá 30. ágúst 1995 [...].

Auk launa samkvæmt kjarasamningi hafa prófessorar átt kost á greiðslum úr svokölluðum vinnumatssjóði innan hvers háskóla vegna vinnu við rannsóknir umfram vinnuskyldu.

[...]

Í máli prófessora hefur komið fram að ein grundvallarhugmynd í skipulagi háskólastarfs sé sú að laun kennara og starfsmanna skóla skuli byggjast á árangri þeirra í kennslu, rannsóknum og stjórnun. Til að stuðla að auknum gæðum háskólastarfsins hafi því verið settir fram ákveðnir mælikvarðar sem beitt er til að leggja mat á árangur í starfi. Til eru bæði alþjóðlegir kvarðar og kvarðar sem hafa verið sérsniðnir eftir þörfum einstakra þjóða. Allir byggja þeir á nokkrum grundvallarhugmyndum sem síðan hafa verið útfærðar með ýmsu móti eftir því sem við á.

Meginhugmyndin við mat á grunnvísindum hefur verið sú að byggja á birtingu fræðiritgerða í viðurkenndum alþjóðlegum tímaritum. Einnig hefur verið lagt upp úr því að vega og meta tilvitnanir. Í hagnýtum rannsóknum hefur áhersla verið lögð á að meta að hve miklu gagni rannsóknirnar koma fyrir atvinnulífið og að hve miklu leyti nýsköpun í atvinnulífi á sér rætur í rannsóknarstarfinu.

Árangur vísindamanna er einkum mældur með þrennum hætti. Miðað er við magn birtra verka, gæði og áhrif. Stuðst er við mælistikur úr öllum flokkum við mat á störfum vísindamanna. Bókfræðilegir mælikvarðar eru í grundvallaratriðum tvenns konar: Mælikvarðar byggðir á fjölda og gæðum birtra rannsóknarita og mælikvarðar byggðir á fjölda tilvitnana. Talningu og mati á gæðum útgefinna verka er ætlað að gefa rétta mynd af framleiðni í vísindum. Áhersla er lögð á að styðjast bæði við hlutlægar aðferðir og huglægar aðferðir.

Einnig eru notaðar mælistikur á borð við fjölda fyrirlestra vísindamanns, setu í ritstjórn alþjóðlegra tímarita, fjölda tilvika þar sem kallað hefur verið eftir sérfræðiþekkingu vísindamanna og athygli sem framlag hans hefur vakið.

Einn meginvandi við það að meta eða gera úttekt á íslensku vísindastarfi er sá að ekki liggja fyrir samþykktir viðurkenndir mælikvarðar.

Þrátt fyrir ýmis vandkvæði við gerð mælikvarða og framkvæmd mats hefur kjaranefnd sett matsreglur (mælikvarða), sem notaðar verða við mat á störfum og árangri prófessora. Lögð er áhersla á að reglurnar taki til allra meginþátta háskólastarfs. Gefin eru stig fyrir framlag í rannsóknum, kennslu og stjórnun. Matsreglurnar eru hluti af þessum úrskurði [...].

Í samræmi við ákvæði 10. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd, hefur kjaranefnd borið launakjör prófessora, sem gegna þeim störfum að aðalstarfi, saman við launakjör þeirra, sem að áliti kjaranefndar geta talist sambærilegir eða sem næst sambærilegir með tilliti til starfa og ábyrgðar.

Ákvörðun kjaranefndar miðast við að um heildarkjör prófessora sé að ræða og eru laun þannig ákveðin að ekki skuli koma til frekari greiðslna nema kjaranefnd úrskurði um það sérstaklega.”

Samkvæmt úrskurðinum tók nýtt launakerfi gildi 1. janúar 1998. Var prófessorum raðað í fimm launaflokka (prófessor I, II, III, IV og V) og mánaðarlaun þeirra ákveðin frá 211.950 krónum (prófessor I) til 269.661 krónu (prófessor V). Auk mánaðarlauna skyldi greiða prófessorum í flokkum II til V einingar fyrir fasta yfirvinnu, prófessor II 6 einingar á mánuði, prófessor III 11 einingar á mánuði, prófessor IV 17 einingar á mánuði og prófessor V 23 einingar á mánuði, en auk fastrar yfirvinnu var heimilt að greiða prófessorum í flokkum I til IV fyrir kennsluyfirvinnu, prófessor I 30 tíma á mánuði, prófessor II 22 tíma á mánuði, prófessor III 15 tíma á mánuði og prófessor IV 8 tíma á mánuði.

Með úrskurðinum fylgdu matsreglur kjaranefndar um launakjör prófessora frá 2. júlí 1998. Kemur þar fram, að tiltekin atriði séu metin til stiga, svo sem síðar verður gerð grein fyrir, og ráði fjöldi stiga því í hvaða launaflokk prófessor raðast.

Með bréfi, dagsettu 30. október 1998, tilkynnti kjaranefnd A um niðurstöðu mats á störfum hans sem prófessor samkvæmt áðurnefndum matsreglum. Samkvæmt niðurstöðu nefndarinnar var honum raðað í I. launaflokk og þá hlaut hann 575 stig vegna mats á störfum hans, sem sundurliðuðust sem hér segir: Rannsóknir: 127 stig, kennsla: 193 stig, stjórnun: 222 stig, annað: 33 stig. Af því tilefni krafðist A þess með bréfi til nefndarinnar, dagsettu 3. nóvember 1998, að ákvörðunin yrði endurskoðuð. Bæri nefndinni að láta honum í té gögn, sem vörðuðu ákvörðunina og rökstuðning að baki henni. Til þess að hann gæti séð, hvort kjaranefnd hefði gætt jafnræðis, yrði hann að fá aðgang að gögnum, sem vörðuðu aðra prófessora. Erindi þessu svaraði kjaranefnd með bréfi 23. nóvember 1998. Með bréfinu fylgdi sundurliðað stigamat vegna röðunar A í launaflokk. Segir í bréfinu, að áður en nefndin taki endanlega ákvörðun um röðun hans í launaflokk, sé honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum við matið fyrir 1. desember 1998. Með bréfi til nefndarinnar 30. nóvember 1998 ítrekaði A áðurnefndar kröfur sínar í bréfinu frá 3. nóvember 1998 um gögn og rökstuðning. Þá segir þar meðal annars, að í lögum um Kjaradóm og kjaranefnd sé hvergi gert ráð fyrir stigamati og því síður mismunandi launaflokkum prófessora. Jafnframt ættu vinnureglur nefndarinnar og svonefndir matshópar sér ekki lagastoð, að minnsta kosti að því leyti til að hafa áhrif á lögskipað úrskurðarvald kjaranefndar um kjör hans. Af hálfu kjaranefndar var bréfi þessu svarað með bréfi, dagsettu 18. desember 1998, sem með fylgdi nánari sundurliðun á stigagjöf til A, ásamt nokkrum skýringum. Samkvæmt því bætti hann við sig 143 rannsóknarstigum og 2 kennslustigum frá fyrra mati. Í bréfinu er þess getið, að kjaranefnd geti ekki afhent honum persónuleg gögn, sem varði aðra en hann. Bréfi þessu svaraði A með bréfi, dagsettu 10. janúar 1999. Eru þar færð rök fyrir mótmælum hans við vinnubrögðum kjaranefndar, sem síðar verður gerð grein fyrir, og skorað á kjaranefnd að endurupptaka fyrrnefndan úrskurð sinn um launakjör prófessora. Var erindið áréttað í bréfi A til kjaranefndar frá 8. febrúar 1999 og það rökstutt enn frekar.

Með bréfi kjaranefndar, dagsettu 22. júní 1999, var A tilkynnt um, að á fundi kjaranefndar 9. sama mánaðar hefði hún tekið ákvörðun um röðun prófessora í launaflokka. Hefði nefndin ákveðið, að A tæki laun samkvæmt launaflokki I og að hann hefði í endanlegu stigamati nefndarinnar hlotið 719 stig, sem skiptust þannig: Rannsóknir 212 stig, kennsla 211 stig, stjórnun 260 stig, annað 36 stig.

Þá ritaði kjaranefnd A bréf 29. júní 1999 í tilefni af áðurnefndum bréfum hans frá 10. janúar, 8. febrúar 1998 og 3. maí 1999. Í bréfi kjaranefndar er gerð grein fyrir lagasjónarmiðum að baki málsmeðferð nefndarinnar og á hvaða grunni hún tók ákvörðun um launakjör prófessora. Með bréfi, dagsettu 4. júlí 1999, krafðist A lögmæts, rökstudds úrskurðar kjaranefndar um launakjör hans sem prófessors og vísaði í því sambandi til fyrri erinda sinna til nefndarinnar. Kjaranefnd svaraði því bréfi með bréfi 10. ágúst 1999, þar sem fram kemur, að nefndin hafi tekið ákvörðun 2. júlí 1999 um launakjör prófessora. Á grundvelli hennar hafi nefndin tekið ákvörðun 9. júní 1999 um röðun prófessora í launaflokka samkvæmt umræddum úrskurði nefndarinnar 2. júlí 1998. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 120/1992, sbr. 56. gr. laga nr. 70/1996, skuli kjaranefnd taka mál til meðferðar þegar henni þykir þurfa og ætíð, ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu, sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögum nr. 120/1992, eða á störfum þeirra, sem úrskurðarvald nefndarinnar tekur til. Telji kjaranefnd, að ekki séu efni til að taka nú nýja ákvörðun um launakjör hans.

Með bréfi kjaranefndar til A, dagsettu 29. desember 2000, var honum tilkynnt, að hann tæki laun samkvæmt III. launaflokki frá 1. janúar 1998. Með bréfinu fylgdu endurskoðaðar niðurstöður grunnmats, byggðar á upplýsingum, sem A hafði sent nefndinni með bréfi 20. nóvember 2000. Samkvæmt hinu endurskoðaða mati hlaut A samtals 952 stig, sem skiptust þannig: Rannsóknir: 383 stig, kennsla: 256 stig, stjórnun: 244 stig, annað: 9 stig og þjónusta: 60 stig.

Varðandi almennan rökstuðning fyrir kvörtunarefnum segir meðal annars svo í greinargerð A til umboðsmanns Alþingis, dagsettri 13. desember 1999:

„Ég held því fram að hvorki 1. nr. 120/1992, sbr. 1. nr. 70/1996, né nokkrar aðrar réttarheimildir, heimili kjaranefnd að ákvarða prófessorum, þ.á m. mér, laun með þeim hætti, sem hún hefur gert, og nánar er vikið að í bréfum mínum til nefndarinnar sem eru fylgiskjöl með kvörtun þessari.

Í grófum dráttum er aðferð kjaranefndar við ákvörðun launa prófessora fólgin í því að búnir eru til 5 flokkar prófessora, prófessor I, prófessor II, prófessor III, prófessor IV og prófessor V og hverjum flokki ákveðin tiltekin mánaðarlaun. Síðan er í úrskurðinum sett ákvæði til bráðabirgða þess efnis að störf prófessora verði metin og þeim raðað í flokkana samkvæmt því mati. Þegar þannig prófessor fékk þennan úrskurð í hendur vissi hann ekki annað en það, að honum yrði raðað í einhvern þessara flokka, svo fremi að hann léti í té gögn, sem síðan yrðu notuð til að gefa honum stig eftir matsreglum og honum einhvern tíma síðar skipað í flokk samkvæmt því. Með úrskurðinum var einstakur prófessor því engu nær um laun sín. Orða má það svo að úrskurðurinn hafi því verið ,,óendanlegur.” Um endanlega launaákvörðun sína fékk prófessor síðan að vita með bréfi kjaranefndar þar sem fram kemur hver stig hann hafi hlotið og í hvaða flokk hann félli, samkvæmt þeirri stigagjöf, ég með bréfi 10. ágúst 1999, eða rúmu ári eftir að framangreindur úrskurður féll.

Helstu annmarkar á málsmeðferð og ákvörðunaraðferð kjaranefndar eru þessir:

Að kjaranefnd hafi ekki mátt beita afturvirku mati á störf prófessora, þ.á m. mín, með þeim hætti sem hún gerði

Að kjaranefnd hafi í raun framselt ákvörðunarvald sitt með

þeim hætti og í svo ríkum mæli að ekki standist að stjórnsýslurétti.

Að ákvarðanir kjaranefndar séu byggðar á ómálefnalegum grunni.

[...]

1. Um flokkun prófessora.

[...]

Í úrskurði kjaranefndar segir að hugmyndin um flokkun prófessora sé komin frá viðræðunefnd” sem Félag prófessora hafi skipað og sé úrskurðurinn byggður á þeim hugmyndum. Engin skýring er gefin á því að flokkarnir séu 5 eða á hverju launamismunur milli flokka er sá sem hann er. Ekkert samningssamband er milli Félags prófessora eða „viðræðunefndar” annars vegar og kjaranefndar hins vegar. Sú aðferð að raða prófessorum í flokka verður því ekki byggð á neins konar samningssambandi, enda er hlutverk kjaranefndar að kveða einhliða á um launakjör prófessora með stjórnvaldsákvörðun sem fjölskipað stjórnvald.

Skipan prófessora í mismunandi launaflokka byggir ekki á því að um mismunandi störf sé að ræða eða að þau hafi breyst. M.ö.o. ákvarðar kjaranefnd prófessorum mismunandi laun fyrir sömu störf. Mismunina byggir kjaranefnd að því er virðist á því, að prófessorar hafi ekki allir, fram til ákvörðunar nefndarinnar, skilað nákvæmlega sama vinnuframlagi fyrir samningsbundin laun sín til þessa tíma, skv. mælikvarða sem nefndin býr til og ætlað er að gilda aftur í tímann, allan starfstíma prófessors hjá H.Í. fram til áramóta 1997/1998. Prófessorar eiga m.ö.o. að gjalda þess eða njóta þess nú í launakjörum hvernig þeir höguðu störfum sínum í fortíðinni þótt enn sé um sömu störf að ræða og enda þótt ekki liggi annað fyrir en að störfin hafi verið innt af hendi að öllu leyti í samræmi við gildandi reglur og hefðir. Ég tel að ákvörðun launa með því að beita slíkum afturvirkum áhrifum á störf prófessora, þ.á m. mín, standist ekki.

[...]

Fyrir liggur að svokölluð „viðræðunefnd” og athafnir hennar er í raun sá grundvöllur sem kjaranefnd byggir allan málatilbúnað sinn á, svo sem fram kemur í úrskurði hennar og bréfum. Að því gefnu að þessi „viðræðunefnd” verði talin „talsmaður” í skilningi 2. mgr. 9. gr. 1. 120/1992 m.s.b. hefur formskilyrðinu um álitsumleitan verið fullnægt. Umsögn „viðræðunefndar” getur hins vegar ekki bundið einstaka prófessora með yfirlýsingum sínum og/eða málflutningi, svo sem kjaranefnd virðist ganga út frá. Hér er um svo mikilsverða hagsmuni að ræða, sem kjaranefnd ræður til lykta með svo óvenjulegum hætti, að skýrt umboð hefði þurft frá hverjum og einum prófessor þessum aðila til handa. Því er ekki til að dreifa. Gagnstætt ótvíræðum ákvæðum 1. 120/1992 m.s.b. getur kjaranefnd ekki borið fyrir sig að ákvarðanir hennar byggist á yfirlýsingum og/eða málflutningi „viðræðuefndar” eða Félags prófessora.

2. Um svokallaða „ráðgjafanefnd.“

Að því er ég best fæ séð kemur svokölluð „ráðgjafanefnd” fyrst fyrir í gögnum í inngangi skjals, sem ber yfirskriftina „Vinnureglur matshópa” og undirritað er af kjaranefnd 5. nóvember 1998, en eins og komið hefur fram var úrskurður kjaranefndar kveðinn upp 2. júlí 1998. Úrskurðinum fylgdu matsreglur „sem sögðu til um hvernig einstök verk skyldu raðast í flokka á grundvelli matsins”, eins og það er orðað í inngangi áðurnefnds plaggs. Þar segir einnig: „Sérstök nefnd, ráðgjafanefnd, var kjaranefnd til ráðuneytis við framkvæmd matsins. Í ráðgjafanefndinni sátu [C], [D], [E] og [F], auk formanns kjaranefndar.” Þá segir að mat á „starfsferli prófessora” hafi verið unnið í fjórum „matshópum” og hafi hver þeirra verið skipaður einum „sérfræðingi frá háskólanum”, einum „sérfræðingi utan háskólanna” og tveimur fulltrúum frá „ráðgjafanefnd kjaranefndar.” Þá segir: „Til að samræma vinnubrögð matshópa var hver ráðgjafarefndarfulltrúi í tveimur matshópum.”Hvergi í lögum er minnst á „ráðgjafanefnd” hvað þá nefnd með þessu hlutverki, hennar er ekki getið í úrskurði kjaranefndar 2. júlí 1998 og ekki kemur fram á hvaða sjónarmiðum skipun hennar er byggð. Sé lögmæti málsmeðferðar kjaranefndar látið liggja á milli hluta að sinni, gæti litið svo út við fyrstu sýn að þessi nefndarskipan væri aðeins liður í rannsóknarskyldu kjaranefndar, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, en það stenst ekki. Ákvörðun í stjórnsýslumáli Jóns Jónssonar, prófessors og kjaranefndar er hins vegar eftir sem áður kjaranefndar einnar.

[...]

Ráðning prófessora í starf lýtur mjög ströngum málsmeðferðarreglum, nú skv. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands, sem eiga sér fáar hliðstæður meðal ríkisstarfsmanna. Miklar hæfniskröfur eru gerðar til umsækjenda, sem færustu sérfræðingar, innlendir og erlendir, á viðkomandi sviði, eru einungis taldir hæfir til að fjalla um og meta. Því má ljóst vera að kjaranefnd, eins og hún er skipuð, er engan veginn í stakk búin til þess að framkvæma slíkt hæfnismat, hvað þá að endurskoða mat lögskipaðra dómnefnda á hæfi prófessora, í hvaða skyni sem væri, eða að meta „sérstaka hæfni” þeirra. Er enda ljóst af l. 120/1992 m.s.b. og samsetningu nefndarinnar að löggjafinn hefur alls ekki gert ráð fyrir að kjaranefnd hefði slíkt fræðilegt hlutverk. Það viðurkennir kjaranefnd raunar sjálf með skipun „ráðgjafarnefndar” og „matshópa.”

Þess vegna held ég því fram að í raun liggi fyrir valdframsal að þessu leyti til „ráðgjafanefndar” frá kjaranefnd. Hvorki í 1. 120/1992 m.s.b. né öðrum lögum er heimild til slíks valdframsals. Engin almenn heimild er í lögum til skipunar undirnefnda stjórnsýslunefndar eins og kjaranefndar. Valdframsal til undirnefnda í ólögfestum tilvikum mun víst þekkjast en er mjög sjaldgæft. Það nefnist ytra valdframsal, þegar undirnefnd er að einhverju leyti skipuð öðrum mönnum en setu eiga í aðalnefndinni. Almenna reglan er sú að slíkt valdframsal er ólögmætt, nema skýrt sé kveðið á um það í lögum.

3. Um svokallaða matshópa.

Í ákvörðunarferli kjaranefndar gegna svonefndir „matshópar”, sem kjaranefnd kom á fót, svo veigamiklu hlutverki við launaákvörðun til handa prófessorum, að ég tel að sömuleiðis verði að gera kröfu um lagastoð til skipunar þeirra og setningu „vinnureglna” um störf þeirra, sem raunar voru ekki settar fyrr en 5. nóvember 1998, um fjórum mánuðum eftir uppkvaðningu úrskurðar kjaranefndar. Nægir í þessu efni að vísa til þess plaggs sem er einar 8 blaðsíður A4. Matið, sem þessum hópum er ætlað að framkvæma, er flókið sérfræðilegt mat á nær öllum sviðum vísinda og akademísks starfs og álitaefni mörg, en umfram allt býður það upp á víðtækt frjálst mat, sem hefur að lokum afdrifarík réttaráhrif.

Endanleg niðurstaða um flokkun prófessora og laun þeirra virðist byggjast í raun á mati þessara hópa, sem engar upplýsingar eru um eftir hvaða reglum eru skipaðir eða hverjir sitja í þeim. Þessi ályktun fær stoð í því að líta til menntunar og starfsreynslu kjaranefndarmannanna sjálfra, en ekki verður séð að neinn þeirra hafi þann akademískan feril að teljast hæfur til að meta hin margbreytilegu fræðastörf- og rit prófessora, svo sem áður greinir. Er því ljóst að kjaranefnd hefur orðið að byggja í öllum aðalatriðum á mati þessara hópa, en í því felst svo víðtækt valdframsal að ekki fær staðist án skýrrar lagaheimildar, svo miklir hagsmunir sem í húfi eru. Ítreka ber að þegar litið er til l. mgr. 8. gr. laga nr. 120/1992 m.s.b. um skipan kjaranefndar og 11. gr., sbr. 10. gr. sömu laga um heimildir nefndarinnar, sýnist óhætt að fullyrða að það hefur ekki verið tilgangur löggjafans að nefndin hefði með höndum slíkt sérfræðilegt mat, enda nefndarmenn ekki þeim kostum búnir að vera færir um það af sjálfsdáðum. Þeir verða hins vegar taldir hæfir til þess að ákvarða laun með þeim hætti, sem 11. gr., sbr. 10. gr. kveður á um samkvæmt hljóðan sinni, þar sem ekki er gert ráð fyrir neins konar fræðilegu mati á störfum og verkum þeirra, sem nefndinni er ætlað að ákvarða laun.

Loks skal sérstaklega á það bent að einnig vakna spurningar um vanhæfi manna, sem setið hafa í þessum „matshópum”, en líkur eru á að um hafi verið að ræða m.a. prófessora við H.Í. en þeir hafa að sjálfsögðu verulegra hagsmuna að gæta varðandi niðurstöðu slíks mats og ákvörðun kjaranefndar. [...]

4. Um „matsreglur” og „stigagjöf.”

Í úrskurði kjaranefndar er m.a. gerð svofelld grein fyrir hinum svonefndu „matsreglum”: „Einn meginvandinn við það að meta eða gera úttekt á íslensku vísindastarfi er sá að ekki liggja fyrir samþykktir viðurkenndir mælikvarðar. Þrátt fyrir ýmis vandkvæði við gerð mælikvarða og framkvæmd mats hefur kjaranefnd sett matsreglur (mælikvarða) sem notaðar verða við mat á störfum og árangri prófessora. Lögð er áhersla á að reglurnar taki til allra meginþátta háskólastarfs. Gefin eru stig fyrir framlag í rannsóknum, kennslu og stjórnun.”

Matsreglurnar (mælikvarðarnir) eru því algjörlega hugarfóstur kjaranefndar og er hvergi í úrskurðinum vikið að sérstakri fyrirmynd en farið almennum orðum um að til séu bæði alþjóðlegir kvarðar og kvarðar sem hafi verið sérsniðnir eftir þörfum einstakra þjóða til að stuðla að auknum gæðum háskólastarfsins og sé þeim beitt til að leggja mat á árangur í starfi. Hér er komið að grundvallaratriði. Það er að sjálfsögðu gott og blessað að finna aðferðir til að stuðla að auknum gæðum háskólastarfs og að reyna að meta árangur starfsmanna og hefur raunar í áranna rás verið gert í Háskóla Íslands. Það er hins vegar allt annar hlutur en að ætla sér að meta unnin verk langt aftur í tímann til þess nú að ákvarða mönnum laun, sem fram til þess tíma tóku laun samkvæmt kjarasamningum. Ég held því fram að mat eins og beitt er við flokkun og launaákvarðanir prófessora sé í raun illframkvæmanlegt bæði vegna réttmætisreglu (þ.e. að málefnalegra sjónarmiða skuli gætt við ákvörðun stjórnvalds) og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar. Hitt er svo allt annað mál að í skjóli sjálfstæðis síns gæti háskólinn sjálfur komið upp einhverju slíku kerfi og með samþykki þeirra sem í hlut eiga, enda virkaði kerfið ekki aftur fyrir sig. Það er grundvallarregla að menn geti í slíkum efnum séð fyrir eða fengið að vita að hverju þeir ganga og lagað störf sín og starfshætti í samræmi við það.

Ég held því fram að nefndar „matsreglur” séu í raun grundvöllur launaákvörðunar til handa hverjum prófessor, þar sem koma fram þær efnisreglur sem kjaranefnd beitti við launaákvarðanir sínar. Hvergi í lögum er að finna heimild kjaranefndar fyrir „setningu” slíkra efnisreglna, en þegar um svo mikilsverð réttindi er að ræða, sem rétturinn til starfslauna er, sem nýtur verndar stjórnarskrár og starfsmannalaga, verður að gera strangar kröfur til réttarheimilda. Ég tel því að slíkar reglur verði að hafa ótvíræða lagastoð. Ekki aðeins á ég, eins og aðrir prófessorar, það fyrst og fremst undir efni þessara reglna, túlkun þeirra og beitingu, hver embættislaunin verða. Við það bætist að reglurnar eru flóknar, teygjanlegar og gefa tilefni til margra skýringarkosta, auk þess sem mat samkvæmt þeim er galopið því tekið er fram í niðurlagi þeirra, að kjaranefnd geti vikið frá þeim, ef sérstaklega standi á að hennar mati. Hér er og rétt að geta þess að vegna athugasemda frá prófessorum breytti kjaranefnd reglunum 17. desember 1998, sem sýnir best þann „geðþóttakeim” sem af þeim er.

5. Um „vinnureglur” fyrir „matshópa.”

[...]

Það sem skiptir máli er að í „vinnureglum” þessum er gert ráð fyrir svo flóknu fræðilegu mati að ég efast um að það eigi sér nokkra hliðstæðu og þar að auki svo miklu frjálsu mati að erfitt er að ímynda sér hvernig unnt sé að gæta málefnalegra sjónarmiða og jafnræðis. Í þeim eru atriði sem t.d. dómnefndir um hæfi til prófessoraembætta þurfa ekki að standa frammi fyrir, t.d. hvað sé bók, hvað teljist grein í fræðiritum, hvað fræðirit sé, hvað teljist skýrsla, álitsgerð, útdráttur, ritdómur, fræðslurit fyrir almenning, erindi, veggspjald, tilvitnanir, fyrirlestrar, ritnefndir, kennslureynsla, kennslurit, smárit o.s.frv. o.s.frv.

„Skilgreiningar” í þessum efnum eru yfirleitt aðeins fullyrðingar. Þannig segir undir liðnum Bækur: ,,Skilyrði þess að bók sé metin í þennan flokk er að hún sé á fræðasviði viðkomandi og gefin út af viðurkenndum útgefanda fræðibóka.” Bara þessi liður vekur margar spurningar varðandi málefnalegt mat og verður hér tekin fyrir sem dæmi. Í háskóla ríkir akademískt rannsóknarfrelsi. Yrði það t.d. ekki metið hér ef lögfræðiprófessor gæfi út öndvegisrit um heimspeki eða geðlæknir á sviði sálarfræði? Hvað er viðurkenndur útgefandi? Eftir hvaða sjónarmiðum metur kjaranefnd það málefnalegu mati? Því fremur, hver er viðurkenndur útgefandi fræðibóka? Hvað ef höfundur gefur rit sitt út sjálfur, sem tíðkast í stórum stíl á tölvuöld? Yrði t.d. doktorsritgerð sem höfundur gæfi sjálfur út á bók, ekki metin samkvæmt þessum lið?

Undir liðnum Greinar í fræðiritum segir m.a.: „Eingöngu ritrýnd tímarit teljast til fræðirita” og síðan er leitast við að skilgreina hvað „ritrýning” sé. Tekin eru dæmi um tímarit og þau flokkuð án þess að gerð sé nokkur grein fyrir á hvaða málefnalega sjónarmiðum flokkunin byggist og mismunandi stigagjöf samkvæmt henni. Undir liðnum Fræðirit fyrir almenning segir: „Fræðslurit fyrir almenning þurfa að vera viðamikil, útgefin af forlagi, vera á fræðasviði prófessors eða hafa verulega dreifingu til að ná í þennan flokk.” Undir liðnum Tilvitnanir segir m.a.: „Eingöngu eru taldar tilvitnanir sem getið er í SCI, SSCI eða AHCL.” Þessi dæmi verða látin nægja hér sem sýnishorn. Þess skal hins vegar getið að í plagginu má finna setningar eins og þessar: „Greinar í neðangreindum tímaritum eru að jafnaði metnar samkvæmt þessum flokki en í nokkrum tilvikum eru viðamiklar greinar í þeim metnar sem ritrýndar...” og „Hafi prófessor birt mjög mikið efni af þessu tagi er matsnefndum heimilt að gera tillögu ...”

[...]

Kvörtunarefni II.

Að kjaranefnd hafi ekki haft heimild til að krefja prófessor, þ.á m. mig, um þær upplýsingar og þau gögn og með þeim hætti, sem hún gerði.

[...]

Í l. 120/1992 m.s.b. er kveðið á um hverra gagna og hjá hverjum nefndin getur aflað upplýsinga. Í bréfi til mín dags. 29. júní 1999 afmarkar kjaranefnd sjálf þetta efni. Þar segir: „Þar sem kjaranefnd á frumkvæði að þeim launaákvörðunum sem hún tekur, krefur hún málsaðila jafnan ekki um önnur gögn en bein ákvæði settra laga bjóða. Þá lagaheimild sem nefndin studdi fyrrgreinda sína ósk við er að finna í 9. gr. laganna. Síðan er l. mgr. 9. gr. tekin upp [...]

Þarna viðurkennir kjaranefnd réttilega að henni sé ekki heimilt að krefja aðila um önnur gögn en þau er bein ákvæði settra laga heimila. Eina setta lagaákvæðið í þessu efni er áðurnefnd 9. gr. Hér ber fyrst að taka fram að ekki segir þar hverra gagna og upplýsinga kjaranefnd geti aflað hjá einstökum mönnum samkvæmt ákvæðinu. Hins vegar er getið um tilteknar upplýsingar og gögn sem hún getur krafið embættismenn um, þ.e. um aukastörf og hlunnindi sem störfum þeirra fylgja. Þar sem þessi orð eru sérstakur málsliður 1. mgr. mætti ætla við fyrstu sýn að einfaldlega ætti að gagnálykta frá þessum málslið, þ.e. að kjaranefnd hefði ekki heimild til þess að krefja aðra einstaka menn um upplýsingar um aukastörf og hlunnindi sem störfum þeirra fylgja. En jafnvel þótt lögjöfnun væri beitt, væri kjaranefnd aðeins heimilt að krefja prófessor um upplýsingar um aukastörf og hlunnindi sem starfi hans fylgdu, þ.e.a.s. þær sem fáanlegar eru, sbr. tilvitnuð ummæli í greinargerðinni og það hlutverk kjaranefndar m.a. að kveða sérstaklega á um aukastörf og laun fyrir þau. Ljóst er hins vegar að þetta lagaákvæði, sem er hið eina um þetta efni, veitir kjaranefnd engan rétt til þess að krefjast gagna frá prófessorum um störf þeirra við rannsóknir, stjórnun og kennslu langt aftur í tímann til þess síðan að nota þær sem mælikvarða til að ákvarða þeim laun nú. Upplýsingar og gögn um starf prófessors sem kjaranefnd má samkvæmt ákvæðinu afla liggja raunar ljós fyrir í megindráttum og einfaldlega unnt að afla þeirra hjá miðstjórn Háskóla Íslands. Slíkar almennar upplýsingar liggja sem sagt á lausu að öllu verulegu, þótt það kynni að koma til þess að prófessor væri beðinn beint um upplýsingar þar fyrir utan, sem vörðuðu starfið beinlínis eins og hann gegnir því nú. Hitt er hins vegar fjarri lagi að prófessor verði samkvæmt þessu ákvæði, eins og áður greinir, krafinn um þær upplýsingar, sem kjaranefnd hefur nú gert í þessari málsmeðferð og með þeim réttaráhrifum, sem nú er komið í ljós að þær höfðu, enda er mér ekki kunnugt um að slík krafa sé gerð til nokkurs starfsmanns hjá hinu opinbera. Það er á þessum lagalega grunni sem ég hef ekki talið mér skylt að láta kjaranefnd slíkar upplýsingar í té og skiptir þá engu máli í því sambandi þótt einhverjir eða jafnvel allir aðrir prófessorar við Háskóla Íslands hafi sjálfviljugir látið nefndinni slíkar upplýsingar í té, án skyldu.

Þá er það spurning hvort aðrar réttarheimildir leggi slíka skyldu á prófessora. Svo er ekki. Samkvæmt stjórnsýslurétti er greint á milli þess hvort stjórnsýslumál hefst að frumkvæði aðila eða að frumkvæði stjórnvalds og skiptir þetta atriði máli í mörgum samböndum, þ.á m. heimild stjórnvalds til að krefja aðila um gögn. Þegar mál byrjar að frumkvæði stjórnvalds, eins og hér er um að ræða, er það meginregla að stjórnvald getur almennt ekki krafið málsaðila um gögn nema það hafi til þess viðhlítandi lagaheimild. Lagaheimildin í þessu tilviki er nefnd 1. mgr. 9. gr. l. 120/1992 m.s.b. og samkvæmt því sem rakið hefur verið heimilar hún ekki að krefja prófessor um þær upplýsingar og þau gögn og með þeim hætti, sem kjaranefnd gerði. [...]

Kvörtunarefni III.

Að kjaranefnd hafi ekki mátt neita að láta mér í té nauðsynleg gögn sem ráða röðun annarra prófessora í launaflokka til þess að ég gæti séð hvort jafnræðis hafi verið gætt.

Ég bað ítrekað skriflega um þau gögn sem þessi liður kvörtunar minnar varðar, en var synjað. Ég gerði það áður en kjaranefnd kvað upp úrskurð sinn 2. júlí 1998.

Meginreglur upplýsingaréttar aðila máls, skv. 15. gr. l. 37/1993 og hér skipta máli, eru þessar: Aðili á rétt á að kynna sér öll gögn máls í hvaða formi sem er. Hann á einnig rétt á aðgangi að gögnum úr öðrum stjórnsýslumálum, sem stjórnvöld afla. Aðili á þennan rétt strax í upphafi máls og einnig eftir að ákvörðun hefur verið tekin. Ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna takmarka ekki þennan rétt aðila. Undantekningar frá upplýsingareglunni í 16. og 17. gr. stjórnsýslulaga eiga hér ekki við. Ákvörðun um synjun á upplýsingarétti ber stjórnvaldi að rökstyðja skv. meginreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Hafi stjórnvaldsákvörðun verið tekin og aðila synjað um að kynna sér þýðingarmikil gögn máls er a.m.k. íþyngjandi ákvörðun, eins og hér er um að ræða, talin haldin verulegum annmarka.

Þau nauðsynlegu gögn sem ég bað um voru hvorki þess eðlis né fjöldi þeirra svo mikill, að verið hafi verulegum vandkvæðum bundið fyrir kjaranefnd að láta mér þau í té, sbr. 15. gr. stjórnsýslulaga. A.m.k. í fyrstu lotu hefði verið nægjanlegt fyrir kjaranefnd að láta mér í té ljósrit svonefndrar „sundurliðunar stigagjafar” fyrir hvern prófessor og sjá til hvort það dygði ekki. Það hefði tekið starfsmann varla meira en klukkustund með góðri ljósritunarvél að ganga frá þeim gögnum til mín, sem ég hefði greitt fyrir lögum samkvæmt.

Af því sem ég hef nú rakið tel ég synjun kjaranefndar á því að láta mér í té umrædd gögn ólögmæta.

Kvörtunarefni IV.

Að hvað sem öðru líði beri kjaranefnd að ákveða mér áfram þau hæstu laun sem hún úrskurðar prófessorum við Háskóla Íslands, því ella er mér mismunað hlutfallslega miðað við aðra, en það er ólögmætt.

Samkvæmt skipunarbréfi forseta Íslands árið 1979 gegni ég embætti sem varið er af 20. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og á rétt á launum sem því embætti fylgja á hverjum tíma, þ.e. embættislaun sem fylgja embættistitlinum prófessor, sem er aðeins sinn. Hvergi í lögum eða reglugerðum er að finna titil, embætti eða starf með heitinu prófessor I, prófessor II, prófessor III, prófessor IV, prófessor V.

Embættisstörf mín, eins og annarra prófessora, eru sérstaklega skilgreind af Háskóla Íslands, sbr. nú reglur háskólaráðs, dags. 8. september 1988. Gekk ég í upphafi að þessum starfsskyldum og hef rækt þær athugasemdalaust fram á þennan dag og tekið mín embættislaun fyrir. Samkvæmt reglum háskólaráðs skiptast embættisstörfin í kennslu, stjórnun og rannsóknir í nánar tilgreindum hlutföllum. Þessi skilgreining hefur ekki breyst og gildir um störf allra prófessora H.Í. jafnt, sem fengið hafa fyrir þau sömu laun samkvæmt kjarasamningum. [...]

Samkvæmt almennum vinnurétti gildir sú meginregla að vinnuveitandi hefur ekki heimild til að breyta starfskjörum manns einhliða. Það er einnig meginregla að starfsmaður þurfi ekki að sæta meiri breytingu á störfum sínum eða kjörum en hann gat búist við þegar hann var ráðinn eða samningar voru gerðir um kjör hans. Ákvörðun kjaranefndar gengur í berhögg við þessa meginreglu, sem nú verður talin einnig gilda um starfsmenn ríkisins. Réttur þeirra til launa er því varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefur kjaranefnd ekki rýmri heimild til einhliða breytinga á launakjörum og starfsréttindum prófessora en vinnuveitendur hafa almennt gagnvart starfsmönnum á hinum almenna vinnumarkaði, en fram að úrskurði kjaranefndar tóku prófessorar laun samkvæmt kjarasamningum.

Eins og áður greinir er ég forsetaskipaður embættismaður skv. 20. gr. stjórnarskrárinnar og nýt verndar hennar um starfskjör. Í 3. mgr. 20. gr. segir að forseti geti flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis af embættistekjum sínum. Með úrskurði kjaranefndar tekst stjórnvald á hendur að búa til nýtt „kerfi” þar sem í raun er komið á fót fimm „tegundum” prófessorsembætta.

Hvað svo sem því líður liggur fyrir sú staðreynd að ég hef með starfi mínu í áranna rás áunnið mér hæstu laun, sem greidd eru embætti prófessors, og tel að ég verði ekki sviptur þeim réttindum. Ég tel mig m.ö.o. eiga lögvarinn rétt til þeirra hæstu launa sem prófessorum eru ákveðin, því ella væri mér hlutfallslega mismunað miðað við aðra, en það tel ég ólögmætt.”

IV.

Með bréfi mínu til kjaranefndar 5. apríl 2000 var kvörtunin send nefndinni og þess óskað, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að hún skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og léti mér í té þau gögn, er málið varða.

Mér barst svar nefndarinnar 30. maí 2000 og lýsir hún viðhorfum sínum til kvörtunarinnar sem hér segir:

„[...]

Kjaranefnd fellst ekki á þá skoðun að henni sé óheimilt að ákveða misjafnlega há laun fyrir störf undir sama starfsheiti. Má í þessu sambandi vísa til þessara orða í framsöguræðu fjármálaráðherra fyrir því frumvarpi er varð að lögum nr. 120/1992: „Það má gera ráð fyrir að starf kjaranefndar verði æði mikið. Henni er jafnframt ætlað að taka afstöðu til einstakra persóna og þannig má gera ráð fyrir því að menn með sama starfsheiti geti haft misjöfn laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar.” Slíka mismunun má hins vegar eingöngu gera á grundvelli tiltekinna hlutlægra málefnalegra ástæða, sbr. kafla IV.3. í áliti umboðsmanns í máli nr. 2496/1998. Að mati nefndarinnar er það sjónarmið málefnalegt og lögmætt að launakjör prófessora taki að ákveðnu marki mið af árangri þeirra í starfi, að svo miklu leyti sem slíkt megi meta á hlutlægan hátt. Slíkt mat á afrakstri nær eðli sínu samkvæmt til þeirra verka sem þegar eru unnin. Því telur kjaranefnd að sú aðferð við launaákvörðun prófessora að þeir taki laun samkvæmt fimm tilteknum launaflokkum sé ekki ágalli á ákvörðuninni og að hún teljist ekki fyrir þær sakir haldin slíkum annmarka að varði ógildingu.

Í lok þessa hluta rökstuðnings kvartanda segir að umsögn talsmanna prófessora geti ekki „ ... bundið einstaka prófessora með yfirlýsingum sínum eða málflutningi, svo sem kjaranefnd virðist ganga út frá.” Hvað varðar prófessora við Háskóla Íslands var þeirri lögbundnu álitsumleitan sem boðin er í upphafi 2. mgr. 9. gr. núgildandi laga um Kjaradóm og kjaranefnd mætt með því að Félagi prófessora við H.Í. var gefinn kostur á að tilnefna talsmenn prófessora við skólann, sbr. fyrrgreindar athugasemdir nefndarinnar við málavaxtalýsingu kvartanda. Kjaranefnd kaus að byggja ákvörðun sína um launakjör prófessora á hugmyndum sem fengust við þessa álitsumleitan enda taldi nefndin þar um að ræða hugmynd að málefnalegri og lögmætri ákvörðun um launakjör. Sú ákvörðun var í engu byggð á því að fyrrgreindir talsmenn hefðu „ ... bundið einstaka prófessora með yfirlýsingum sínum eða málflutningi ... “ og hefur nefndin ekki gengið út frá slíku svo sem fullyrt er í kvörtuninni, sbr. bréf nefndarinnar til kvartanda dags. 29. júní 1999.

[...]

Þar sem kjaranefnd er með lögum veitt heimild til að taka tillit til sérstakrar hæfni er nýtist í starfi, en nefndarmenn búa ekki sjálfir yfir sérfræðiþekkingu á því sviði, telur nefndin eðlilegt að kalla sér til aðstoðar þá sem hafa til að bera slíka þekkingu. Má til hliðsjónar benda á þá skoðun fræðimanna að þegar stjórnvaldi er falið að meta tiltekin álitaefni sem krefjast sérfræðiþekkingar beri hlutaðeigandi stjórnvald ábyrgð á því samkvæmt rannsóknarreglunni að málið sé rannsakað af sérkunnáttumanni á viðkomandi sviði, sbr. Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin skýringarrit, bls. 111.

Þá segir í rökstuðningi kvartanda að gera verði þessar tvær athugasemdir við bréf kjaranefndar til hans dags. 23. nóvember 1998:

„Ég hafði engar athugasemdir gert við matið, þar sem ég taldi það ólögmætt og ég hafði ekki og hef ekki lagt fram nein gögn við kjaranefnd.” Hvað varðar fyrri athugasemdina skal bent á að í umræddu bréfi nefndarinnar segir fyrst að kjaranefnd hafi móttekið athugasemdir kvartanda sem bárust í bréfi hans dags. 3. nóvember 1998. Því næst er honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum við matið, en kjaranefnd hefði gefið kvartanda kost á að gera slíkar athugasemdir við matið með bréfi dags. 30. október 1998 og til þess bréfs vísar kvartandi í upphafi bréfs síns dags. 3. nóvember 1998. Þessu næst er í bréfi nefndarinnar dags. 23. nóvember 1998 bent á að við skoðun á athugasemdum kvartanda, þ.e. ef hann myndi nýta sér að koma á framfæri „frekari athugasemdum við matið”, muni kjaranefnd fá til samstarfs annan matshóp en hafði áður metið framlögð gögn kvartanda. Hvað varðar síðari athugasemdina þá er því ekki haldið fram í bréfinu að kvartandi hafi orðið við því að leggja gögn fyrir kjaranefnd. Þau gögn kvartanda sem vísað er til hafði kjaranefnd fengið frá Félagi prófessora við Háskóla Íslands, sbr. fyrrgreindar athugasemdir kjaranefndar við málavaxtalýsingu kvartanda.

Þessu næst segir í kvörtuninni: „Í bréfi kjaranefndar til mín, dags. 22. júní 1999, sem felur í sér lokaákvörðun kjaranefndar á launum mínum, er ekki minnst á ráðgjafanefndina.” Af þessu tilefni skal bent á að með umræddu bréfi var kvartanda birt ákvörðun kjaranefndar um launakjör hans. Ákvörðuninni fylgdi ekki rökstuðningur þegar hún var tilkynnt. Því var ekki fjallað í bréfinu um málsatvik við undirbúning ákvörðunarinnar, þar á meðal þá sérfræðilegu aðstoð sem nefndin naut. Hins vegar voru í bréfinu veittar leiðbeiningar um heimild kvartanda til að fá ákvörðunina rökstudda, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá heimild nýtti kvartandi sér ekki, sbr. fyrrgreindar athugasemdir kjaranefndar við málavaxtalýsingu kvartanda. Hins vegar varð kjaranefnd, í samræmi við l. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga og góða stjórnsýsluhætti, við óskum kvartanda um svör við nánar tilteknum spurningum varðandi umræddar ákvarðanir, sbr. bréf nefndarinnar dags. 29. júní 1999.

Þá er í rökstuðningi kvartanda vikið að málsmeðferðarreglum við ráðningu í starf prófessora við Háskóla Íslands. Bendir kvartandi á að strangar kröfur séu gerðar til umsækjenda sem eingöngu færustu sérfræðingar á viðkomandi sviði séu taldir hæfir til að fjalla um og meta. Því næst segir: „Því má ljóst vera að kjaranefnd, eins og hún er skipuð, er engan veginn í stakk búin til þess að framkvæma slíkt hæfnismat, hvað þá að endurskoða mat lögskipaðra dómnefnda á hæfi prófessora, í hvaða skyni sem væri, eða að meta „sérstaka hæfni þeirra.” Af þessu tilefni er nauðsynlegt að taka fram að kjaranefnd hefur ekki leitast við að endurskoða mat lögskipaðra dómnefnda á hæfi prófessora til að gegna kennarastarfi eða vísinda- og fræðastörfum, sbr. 12. gr. laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands. Slíkt mat er enda framkvæmt til undirbúnings ákvörðunum sem eru ekki á verksviði kjaranefndar, þ.e. ákvörðunum um ráðningu í starf prófessora. Það mat sem hér er um að ræða lýtur hins vegar, eins og áður segir, að sérstakri hæfni er nýtist í starfi prófessora og er framkvæmt til undirbúnings ákvörðunum á launakjörum þeirra í samræmi við lög um Kjaradóm og kjaranefnd, með áorðnum breytingum.

Því næst segir í kvörtuninni: „Þess vegna held ég því fram að í raun liggi fyrir valdframsal að þessu leyti til „ráðgjafanefndar” frá kjaranefnd.” Að mati kjaranefndar verður ekki fallist á þessa skoðun kvartanda. Kjaranefnd tók ákvörðun 2. júlí 1998 um launakjör prófessora. Í henni var kveðið á um hver mánaðarlaun prófessora skyldu vera, hverjar greiðslur fyrir yfirvinnu o.s.frv. Á grundvelli þessarar ákvörðunar og með hliðsjón af margvíslegum gögnum, þar á meðal mati á sérstakri hæfni prófessora er nýtist í starfi þeirra, ákvað kjaranefnd hverjum og einum prófessor laun. Því verður ekki fallist á að öflun upplýsinga frá fyrrgreindum sérfræðingum feli í sér valdframsal eða að kjaranefnd hafi með öðrum hætti framselt ákvörðunarvald sitt um launakjör prófessora. Hins vegar má geta þess að undirbúningur mála hjá kjaranefnd lýtur vitanlega stjórnun og eftirliti nefndarinnar, sbr. til hliðsjónar Starfsskilyrði stjórnvalda, útg. forsætisráðuneyti 1999, bls. 83.

[...]

Í upphafi þessa hluta rökstuðnings kvartanda [um matshópa, innskot mitt] segir svo: [...]

Hvað varðar setningu vinnureglna fyrir umrædda matshópa telur nefndin að slíkar reglur þjóni tvenns konar tilgangi. Annars vegar sinni nefndin með þeim að hluta til stjórnunar- og eftirlitshlutverki sínu við undirbúning mála hjá henni. Hins vegar eru þessar reglur samkvæmt efni sínu nánari útfærsla á matsreglum kjaranefndar sem fylgdu ákvörðun nefndarinnar 2. júlí 1998. Sem slíkar eru þær hluti af viðmiðunarreglum þeim sem kjaranefnd hefur sett til að stuðla að samræmi og jafnræði við úrlausn mála er lúta að ákvörðun kjaranefndar um launakjör prófessora. Samkvæmt ólögfestri réttarreglu í stjórnsýslurétti telur kjaranefnd sér heimilt að setja sér slíkar viðmiðunarreglur, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2271/1997 og 2272/1997.

Varðandi þau orð kvartanda að endanleg niðurstaða um flokkun prófessora og laun þeirra „ ... virðist byggjast í raun á mati þessara hópa, sem engar upplýsingar eru um eftir hvaða reglum eru skipaðir eða hverjir sitja í þeim” skal ítrekað að slíkar upplýsingar fylgdu ekki ákvörðun kjaranefndar um launakjör kvartanda þar sem ákvörðunin var ekki birt með rökstuðningi, sbr. bréf nefndarinnar til hans dags. 22. júní 1999.

Nokkru síðar í þessum hluta rökstuðnings kvartanda segir að nefndarmenn í kjaranefnd verði [ekki] taldir hæfir til þess að ákvarða laun með þeim hætti sem 11. sbr. 10. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd, með áorðnum breytingum, kveði á um samkvæmt hljóðan sinni, „þar sem ekki er gert ráð fyrir neins konar fræðilegu mati á störfum og verkum þeirra, sem nefndinni er ætlað að ákveða laun.” Af þessu tilefni er nauðsynlegt að ítreka að með 3. ml. 1. mgr. 11. gr. laganna er beinlínis byggt á slíku mati kjaranefndar, annars vegar á álagi sem starfi fylgir og hins vegar á sérstakri hæfni starfsmanns sem sérstaklega nýtist í starfinu.

Loks virðist kvartandi telja að prófessorar séu vanhæfir til þess að veita kjaranefnd sérfræðilega aðstoð við fyrrgreint mat þar sem þeir verði metnir með sama hætti. Því er til að svara að enginn prófessor tók þátt í undirbúningi ákvörðunar um eigin röðun í launaflokk. Þá telur kjaranefnd að þátttaka umræddra prófessora í undirbúningi á mati á verkum annarra prófessora verði sem slík hvorki felld undir vanhæfisástæður 3. gr. stjórnsýslulaga né ólögfestar vanhæfisreglur. Hvað varðar umfjöllun kvartanda um „margfalt hlutverk” tiltekins prófessors við undirbúning málsins skal tekið fram að kjaranefnd taldi sér rétt og skylt að afla sér margvíslegra upplýsinga við undirbúning ákvörðunar sinnar um launakjör prófessora. Að mati kjaranefndar var eðlilegt að nýta sérþekkingu prófessora sjálfra að þessu leyti og yrði slík aðstoð ekki metin til vanhæfis prófessoranna þrátt fyrir að ákvörðun kjaranefndar kæmi til með að taka meðal annars til launakjara þeirra sjálfra. Þá verður ekki séð að lögbundin álitsumleitan kjaranefndar til talsmanna prófessora baki þeim vanhæfi að þessu leyti.

[...]

Í upphafi þessa hluta kvörtunarinnar [um matsreglur og stigagjöf, innskot mitt] er vitnað til orða í ákvörðun kjaranefndar um launakjör prófessora varðandi matsreglur þær sem fylgdu ákvörðuninni. Því næst segir að matsreglurnar séu „ ... algerlega hugarfóstur kjaranefndar ... “ Eins og áður var getið eru matsreglur kjaranefndar viðmiðunarreglur sem nefndin setti til þess að stuðla að samræmi og jafnræði við úrlausn mála er lúta að ákvörðun kjaranefndar um launakjör prófessora. Slíkar reglur eru eðli máls samkvæmt settar af kjaranefnd sjálfri í samræmi við þau sjónarmið sem ákvarðanir um launakjör prófessora verða byggðar á.

[...]

Um þetta efni [vinnreglur fyrir matshópa, innskot UA] er áður fjallað um að nokkru hjá kvartanda [...] Hins vegar eru nokkur atriði í lok þessa hluta rökstuðningsins sem kalla á skýringar nefndarinnar og fylgja þær hér.

Í fyrsta lagi segir á bls. 13 í kvörtuninni: „Umræddar vinnureglur eru alfarið tilbúningur sem á sér enga lagastoð, er ekki getið í úrskurði kjaranefndar og eru ekki einu sinni fylgiskjal með honum.” Hér ber að ítreka að umræddar reglur eru samkvæmt efni sínu og orðum einkum ætlaðar til frekari skýringar þeim matsreglum sem fylgdu ákvörðun kjaranefndar 2. júlí 1998 og verða því taldar til viðmiðunarreglna settar í þeim tilgangi að stuðla að samræmi í úrlausnum nefndarinnar. Í ljósi þess að reglur þessar voru birtar prófessorum með rækilegum hætti verður ekki séð á hvaða réttarreglu það skilyrði verði byggt að þær skuli eiga sér sérstaka lagastoð, um þær skuli fjallað í ákvörðun nefndarinnar um launakjör prófessora eða að þær hafi átt að leggja fram sem fylgiskjal með ákvörðuninni.

Þessu næst segir í rökstuðningi kvartanda: Ekki liggur fyrir hver hefur samið [vinnureglurnar], en nærtækast er að ætla að það hafi matshóparnir [...] sjálfir gert.” Af þessu tilefni skal bent á að umræddar reglur voru samdar af kjaranefnd og settar á fundi nefndarinnar 5. nóvember 1998, eins og þær bera sjálfar með sér.

[...]

Um kvörtunarefni II

Þetta kvörtunarefni lýtur að því að kjaranefnd hafi ekki haft heimild til að krefja kvartanda um þær upplýsingar og þau gögn og með þeim hætti sem hún gerði við undirbúning ákvörðunar sinnar um launakjör hans. Af þessu tilefni skal bent á að kjaranefnd byggði umrædda ósk um upplýsingar annars vegar á rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og hins vegar á 1. mgr. 9. gr. núgildandi laga um Kjaradóm og kjaranefnd. Samkvæmt fyrrnefndu reglunni skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Þar sem gert er ráð fyrir því að kjaranefnd skuli jafnan sjálf hafa frumkvæði að því að taka mál til meðferðar, svo sem og gerðist í umræddu tilviki, á sú meginregla stjórnsýsluréttar við að stjórnvöld þurfi viðhlítandi lagaheimild til að geta krafið málsaðila um gögn. Slíka heimild er að mati kjaranefndar að finna í síðarnefndu reglunni.

Í rökstuðningi með þessu kvörtunarefni koma fram atriði sem nauðsynlegt er að gera eftirfarandi athugasemdir við.

Í upphafi rökstuðningsins er annars vegar vikið að þeim tegundum upplýsinga sem lagt er mat á samkvæmt matsreglum með ákvörðun kjaranefndar um launakjör prófessora. Hins vegar er vísað til bréfs kjaranefndar til kvartanda dags. 29. júní 1999. Þessu næst víkur kvartandi að lögskýringu á 1. mgr. 9. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, sbr. 56. gr. laga nr. 70/1996. Ákvæðið er svohljóðandi: „Kjaranefnd aflar sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga og er henni rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum og embættismönnum. Skulu embættismenn m.a. veita upplýsingar um aukastörf og hlunnindi sem störfum þeirra fylgja.” Að mati kvartanda kemur annars vegar til greina að gagnálykta frá seinni málslið ákvæðisins þannig að „ ... kjaranefnd hefði ekki heimild til þess að krefja aðra einstaka menn um upplýsingar um aukastörf og hlunnindi sem störfum þeirra fylgi ... “ Hins vegar telur kvartandi að lögjöfnun væri tæk en samkvæmt henni „ ... væri kjaranefnd aðeins heimilt að krefja prófessor um upplýsingar um aukastörf og hlunnindi sem starfi hans fylgdu ... “ Kjaranefnd telur hvorugan þessara skýringarkosta fela í sér rétta lögskýringu ákvæðisins þegar af þeirri ástæðu að síðari málsliður þess er fólginn í auðkennatalningu. Fyrst að upplýsingar um aukastörf og hlunnindi eru einungis „m.a.” sem embættismenn skulu veita upplýsingar um samkvæmt ákvæðinu er hvorki uppfyllt það skilyrði gagnályktunar að um tæmandi talningu tilvika sé að ræða né að með ákvæðinu sé málum skipað á afdráttarlausan máta. Hvað varðar vilja löggjafans sem grundvöll gagnályktunar skal á það bent að engin vísbending er í þá átt að það hafi verið viðhorf löggjafans að gera að þessu leyti slíkan greinarmun, á embættismönnum og öðrum sem nefndin ákveður laun, sem kvartandi lýsir í rökstuðningi sínum. Þvert á móti liggur fyrir að við setningu ákvæðisins heyrðu eingöngu embættismenn undir nefndina. Því er nærtækara að telja að frá setningu laga nr. 150/1996, sem færðu prófessora og heilsugæslulækna undir ákvörðunarvald nefndarinnar, verði efnisákvæði laganna um launaákvarðanir embættismanna talin gilda með lögjöfnun um alla þá sem undir nefndina heyra. Hins vegar telur kjaranefnd að sú lögjöfnun sem kvartandi ber fram standist ekki. Þar sem um auðkennatalningu er að ræða leiði lögjöfnun ekki til þess að aðrir starfsmenn skuli einungis skyldir til að veita upplýsingar um aukastörf sín og hlunnindi. Þvert á móti leiði lögjöfnun til þess að auðkennatalningin haldist og aukastörf og hlunnindi séu aðeins dæmi um þær upplýsingar sem starfsmenn skuli „m.a.” veita kjaranefnd. 2. ml. 1. mgr. 9. gr. veitir ekki ákveðið svar við því hvaða upplýsingar kjaranefnd skuli krefjast samkvæmt 1. ml. greinarinnar. Hvað varðar skýringu á því hvaða upplýsingar falla hér undir er eðlilegt að telja að hún ráðist einkum af tilgangi laganna og samanburðarskýringu við önnur ákvæði þeirra. Slík samanburðarskýring við 3. ml. l. mgr. 11. gr. laganna bendir til að gagnaöflunin nái til gagna sem lögð verði til grundvallar mati á sérstakri hæfni er nýtist í starfi viðkomandi.

Um kvörtunarefni III

Samkvæmt þessu kvörtunarefni telur kvartandi að kjaranefnd hafi ekki mátt neita að láta honum í té nauðsynleg gögn sem ráða röðun annarra prófessora í launaflokka til þess að geta séð hvort jafnræðis hefði verið gætt. Afstaða kjaranefndar til þessa kvörtunarefnis byggir á því að ekki hafi komið fram nægilega afmörkuð ósk kvartanda um gögn til þess að hægt væri að verða við henni, sbr. 2. ml. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Kröfur kvartanda um aðgang að upplýsingum um mál annarra en hans sjálfs koma fram í þremur bréfum hans til kjaranefndar. Í fyrsta lagi segir í bréfi dags. 3. nóvember 1998: „Til þess hins vegar að ég geti séð hvort kjaranefnd hafi gætt jafnræðis, verð ég líka að fá aðgang að gögnum sem varða aðra prófessora.” Í öðru lagi er þessi krafa ítrekuð í bréfi dags. 30. nóvember 1998 án þess að hún sé nánar afmörkuð: „Með bréfi til kjaranefndar 3. 11. 1998 gerði ég kröfu um að mér yrði látið eftirfarandi í té: [...] 3. Aðgangur að gögnum sem vörðuðu ákvarðanir gagnvart öðrum prófessorum til þess að ég gæti séð hvort jafnræðisreglum stjórnsýsluréttar væri gætt. Slík gögn hef ég ekki fengið.” Loks er krafa kvartanda ítrekuð án frekari afmörkunar með bréfi hans dags. 10. janúar 1999, kafla VI. 5.: „Ég ítreka kröfu mína að fá í hendur öll gögn sem varða röðun annarra prófessora í launaflokka til þess að ég geti séð hvort jafnræðis hafi verið gætt og hvort réttmætisreglunni hafi verið fylgt.” Þau gögn sem krafa kvartanda nær til taka til launaákvörðunar um 200 einstaklinga. Fjöldi blaðsíðna þessara gagna skiptir þúsundum. Kjaranefnd telur því augljóst að fjöldi umræddra skjala sé svo mikill að verulegum vandkvæðum sé bundið að fá kvartanda í hendur afrit þeirra eða ljósrit, sbr. 2. ml. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Kvartanda var skýrð þessi afstaða nefndarinnar með bréfi dags. 29. júní 1999. Frá þeim tíma hafa kjaranefnd ekki borist frekari beiðnir kvartanda um gögn varðandi launaákvarðanir annarra prófessora.

Að auki tilkynnti nefndin kvartanda, með bréfi dags. 18. desember 1998, að hún teldi að kvartandi ætti ekki rétt á aðgangi að umræddum gögnum. Sú afstaða er á því byggð að hvorki sé um að ræða gögn sem varði hann sjálfan né ákvörðun launa hans, sbr. 1. ml. 1. mgr. 15. og 1. gr. stjórnsýslulaga. Því fari um aðgang kvartanda að viðkomandi gögnum eftir II. kafla upplýsingarlaga í stað III. kafla sömu laga eða ákvæðum stjórnsýslulaga um upplýsingarétt aðila að gögnum máls. Kjaranefnd telur að slíkur aðgangur kvartanda að gögnum um fjárhagsmálefni fjölda einstaklinga lúti því takmörkunum af ákvæðum 1. ml. 5. gr. laganna. Um það ákvæði segir í greinargerð með frumvarpi því er varð að upplýsingalögum: „Að því er snertir laun opinberra starfsmanna þá eru upplýsingar um föst laun og önnur föst kjör opinberra starfsmanna ekki undanþegnar aðgangi almennings.” Slíkar upplýsingar liggja fyrir í ákvörðun kjaranefndar 2. júlí 1998, um launakjör prófessora, sem þegar hefur verið birt kvartanda. Hins vegar segir í greinargerðinni að á grundvelli 5. gr. sé það aftur á móti undanþegið aðgangi almennings hver heildarlaun hver opinber starfsmaður hafi haft. Þrátt fyrir að þessi athugasemd greinargerðarinnar taki ekki berum orðum til umræddra gagna telur nefndin að í ljósi eðlis umræddra einstaklingsbundinna ákvarðana kjaranefndar um launakjör viðkomandi starfsmanna sé að minnsta kosti verulegur vafi uppi um hvort kvartanda verði veittur aðgangur að umræddum gögnum án þess að því skilyrði 5. gr. laganna sé fullnægt að leita skuli samþykkis þeirra prófessora sem í hlut eiga. Um slíkar aðstæður segir í fyrrnefndri greinargerð: „Í vafatilvikum er stjórnvaldi rétt að leita álits þess aðila sem í hlut á.” Þá telur kjaranefnd að krafa kvartanda um aðgang að gögnum sé haldinn sams konar galla samkvæmt 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga og áður var rakið varðandi 2. ml. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Með öðrum orðum sé ekki nægilega tilgreint hvaða gögnum farið sé fram á aðgang að. Í þessu sambandi er rétt að benda á eftirfarandi orð í athugasemdum með því ákvæði sem varð að 1. mgr. 10. gr. upplýsingalaga: „Það leiðir af l. mgr. að ekki er hægt að biðja um gögn í öllum málum af ákveðinni tegund eða frá tilteknu tímabili.”

[...]

Þá segir í rökstuðningi kvartanda að ákvörðun um synjun á upplýsingarétti beri stjórnvaldi að rökstyðja skv. meginreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Það ákvæði geymir tiltekna lögfestingu á rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Verður ekki séð að í henni felist skylda stjórnvalda til að rökstyðja synjun um aðgang að upplýsingum. Slík regla er hinsvegar lögfest í 19. gr. laganna varðandi aðgang að gögnum máls. Afstaða kjaranefndar er eins og áður segir byggð meðal annars á því að umrædd beiðni um aðgang kvartanda að gögnum annarra mála en hans sjálfs falli undir upplýsingalög, nánar tiltekið ákvæði II. kafla þeirra laga. Í 13. gr. laganna er boðið að synjun skriflegrar beiðni um aðgang að gögnum skuli tilkynnt skriflega. Samkvæmt lögunum er ekki lögð skylda á stjórnvaldið að rökstyðja slíkar ákvarðanir. Synjun kjaranefndar á kröfum kvartanda um aðgang að gögnum var hins vegar rökstudd í bréfi nefndarinnar dags. 29. júní 1999, eins og áður var rakið.

Þá verður hvorki fallist á að beiðni kvartanda hafi lotið að þýðingarmiklum gögnum máls í skilningi 15. gr. stjórnsýslulaga né að ákvörðun kjaranefndar um laun kvartanda, í ljósi þeirrar launahækkunar sem fólst í henni sbr. ákvörðun kjaranefndar 2. júlí 1998, geti talist vera íþyngjandi. Því verði ákvörðunin ekki fyrir þessar sakir talin haldin verulegum annmarka, sbr. Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin skýringarrit, bls. 191.

Um fullyrðingar kvartanda þess efnis að ekki hefði verið verulegum vandkvæðum bundið fyrir kjaranefnd að láta honum umrædd gögn í té vísast til þess er fyrr var rakið um þann fjölda ákvarðana og það pappírsmagn sem hér er um að ræða.

Undir lok rökstuðnings fyrir þessu umkvörtunarefni segir:

„A.m.k. í fyrstu lotu hefði verið nægjanlegt fyrir kjaranefnd að láta mér í té ljósrit svonefndrar „sundurliðunar stigagjafar” fyrir hvern prófessor og sjá til hvort það dygði ekki.” Bent skal á að þessi afmörkun kvartanda á beiðni hans um aðgang að gögnum hefur aldrei verið borin fram við kjaranefnd. Hennar sér ekki stað fyrr en í umræddri kvörtun hans til umboðsmanns Alþingis yfir afgreiðslu kjaranefndar. Eins og fyrr var getið var umrædd beiðni svo víðtæk að kjaranefnd var ókleift að verða við henni. Ekkert í beiðnum kvartanda gaf til kynna að með beiðnunum sæktist hann eftir aðgangi að þeim gögnum sem hann tiltekur nú. Þvert á móti mátti kjaranefnd ætla, t.d. með hliðsjón af 1. tl. II. kafla bréfs kvartanda til nefndarinnar dags. 30. nóvember 1998, að með beiðninni væri kvartandi ekki að sækjast eftir slíkum gögnum. Niðurstaða kjaranefndar er því sú að ekki verði fallist á að nefndin hafi með ólögmætum hætti synjað kvartanda um beiðni hans um aðgang að gögnum.

Um kvörtunarefni IV

Síðasta kvörtunarefnið lýtur að því að kjaranefnd beri að ákveða kvartanda áfram þau hæstu laun sem hún úrskurði prófessorum við Háskóla Íslands því ella sé honum ,,mismunað hlutfallslega miðað við aðra”, en það sé ólögmætt. Afstaða kjaranefndar til þessa kvörtunarefnis er í hnotskurn sú að ekki verði séð á hvaða lagagrundvelli kjaranefnd verði gert skylt að ákveða kvartanda „hæstu laun sem hún úrskurði prófessorum við Háskóla Íslands.” Þá fellst nefndin ekki á að sú „hlutfallslega mismunun” sem felst í ákvörðunum hennar um launakjör kvartanda og annarra prófessora, við Háskóla Íslands eða aðra skóla, sé ólögmæt.

Í rökstuðningi með þessu kvörtunarefni er fyrst vikið að því með hvaða hætti kvartandi var skipaður til embættis prófessors. Því næst er fjallað um starfsskyldur prófessora, viðkomandi ákvarðanir háskólaráðs og það rannsóknarfrelsi sem prófessorar njóta. Þá er í rökstuðningnum bent á að störf kvartanda og starfsskyldur hafi ekkert breyst, hvað þá í einu vettvangi (sic) 2. júlí 1998.

Þessu næst segir í rökstuðningi kvartanda: „Samkvæmt almennum vinnurétti gildir sú meginregla að vinnuveitandi hefur ekki heimild til að breyta starfskjörum manns einhliða. Það er einnig meginregla að starfsmaður þurfi ekki að sæta meiri breytingu á störfum sínum eða kjörum en hann gat búist við þegar hann var ráðinn eða samningar voru gerðir við hann. Ákvörðun kjaranefndar gengur í berhögg við þessa meginreglu, sem nú verður talin einnig gilda um starfsmenn ríkisins. Réttur þeirra til launa er því varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefur kjaranefnd ekki rýmri rétt til einhliða breytinga á launakjörum og starfsréttindum prófessora en vinnuveitendur hafa almennt gagnvart starfsmönnum á hinum almenna vinnumarkaði, en fram að úrskurði kjaranefndar tóku prófessorar laun samkvæmt kjarasamningum.” Til umfjöllunar um tilgreindar meginreglur vinnuréttar skal vísað í grein Viðars Más Matthíassonar, Nokkrir þættir um réttarstöðu ríkisstarfsmanna, Úlfljótur 3. tbl. 1993, bls. 224 og áfram. Í greininni segir meðal annars að frá fyrrgreindri meginreglu kunni að vera undantekningar í lögum, þar á meðal í 2. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en þau lög voru felld úr gildi með lögum nr. 70/1996. Samkvæmt ákvæðinu var starfsmönnum skylt að hlíta breytingum á launakjörum sínum samkvæmt lögum eða reglugerðum, settum með lagaheimild og staðfestum af ráðherra, stæði ráðningarsamningur því eigi í gegn, sbr. til hliðsjónar kafla III.2. í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2242/1998. Um þetta ákvæði laga nr. 38/1954 segir Viðar Már: „[V]ið setningu laganna voru launin ákveðin með lögum eða fyrirmælum stjórnsýsluhafa. Þá litu fræðimenn svo á, að réttur ríkisstarfsmanna til launa nyti ekki verndar eignarréttarákvæðis 67. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Afstaða fræðimanna að þessu leyti byggðist á því, að laun væru ákveðin í lögum og starfsmaður mætti, m.a. vegna 2. mgr. 18. gr., gera ráð fyrir því að þurfa að sæta breytingum á launakjörum sínum eftir atvikum til lækkunar ef löggjafinn tók um það ákvörðun, eða sá sem bær var til að gefa út stjórnsýslufyrirmæli. Eins og fram hefur komið er þessi aðstaða gerbreytt. Langflestir ríkisstarfsmenn taka nú laun á grundvelli kjarasamninga ... “ Með lögum nr. 150/1996, sem birt voru í 24. hefti A-deildar Stjórnartíðinda sem gefið var út 30. desember 1996, varð kjaranefnd bær „til að gefa út stjórnsýslufyrirmæli” að þessu leyti, þ.e. að taka ákvörðun um launakjör prófessora. Þegar af þeirri ástæðu verður að telja ákvarðanir kjaranefndar undantekningu frá þeirri meginreglu að starfsmaður þurfi ekki að sæta meiri breytingu á störfum sínum eða kjörum en hann gat búist við þegar hann var ráðinn eða samningar voru gerðir við hann, enda féll kjarasamningur fjármálaráðherra og Félags háskólakennara frá 1. ágúst 1995 úr gildi 31. desember 1996. Því var engum kjarasamningi prófessora og vinnuveitenda til að dreifa þegar kjaranefnd tók ákvarðanir sínar um launakjör prófessora og ekki lagagrundvöllur fyrir hendi til að telja rétt prófessora til „eldri” launa varinn af eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrár. Til hliðsjónar um slíka vernd launakjara embættismanna sem áður tóku laun á grundvelli svonefndrar „ráðherraröðunar” má vísa til fyrrgreinds kafla III.2. í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2242/1998.

Í niðurlagi kvörtunarinnar virðist vera vísað til 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrár, en það ákvæði á samkvæmt efni sínu ekki við hér. Því næst segir: „Með úrskurði kjaranefndar tekst stjórnvald á hendur að búa til nýtt „kerfi” þar sem í raun er komið á fót fimm tegundum „prófessorsembætta.” Að mati kjaranefndar á þessi fullyrðing ekki við rök að styðjast. Aðeins er gert ráð fyrir einni „tegund” prófessora í lögum um Háskóla Íslands auk þess sem ákvörðunarvald um hverjar starfsskyldur prófessora við skólann skuli vera eru ekki faldar kjaranefnd heldur háskólaráði, eins og fyrr er rakið. Með umræddum fimm launaflokkum er hins vegar leitast við að meta sérstaka hæfni prófessora er nýtist í starfi þeirra til mishárra launa á grundvelli málefnalegra, forsvaranlegra og hlutlægra sjónarmiða.”

Með bréfi, dagsettu 7. júní 2000, gaf ég A kost á að koma að athugasemdum í tilefni af bréfi kjaranefndar til mín. Í bréfi, dagsettu 18. október 2000, kom hann athugasemdum sínum á framfæri við mig. Segir þar meðal annars svo:

„Í þessari greinargerð kjaranefndar er í raun aðeins eitt aðalatriði sem þarfnast sérstakrar umfjöllunar, þannig að ekki nægi að vísa til fyrri gagna. Um er að ræða algert grundvallaratriði, sem halda má fram að eitt og sér nægði til þess að úrskurður nefndarinnar og ákvarðanir á honum byggðar, teldust ógildar.

Á sex stöðum í greinargerðinni (bls. 3, 4, 5, 6 og 12) er nú allt í einu tekið fram með mismunandi orðalagi að launaákvarðanir kjaranefndar hafi eingöngu byggst á ákvæði 3. ml. 1. mgr. 11. gr. 1. 120/1992, sem hljóðar svo: „Við ákvarðanir sínar getur nefndin tekið tillit til sérstakrar hæfni er nýtist í starfi og sérstaks álags sem starfinu fylgir” (56. gr. l. 70/1996). Hér er um grafalvarlegt mál að ræða.

Í fyrsta lagi hefur kjaranefnd aldrei fyrr minnst á þetta ákvæði sem sérstaka heimild til úrskurða sinna og ákvarðana. Í úrskurði nefndarinnar 3. júlí 1998 er hvergi vísað sérstaklega til þessa ákvæðis, hvað þá að úrskurðurinn grundvallaðist á því, en ekki þarf að hafa mörg orð um að stjórnvaldsákvörðun verður að bera með sér á hverju hún er byggð svo hún hafi gildi og er ekki hægt að bæta úr því síðar, nema þá með nýrri stjórnvaldsákvörðun. Hvergi er minnst á ákvæðið sérstaklega í einstökum ákvörðunum kjaranefndar, sem hún telur byggðar á úrskurðinum, og ekki heldur í neinum bréfum til mín. Þetta virðist því vera örvæntingarfull tilraun kjaranefndar til að klóra í bakkann eftir á, þegar hún loksins sér að lagagrundvöllinn skortir fyrir ákvörðunum hennar, eins og þær urðu.

Í öðru lagi stenst ekki þessi tilvitnun kjaranefndar, því ákvæðið tekur ekki til umræddra ákvarðana eða öllu heldur, kjaranefnd getur ekki byggt ákvarðanir sínar á þessu ákvæði. Það á einfaldlega ekki við, svo sem lögskýringargögn sýna. Til að komast hjá endurtekningum læt ég mér nægja að vísa til rækilegrar lögfræðilegrar úttektar [G], hrl. í álitsgerð til fjármálaráðherra, 8. október 1997, sem ég leyfi mér að láta fylgja hér með. Einungis skal hér tekið upp það sem segir á bls. 4 í álitsgerðinni er sýnir upphaf og aðdraganda að setningu þessa ákvæðis, sem leiðir í ljós að því var einungis ætlað að bregðast við sérstökum aðstæðum í tengslum við launakjör í ráðuneytum. Þar segir svo: „Í frumvarpi því sem lagt var fram á Alþingi 1995 til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, var m.a. lagt til í 39. gr. frumvarpsins að laun og önnur launakjör embættismanna samkvæmt lögunum skyldu ákveðin af kjaranefnd samkvæmt þeim lögum sem um hana giltu, en jafnframt var samkvæmt 2. mgr. 9. gr., sbr. 10. gr., lagt til að forstöðumaður (ráðuneytisstjóri í einstökum ráðuneytum, sbr. 2. mgr. 51. gr.) gæti ákveðið að greiða starfsmönnum, þ.m.t. embættismönnum, laun til viðbótar grunnlaununum, sem ákvörðuð eru eða samið er um, vegna sérstakrar hæfni er nýtist í starfi, eða sérstaks álags í starfi, svo og fyrir árangur í starfi. Þá var lagt til að ráðherrar gætu enn fremur ákveðið að greiða forstöðumönnum einstakra stofnana, sem undir þá heyra, laun fyrir árangur í starfi til viðbótar þeim launum sem ákvörðuð eru af kjaranefnd.”

Hér er því eingöngu um að ræða alkunnugt „sporsluákvæði”, sem svo er nefnt, sem ég get skýrt nánar hvað merkir, óski UA eftir því, og kemur ákvörðunum launa til mín eða annarra prófessora ekkert við.

[...]

V.

1.

Svo sem áður greinir var A tilkynnt með bréfi kjaranefndar, dagsettu 22. júní 1999, að á fundi nefndarinnar 9. þess mánaðar hefði hún tekið ákvörðun um röðun prófessora í launaflokka og ákveðið, að A tæki laun samkvæmt launaflokki I samkvæmt stigamati nefndarinnar. Er það skoðun mín, að það hafi verið á þessum tímapunkti, sem stjórnsýslumál A hafi verið til lykta leitt, en þá kom fram, hver niðurstaðan var af beitingu þeirra sjónarmiða, sem mælt var fyrir um í úrskurðinum frá 2. júlí 1998. A leitaði til umboðsmanns Alþingis með bréfi 13. desember 1999, eða innan þess árs frests, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.

Ákvörðun kjaranefndar um laun A var byggð á heimild í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, svo sem lögunum var breytt með 56. gr. laga nr. 70/1996, til þess að taka tillit til sérstakrar hæfni, er nýtist í starfi. Lagagreinin er svohljóðandi:

„Kjaranefnd skal ákvarða föst laun fyrir dagvinnu og kveða á um önnur starfskjör. Hún úrskurðar hvaða aukastörf tilheyra aðalstarfi og hver beri að launa sérstaklega. Við ákvarðanir sínar getur nefndin tekið tillit til sérstakrar hæfni er nýtist í starfi og sérstaks álags sem starfinu fylgir.”

Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, hvað varðar aðra ríkisstarfsmenn en þá er kjaranefnd ákvarðar laun.

Í athugasemdum með 2. mgr. 9. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 70/1996 segir svo:

„Í 2. mgr. er forstöðumönnum stofnana veitt heimild til að greiða einstökum starfsmönnum laun til viðbótar grunnlaunum sem ákvörðuð eru af kjaranefnd eða samið er um í kjarasamningum, ekki aðeins vegna sérstakrar hæfni eða sérstaks álags í starfi, heldur fyrir árangur í starfi. Með þessu er lögð áhersla á það sem er einn mikilvægasti hlekkurinn í nýrri starfsmannastefnu ríkisins, að ríkið og stofnanir þess geti veitt almenningi sem til þeirra leitar bætta þjónustu [...].”

Í almennum athugasemdum með frumvarpinu kemur fram, að markmið þess sé að einfalda launakerfi, til dæmis á þann hátt að aðeins verði samið um tiltekin grunnlaun og lágmarksréttindi starfsmanna í kjarasamningum, jafnframt því að afnumdar verði sumar þær uppbætur á laun er tíðkast hafi, svo sem laun fyrir „ómælda yfirvinnu.” Í staðinn fái stjórnendur ríkisstofnana svigrúm til að ákvarða einstökum starfsmönnum laun eftir sérhæfni og menntun, sem nýtist í starfi, svo og eftir ábyrgð og frammistöðu hvers og eins. Styðjist þessar ákvarðanir við almennar reglur og málefnaleg sjónarmið, þannig að fyllsta jafnræðis verði gætt við ákvörðun slíkra viðbótarlauna.

Í athugasemdum með 56. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir, að lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd verði breytt til samræmis við ákvæði frumvarpsins. Var svo gert með umræddu lagaákvæði, meðal annars hvað varðar heimild kjarnefndar til að taka tillit til sérstakrar hæfni, er nýtist í starfi, sem var nýmæli í lögum nr. 120/1992. Hefur kjaranefnd því að lögum sambærilegar heimildir og stjórnendur ríkisstofnana hafa til að ákvarða þeim ríkisstarfsmönnum, sem undir hana heyra, laun vegna sérstakrar hæfni þeirra í starfi.

Með bréfi til Prófessorafélags Háskóla Íslands, dagsettu 14. janúar 1997, fór kjaranefnd þess á leit við félagið, að það tilnefndi 2 – 3 fulltrúa til að þess að koma sjónarmiðum prófessora á framfæri við nefndina í tilefni af áðurnefndri breytingu á lögum nr. 120/1992 um Kjaradóm og kjaranefnd, að kjaranefnd skyldi framvegis ákveða laun og starfskjör prófessora. Þá óskaði kjaranefnd eftir því með vísan til 9. gr. nefndra laga, að henni yrðu sendar upplýsingar og greinargerð um starfssvið og starfskjör prófessora. Sérstaklega var óskað eftir því, að þar kæmu fram upplýsingar um aukastörf og hlunnindi, sem starfi þeirra fylgdu, auk upplýsinga um greiðslur fyrir nefndarstörf þeirra, væri um slíkt að ræða. Var orðið við þessari beiðni af hálfu félagsins samkvæmt bréfi formanns þess, dagsettu 2. apríl 1997, og þrír fulltrúar félagsins tilefndir í nefndina. Í úrskurði kjaranefndar frá 2. júlí 1998 kemur fram, að nefndin hafi meðal annars átt fjölda funda með viðræðunefnd prófessora eða fulltrúum hennar. Þá hafi nefndin einnig hitt einstaka prófessora, sem óskað hafi eftir að ræða við hana. Í máli prófessora hafi komið fram, að ein grundvallarhugmynd í skipulagi háskólastarfs sé sú, að laun kennara og starfsmanna skóla skuli byggjast á árangri þeirra í kennslu, rannsóknum og stjórnun. Til að stuðla að auknum gæðum háskólastarfsins hafi því verið settir fram ákveðnir mælikvarðar, sem beitt sé til að leggja mat á árangur í starfi. Til séu bæði alþjóðlegir mælikvarðar og kvarðar, sem hafi verið sérsniðnir eftir þörfum einstakra þjóða. Byggi þeir allir á nokkrum grundvallarhugmyndum, sem síðan hafi verið útfærðar með ýmsu móti, eftir því hvað við eigi. Einn meginvandi við það að meta eða gera úttekt á íslensku vísindastarfi sé sá, að ekki liggi fyrir samþykktir, viðurkenndir mælikvarðar. Þrátt fyrir ýmis vandkvæði við gerð mælikvarða og framkvæmd mats hafi kjaranefnd sett matsreglur (mælikvarða), sem notaðir verði við mat á störfum og árangri prófessora. Sé lögð áhersla á, að reglurnar taki til allra meginþátta háskólastarfs. Gefin séu stig fyrir framlag í rannsóknum, kennslu og stjórnun. Samkvæmt reglunum eru eftirtalin atriði metin til stiga og ræður fjöldi þeirra því í hvaða launaflokk prófessor raðast:

Kennsla. Metin er kennslureynsla, svo og sérstakt framlag til uppbyggingar kennslu, gerð kennsluefnis og leiðbeining nemenda í framhaldsnámi.

Rannsóknir. Eftirfarandi atriði eru m.a. metin: Fjöldi vísindalegra ritsmíða og í hvers konar ritum þau eru birt, fjöldi tilvitnana, þátttaka og virkni í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi og fleira.

Stjórnun. Metin eru stjórnunarstörf innan háskóla, sem ekki teljast til hefðbundinna skyldustarfa, t.d. formaður námsbrautar eða skorar, forstöðumaður rannsóknarstofu eða stofnunar, deildarforseti, rektor.

Auk heildarstigafjölda er tiltekinn lágmarksstigafjöldi fyrir kennslu og rannsóknir skilyrði fyrir röðun í launaflokk, eins og fram kemur í eftirfarandi töflu:

Rannsóknarstig Kennslustig Heildarstigafjöldi

Flokkur I 120 0 200

Flokkur II 70 100 400

Flokkur III 400 120 600

Flokkur IV 550 150 900

Flokkur V 750 180 1200

Þá segir í reglunum, að prófessor geti óskað eftir því á tveggja ára fresti, að afköst hans og vinnuframlag verði metið og skuli matið endurskoðast eigi sjaldnar en fimmta hvert ár.

Samkvæmt reglunum eru stig gefin fyrir A) rannsóknir B) kennslu C) stjórnun og D) annað. Í flokki A) eru 15 stig gefin fyrir kandídats- eða meistaraprófsritgerð, 30 stig fyrir doktorsnámsritgerð og 45 stig fyrir doktorsritgerð hina meiri.

Fyrir bók, fræðirit, þar sem fram kemur ný þekking á fræðasviði, þar sem beitt er vísindalegri aðferðafræði, sem hefur áhrif í vísindasamfélaginu, eru gefin 10 – 30 stig. Með endurskoðaðri ákvörðun nefndarinnar 17. desember 1998 var vægi bóka og kennslurita aukið upp í allt að 60 stig.

Fyrir grein, sem birt er í viðurkenndu tímariti (þ.e. Science Citation Index, Social Science Citation Index og Arts/Humanities Citation Index), eru gefin 15 stig, en grein, birta í öðru fræðiriti, 10 stig.

Fyrir ritgerðir í ritrýndum ráðstefnuritum eru gefin 10 stig, en fyrir fræðilega skýrslu 0 – 5 stig, álitsgerð 0 – 3 stig, ritrýndan útdrátt 1 stig, ritdóm 1 – 2 stig, fræðslu fyrir almenning 5 – 10 stig, erindi á vísindaráðstefnum 3 stig og veggspjald á ráðstefnu 2 stig.

Fyrir tilvitnanir, sem getið er um í SCI, SSCI eða AHCI, er gefið 1 stig fyrir fyrstu 10 tilvitnanir, 0,5 stig fyrir næstu 20 tilvitnanir og fyrir tilvitnanir umfram 30 eru gefin 0,2 stig. Fyrir „Plenum” fyrirlestra á alþjóðlegri ráðstefnu eru gefin 10 stig og erindi í boði háskóla eða vísindaakademíu eða inngangsfyrirlestur á ráðstefnu („keynote”) 5 stig.

Vegna ráðningar í akademíska kennslustöðu eru veitt 10 stig fyrir hvert kennsluár, fyrir smárit til háskólakennslu eru veitt 0 – 3 stig og viðamikið kennslurit 10 – 30 stig, leiðbeining nemenda við meistaraverkefni gefur 4 stig og doktorsverkefni 10 stig.

Þá eru veitt stig fyrir stjórnun, allt frá 10 (formaður skorar, formaður námsbrautarstjórnar, formaður í starfsnefndum háskólaráðs, forstöðumaður rannsóknarstofu – eða stofnunar, varadeildarforseti) til 75 (rektor). Fyrir að vera deildarforseti eru gefin 50 stig og fyrir setu í nefndum á vegum háskólaráðs eða rektors 2 stig.

Enn fremur eru gefin stig fyrir „Annað” og fellur þar undir skipulagning alþjóðlegrar vísindaráðstefnu (3 stig), seta í nefnd um úthlutun úr rannsóknasjóði (3 stig), seta í doktorsnefnd (3 stig), seta í dómnefnd (3 stig) og að vera andmælandi við doktorsvörn (3 stig). Þá segir þar, að kjaranefnd geti ákveðið stig fyrir þjónustu, innan eða utan háskóla, sem ekki rúmast innan ofangreinds ramma, enda rökstyðji prófessor þá beiðni. Að lokum segir, að kjaranefnd geti vikið frá matsreglum þessum, ef sérstaklega stendur á að hennar mati.

Samkvæmt viðmiðunarreglum kjaranefndar um breytingar á röðun prófessora í flokka, dagsettum 22. október 1998, er skilyrði fyrir hækkun um flokk, að heildarstigafjöldi sé jafnmikill eða meiri en tilskilið lágmark í þeim flokki, sem prófessor raðist í endanlega. Raðist prófessor, miðað við rannsóknarstig, í flokk, sem er að minnsta kosti tveimur launaflokkum hærri en kennslustigafjöldi hans segir til um, má hækka hann um flokk, enda sé heildarstigafjöldi til að færast í flokkinn jafnmikill eða meiri en mælt er fyrir um í matsreglum kjaranefndar. Einnig er heimilt að hækka um flokk, ef rannsóknarstigaflokkur er einum flokki hærri en kennslustigafjöldi segir til um, ef 25 stig eða minna vantar upp á kennslustigafjöldann til að ná þeim launaflokki. Vanti 5% eða minna upp á rannsóknastig til þess að tilskildu lágmarki sé náð, má hækka prófessor um flokk, ef kennslustigafjöldi og heildarstigafjöldi er nægur. Séu kennslustig fleiri en 300, má breyta þeim hluta þeirra, sem er umfram 180 stig, þannig að 1 kennslustig jafngildi 1/3 rannsóknarstigi. Þessi umreikningur breyti ekki heildarstigafjölda. Í undantekningartilvikum er heimilt að hækka prófessor um flokk, þó að hann hafi ekki tilskilinn fjölda rannsóknarstiga, ef hann hefur unnið sérstakt uppbyggingar- eða brautryðjendastarf fyrir skólann. Hafi prófessor verið stundakennari að aðalstarfi við háskóla, áður en hann var ráðinn í akademíska stöðu, er heimilt að meta það að hálfu. Að lokum getur kjaranefnd vikið frá þessum reglum, ef sérstaklega stendur á að hennar mati.

Með úrskurðinum fylgdu og svonefndar vinnureglur matshópa, en í inngangi að þeim segir meðal annars, að eitt grundvallaratriði í úrskurði kjaranefndar um launakjör prófessora hafi verið, að þeir skyldu raðast í launaflokka miðað við starfsferil. Matsreglurnar, sem fylgdu úrskurði nefndarinnar um launakjör prófessora, hafi ekki verið fullkomlega tæmandi og jafnframt þurft að skýra þær frekar. Einkum hafi þar verið um að ræða atriði, þar sem reglurnar gáfu ákveðið svigrúm, svo sem að gefa mætti 0 – 5 stig fyrir tiltekið verk. Sérstök nefnd, ráðgjafanefnd, hafi verið kjaranefnd til ráðuneytis við framkvæmd matsins. Hafi mat á starfsferli prófessora verið unnið í fjórum matshópum (hugvísindi, félagsvísindi, verk- og raunvísindi og heilbrigðisvísindi). Hver matshópur hafi verið skipaður einum sérfræðingi frá háskólunum, einum sérfræðingi utan háskólanna og tveimur fulltrúum frá ráðgjafanefnd kjaranefndar. Til að samræma vinnubrögð matshópa hafi hver ráðgjafanefndarfulltrúi verið í tveimur matshópum og samræmi milli matshópanna treyst enn frekar með reglulegum samráðsfundum þeirra, þar sem ýmis matsatriði hafi verið rædd og túlkun samræmd.

Í inngangi samræmdra vinnureglna matshópa kemur fram, að eitt grundvallaratriði í áðurnefndum úrskurði kjaranefndar um launakjör prófessora hafi verið, að þeir skyldu raðast í launaflokka miðað við starfsferil. Hafi matsreglur þær, er fylgdu úrskurðinum, ekki verið fullkomlega tæmandi og jafnframt þurft að skýra þær frekar og samræmdar vinnureglur því settar. Taka reglurnar til a) rannsókna, þar sem fjallað er um prófritgerðir, bækur, greinar í fræðiritum, greinar birtar í alþjóðlegum viðurkenndum tímaritum, greinar birtar í öðru fræðiriti, ritgerðir í ritrýndum ráðstefnuritum og bókarkafla, fræðilegar skýrslur, álitsgerðir, ritrýnda útdrætti, ritdóma, fræðslurit fyrir almenning, erindi á vísindaráðstefnum og veggspjalda á ráðstefnum, b) áhrifa/viðurkenninga, en þar eru undir tilvitnanir, fyrirlestrar, erindi í boði háskóla, vísindaakademíu eða inngangsfyrirlestrar ráðstefna og störf í ritnefndum vísindatímarita, c) kennslureynsla, sem fjallar um kennslurit, leiðbeiningu nemenda, sérstaka uppbyggingu á deild eða skor, d) stjórnun, e) þjónustu innan eða utan háskóla, röðun í flokka og mat á verkum prófessora í listgreinum. Í reglunum er gerð grein fyrir og rökstutt, hve mörg stig eru gefin fyrir hvern ofangreindra þátta. Þá er varðandi röðun í launaflokka tekið fram, að matsnefndum sé heimilt að gera rökstudda tillögu til kjaranefndar um að lyfta prófessorum um flokk, t.d. ef mikið ósamræmi er milli rannsókna- og kennslustiga, ef sýnt þykir, að viðkomandi hafi gegnt veigamiklu uppbyggingarstarfi innan háskóla eða af einhverjum öðrum gildum ástæðum. Voru í því skyni settar sérstakar viðmiðunarreglur kjaranefndar um breytingar á röðun prófessora í flokka.

Í áliti umboðsmanns Alþingis í málum nr. 2271/1997 og 2272/1997 segir meðal annars svo:

„Með hliðsjón af efnisákvæðum laga nr. 120/1992 og lögskýringargögnum, er það skoðun mín, að það sé hlutverk kjaranefndar að ákveða sérstaklega launa- og starfskjör hvers starfsmanns með vísan til þeirra atvika og aðstæðna, sem við eiga hverju sinni. Má í þessu sambandi benda á ákvæði 12. gr. laganna frá 1992 [laga nr. 120/1996], en þar segir, að kjaranefnd skuli taka mál til meðferðar, þegar henni þykir þurfa, og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu, sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögunum eða á störfum þeirra, sem úrskurðarvald þeirra tekur til. Í 2. mgr. 12. gr. er þó kveðið á um það, að kjaranefnd skuli eigi sjaldnar en árlega meta, hvort tilefni sé til breytinga á starfskjörum, sem þau ákveða.

Að þessu virtu tel ég rétt að vekja athygli á þeirri grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins, að í þeim tilvikum, er löggjafinn hefur veitt stjórnvöldum mat til þess að geta tekið ákvörðun, sem best hentar hag hvers aðila með tilliti til allra aðstæðna, er stjórnvöldum óheimilt að afnema matið með því að setja reglu, sem tekur til allra mála, sambærilegra eða ósambærilegra. Í slíkum tilvikum er mat stjórnvalda skyldubundið og því óheimilt að afnema það eða takmarka óhóflega. Þó að telja verði heimilt að stjórnvald setji sér viðmiðunarreglur í þeim tilgangi að stuðla að samræmi í úrlausnum sínum, verður það engu að síður að geta lagt sérstætt mat á hvert mál fyrir sig og leyst úr því, án þess að vera fyrir fram bundið af fastmótuðum efnisreglum.

Með vísan til þeirra sjónarmiða, sem ég hef rakið hér að framan, er það skoðun mín, að framangreindar reglur kjaranefndar frá 16. júní 1997, um ákvörðun greiðslna vegna aukastarfa, séu full afdráttarlaust orðaðar. Sé því fyrir hendi hætta á því, að þær dragi úr því markmiði löggjafans, að kjaranefnd taki þá launaákvörðun, sem réttust og eðlilegust þykir í hverju tilviki fyrir sig, með skírskotun til allra atvika og aðstæðna.”

Ég tel, að þau sjónarmið, sem byggt er á í ofangreindu áliti umboðsmanns Alþingis, eigi almennt við varðandi kvörtun þá, er hér um ræðir. Er þannig fallist á með kjaranefnd, að hún hafi haft heimild til að setja sér þær matsreglur, sem hún hefur gert, í þeim tilgangi að stuðla að samræmi í úrlausnum sínum. Hið sama gildir um vinnureglur nefndarinnar, sem staðfestar voru á fundi nefndarinnar 5. nóvember 1998, sem og viðmiðunarreglur um breytingar á röðun prófessora í flokka, er samþykktar voru á fundi nefndarinnar 22. október 1998. Þá tel ég, að nefndin hafi ekki þurft til þess sérstaka lagaheimild. Að mínu áliti eru framangreindar mats- og viðmiðunarreglur kjaranefndar í grundvallaratriðum reistar á málefnalegum sjónarmiðum og eiga að geta þjónað því markmiði að stuðla að jafnræði milli prófessora við launaákvarðanir þeirra.

Ætla verður þó, að slíkar reglur geti tekið einhverjum breytingum, svo sem raunin hefur orðið. Þá bendi ég á þær athugasemdir, sem ég hef gert í málum nr. 2974/2000 og 2973/2000 varðandi stigagjöf fyrir fræðibækur og tímaritsgreinar. Einnig tek ég undir gagnrýni A varðandi þau skilyrði, sem sett eru í reglunum, til þess að [fræði]bókum prófessora verði gefin stig. Enn fremur er það skoðun mín, að nefndin verði að taka afstöðu í hverju einstöku máli á grundvelli málefnalegs mats á atvikum og aðstæðum og innan þess lagaramma, sem nefndin starfar eftir. Er það skoðun mín, að kjaranefnd verði að geta lagt sérstætt mat á hvert mál fyrir sig og leyst úr því með rökstuddum hætti, án þess að vera fyrir fram bundin af fastmótuðum efnisreglum.

Samkvæmt því, sem að ofan greinir, tel ég, að kjaranefnd sé heimilt að ákveða prófessorum misjafnlega há laun fyrir störf undir sama starfsheiti, enda sé það gert á grundvelli hlutlægra, málefnalegra ástæðna, sbr. álit umboðsmanns Alþingis, kafla IV.3., í máli nr. 2496/1998. Að því virtu tek ég undir sjónarmið kjaranefndar um, að það sé málefnalegt og lögmætt, að launakjör prófessora taki að ákveðnu marki mið af árangri þeirra í starfi, að svo miklu leyti sem slíkt megi meta á hlutlægan hátt, og að slíkt mat á afrakstri nái, eðli sínu samkvæmt, til þeirra verka, sem þegar hafa verið unnin.

Þá tel ég, að kjaranefnd hafi verið rétt, með vísan til rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að kveðja sér til aðstoðar menn, sem hafa sérfræðiþekkingu á viðkomandi sviði, þar sem nefndarmenn hafa ekki til að bera slíka þekkingu, og að í þeirri ráðagerð felist ekki valdframsal frá kjaranefnd til sérfræðinganna, enda er það kjaranefnd, sem tekur endanlega ákvörðun um launakjör prófessora. Einnig bar kjaranefnd að leita lögbundinnar umsagnar samkvæmt 2. mgr. 9. gr. gildandi laga um Kjaradóm og kjaranefnd, sem hún og gerði með því að gefa Félagi prófessora við Háskóla Íslands kost á að tilnefna talsmenn prófessora við skólann. Það var svo ákvörðun kjaranefndar að byggja ákvörðun sína um launakjör prófessora á hugmyndum, sem fengust við þessa álitsumleitan, og geri ég ekki athugasemd við það. Fellst ég jafnframt á það með kjaranefnd, að í slíkri ákvörðun felist engan veginn, að félagið hafi bundið einstaka prófessora með yfirlýsingum sínum eða málflutningi fyrir nefndinni.

Varðandi þá kvörtun A, að nefndarmenn í kjaranefnd verði ekki taldir hæfir til þess að ákvarða laun með þeim hætti, sem 11. sbr. 10. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd, með áorðnum breytingum, kveði á um samkvæmt hljóðan sinni, þar sem ekki sé gert ráð fyrir neins konar fræðilegu mati á störfum og verkum þeirra, sem nefndinni er ætlað að ákveða laun, tek ég undir með kjaranefnd, að með 3. ml. 1. mgr. 11. gr. laganna er beinlínis byggt á slíku mati kjaranefndar, annars vegar á álagi, sem starfi fylgir, og hins vegar á sérstakri hæfni starfsmanns, er nýtist í starfinu.

Um þann hluta kvörtunar A, sem lýtur að því, að prófessorar séu vanhæfir til þess að veita kjaranefnd sérfræðilega aðstoð við fyrrgreint mat, þar sem þeir verði metnir með sama hætti, er það áréttað, sem áður segir, að kjaranefnd hafi verið rétt að leita til þeirra manna, sem hún taldi hæfasta til ráðgjafar um sérfræðileg málefni. Tel ég, að þátttaka prófessora í undirbúningi á mati á verkum annarra prófessora verði hvorki felld undir vanhæfisástæður 3. gr. stjórnsýslulaga né ólögfestra vanhæfisreglur. Hið sama gildir um áðurnefnda lögbundna álitsumleitan kjaranefndar til talsmanna prófessora.

2.

Í öðru lagi kvartar A yfir, að kjaranefnd hafi ekki haft heimild til að krefja prófessora, þar á meðal hann, um þær upplýsingar og þau gögn og með þeim hætti, sem hún gerði.

Í áðurnefndum matsreglum er gert ráð fyrir, að einstakir prófessorar láti meðal annars í té upplýsingar meðal annars um prófgráður, bækur og fræðirit, sem þeir hafa samið, greinar í tilteknum fræðiritum, sem eru flokkuð, tilvitnanir um fyrirlestra, störf í ritnefndum og í ritstjórn, upplýsingar um kennslureynslu, kennslurit, leiðbeiningar til nemenda, sérstaka uppbyggingu á deild eða skor, stjórnun.

Kjaranefnd hafði samkvæmt lögum frumkvæði að því að taka mál A til meðferðar, og á sú meginregla stjórnsýsluréttar því við, að stjórnvöld þurfi viðhlítandi lagaheimild til að geta krafið málsaðila um gögn.

Svo sem áður greinir er hina almennu rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins að finna í 10. gr. stjórnsýslulaga, en samkvæmt henni ber stjórnvaldi að sjá til þess, að mál sé nægilega upplýst, áður en ákvörðun er tekin í því.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd nr. 120/1992, sbr. 56. gr. laga nr. 70/1996, aflar kjaranefnd sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga, og er henni rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum og embættismönnum, og skulu embættismenn meðal annars veita upplýsingar um aukastörf og hlunnindi, sem störfum þeirra fylgja. Í greinargerð með frumvarpi því, er varð að lögum nr. 120/1992, kemur meðal annars fram um 9. gr. þess, að þar sem kjaranefnd skuli ákveða heildarlaun sé nauðsynlegt, að hún fái þær upplýsingar, sem fáanlegar eru um starf viðkomandi starfsmanns og önnur störf, er hann kanna að gegna í þágu starfans eða annarra.

Ráðið verður af orðalagi 1. mgr. 9. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd, að þar sé ekki um tæmandi talningu að ræða á þeim upplýsingum, sem henni er heimilt að krefja embættismenn um, áður en hún tekur ákvörðun um laun þeirra. Kjaranefnd er samkvæmt 1. mgr. 11. gr. áðurnefndra laga, sbr. 56. gr. laga nr. 70/1996, ætlað að taka tillit til sérstakrar hæfni, er nýtist í starfi og sérstaks álags, sem starfinu fylgir. Við samanburðarskýringu á 1. mgr. 9. gr. og 1. mgr. 11. gr. laganna og þegar hafður er í huga sá tilgangur laganna að heimilt sé að taka tillit til sérstakrar hæfni í starfi, verður að ætla kjaranefnd víðtækar heimildir til að krefja prófessora um upplýsingar um gögn, er varða starfsferil þeirra. Er það því álit mitt, að kjaranefnd hafi samkvæmt 1. mgr. 9. gr. nefndra laga um Kjaradóm og kjaranefnd verið heimilt að krefja A um þær upplýsingar, sem hún þurfti á að halda til að komast að niðurstöðu um sérstaka hæfni hans í starfi og ekki er að finna í opinberum gögnum. Hlýtur sú niðurstaða og að stuðla að því, að nefndin fengi sem gleggstar og réttastar upplýsingar um A og jafnframt standi það honum sjálfum næst að koma á framfæri við nefndina viðbótarupplýsingum við opinber gögn, sem og leiðréttingum við þau, ef því er að skipta.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, tel ég ekki tilefni til athugasemda af minni hálfu vegna þessa þáttar kvörtunarinnar.

3.

Í þriðja lagi lýtur kvörtun A að því, að kjaranefnd hafi ekki mátt neita að láta honum í té nauðsynleg gögn, sem ráða röðun annarra prófessora í launaflokka, til þess að hann gæti séð, hvort jafnræðis hafi verið gætt.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að kynna sér skjöl og önnur gögn, er málið varða, nema skjölin séu þess eðlis eða fjöldi þeirra svo mikill, að það sé verulegum vandkvæðum bundið. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar, að lagaákvæði um þagnarskyldu takmarki ekki skyldu til að veita aðgang að gögnum samkvæmt þessari grein. Réttur samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga fellur ekki niður, eftir að ákvörðun hefur verið tekin, og getur aðili stjórnsýslumáls átt ríka hagsmuni af því að geta fengið að kynna sér þau gögn, sem ákvörðun hefur byggst á, til að meta réttarstöðu sína.

Launaákvörðun kjaranefndar um launakjör prófessora með úrskurðinum frá 2. júlí 1998, þar sem grundvallarbreyting var gerð á launakjörum prófessora, var stjórnsýsluákvörðun og gilda stjórnsýslulögin því um þá ákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra. Þá verður og að telja, að allir prófessorar eigi aðild að henni, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga.

Undantekningar frá ofangreindri meginreglu stjórnsýsluréttarins, um upplýsingarétt aðila, er að finna í 16. og 17. gr. stjórnsýslulaga. Kemur fram í 16. gr. að réttur aðila tekur ekki til aðgangs að til dæmis fundargerðum ríkisráðs og ríkisstjórnar, bréfaskiptum stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því, hvort slíkt mál verði höfðað, og vinnuskjölum, sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota. Tel ég einsýnt, að þessi grein eigi hér ekki við. Þá kemur fram í 17. gr. laganna, að þegar sérstaklega stendur á, sé stjórnvaldi heimilt að takmarka aðgang aðila máls að gögnum, ef hagsmunir hans af því að notfæra sér vitneskju úr þeim þykja eiga að víkja fyrir mun ríkari almanna- eða einkahagsmunum. Í athugasemdum, sem fylgdu þessari grein frumvarps til stjórnsýslulaga segir:

„Á það ber að leggja ríka áherslu að líta ber á þetta heimildarákvæði sem þrönga undantekningarreglu, sbr. orðalagið „þegar sérstaklega stendur á”, því að meginreglan er sú að málsaðili hefur rétt á því að kynna sér málsgögn.” (Alþt. 1992-93, A-deild, bls. 3297). Af orðunum „þegar sérstaklega stendur á” má einnig draga þá ályktun, að stjórnvaldi beri að leggja mat á þau andstæðu sjónarmið, sem uppi eru í hverju máli og þá vegna einstakra gagna. Er ekki hægt að útiloka aðila frá aðgangi að gögnum með almennum hugleiðingum þess efnis, að upplýsingar af ákveðnu tagi séu almennt fallnar til þess að valda einhverju tjóni, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 1999, bls. 159, í máli nr. 2685/1999.

Kjaranefnd hefur vísað til þess, að þau gögn, sem krafa A lýtur að, varði launaákvarðanir 200 einstaklinga og taki til þúsunda blaðsíðna. Sé því augljóst, að fjöldi skjalanna sé svo mikill, að verulegum vandkvæðum sé bundið að fá A í hendur afrit þeirra eða ljósrit, sbr. 2. ml. 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Hafi A verið skýrt frá þessu í bréfi 29. júní 1999 og frá þeim tíma hafi kjaranefnd ekki borist frekari beiðnir hans um gögn varðandi launaákvarðanir annarra prófessora. Að mínu mati verður að skoða þetta bréf kjaranefndar, sem rökstudda synjun á ofangreindu erindi A, sbr. 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga.

Í kvörtun A kemur fram, að í „fyrstu lotu” hefði verið nægjanlegt fyrir kjaranefnd að láta honum í té ljósrit svonefndrar sundurliðunar stigagjafar fyrir hvern prófessor og sjá til, hvort það dygði ekki.

Meginreglan samkvæmt stjórnsýslulögum er sú, að aðili máls á rétt á aðgangi að öllum gögnum, sem mál hans varða. Draga verður þá ályktun af kvörtun A, að hann sé ósáttur við skiptingu prófessora í flokka samkvæmt stigagjöf, sem fer eftir tilteknum mats- og vinnureglum kjaranefndar. Samkvæmt því og þar sem ég tel að undantekningarákvæði stjórnsýslulaga um rétt aðila að gögnum eða þau ákvæði upplýsingalaga nr. 50/1996, sem kjaranefnd tilgreinir og áður er getið um, eigi hér ekki við, beini ég þeim tilmælum til kjaranefndar, að hún láti A í té sundurliðum stigagjafar fyrir hvern prófessor, komi fram ósk frá honum þess efnis.

4.

Í síðasta lagi kvartar A yfir því, að hvað sem öðru líði, beri kjaranefnd að ákveða honum áfram þau hæstu laun, sem hún úrskurðar prófessorum við Háskóla Íslands, því að ella sé honum mismunað hlutfallslega, miðað við aðra, en það sé ólögmætt.

Fyrr í þessu áliti hef ég komist að þeirri niðurstöðu, að kjaranefnd hafi haft heimild til að setja sér þær matsreglur, sem hún hefur gert, í þeim tilgangi að stuðla að samræmi í úrlausnum sínum varðandi mat á sérstakri hæfni í starfi, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd nr. 120/1992, með síðari breytingum. Hið sama gildi um vinnureglur nefndarinnar, sem staðfestar voru á fundi nefndarinnar 5. nóvember 1998, sem og viðmiðunarreglur um breytingar á röðun prófessora í flokka, er samþykktar voru á fundi nefndarinnar 22. október 1998. Þá hef ég jafnframt komist að þeirri niðurstöðu, að til þessa hafi nefndin ekki þurft sérstaka lagaheimild. Séu umræddar mats- og viðmiðunarreglur kjaranefndar í grundvallaratriðum reistar á málefnalegum sjónarmiðum og eigi að geta þjónað því markmiði að stuðla að jafnræði milli prófessora við launaákvarðanir þeirra. Ætla verði þó, að slíkar reglur geti tekið einhverjum breytingum, svo sem raunin hefur orðið. Engu að síður verði nefndin að taka afstöðu í hverju einstöku máli á grundvelli málefnalegs mats á atvikum og aðstæðum og innan þess lagaramma, sem nefndin starfar eftir. Verði kjaranefnd þannig að geta lagt sérstætt mat á hvert mál fyrir sig og leyst úr því, án þess að vera fyrir fram bundin af fastmótuðum efnisreglum. Samkvæmt því telji ég, að kjaranefnd sé heimilt að ákveða prófessorum misjafnlega há laun fyrir störf undir sama starfsheiti, enda sé það gert á grundvelli hlutlægra, málefnalegra ástæðna. Sé því málefnalegt og lögmætt, að launakjör prófessora taki að ákveðnu marki mið af árangri þeirra í starfi, að svo miklu leyti sem slíkt megi meta á hlutlægan hátt, og að slíkt mat á afrakstri nái, eðli sínu samkvæmt, til þeirra verka, sem þegar hafa verið unnin.

Með vísan til þeirra röksemda, sem hér hafa verið raktar, tel ég ekki efni til sérstakra athugasemda vegna þessarar kvörtunar A.

VI.

Með bréfi til kjaranefndar, dags. 18. janúar 2002, var óskað eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til nefndarinnar á ný og hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða málið væri enn til meðferðar. Í svari nefndarinnar, dags. 6. mars 2002, segir meðal annars svo:

„ […] beindi [settur] umboðsmaður Alþingis þeim tilmælum til kjaranefndar að hún léti [A], prófessor, í té sundurliðaða stigagjöf fyrir hvern prófessor kæmi fram ósk frá honum þess efnis, en hann hafði meðal annars kvartað yfir því að kjaranefnd hefði ekki verið heimilt að neita að láta honum í té nauðsynleg gögn sem réðu röðun annarra prófessora í launaflokka. Bréf barst frá [A] dags. 25. október 2001 þar sem hann óskaði meðal annars eftir því að kjaranefnd léti honum í té sundurliðun stigagjafar fyrir hvern prófessor við Háskóla Íslands. Kjaranefnd óskaði eftir því með bréfi til [A] dags. 9. nóvember 2001 að hann skilgreindi nánar hvað hann ætti við með sundurliðun stigagjafar. Með bréfi sama dag var stjórn Félags prófessora við Háskóla Íslands kynnt beiðni [A] og óskaði kjaranefnd eftir viðhorfi félagsins til þessarar beiðni þar sem þetta snerti alla prófessora við háskólann. Í svari Félags prófessora dags. 22. nóvember sagði meðal annars að félagið teldi nauðsynlegt að fá afgerandi svör við þeirri spurningu hvort kjaranefnd væri heimilt að miðla til prófessors upplýsingum um persónugreinanleg heildarstig annarra prófessora án þess að ótvírætt samþykki hvers og eins lægi fyrir og án þess að sýnt væri fram á nauðsyn slíkra upplýsinga og að þær þjóni skýrum og málefnalegum tilgangi. Í svari [A] sem barst með bréfi dags. 4. desember kom fram að hann óskar ekki eingöngu eftir upplýsingum um heildarstig heldur nákvæmri sundurliðun á störfum hvers einstaks prófessors, ritstörfum o.þ.h. og hvernig sérhvert verk hefur verið metið til stiga. Kjaranefnd sendi Persónuvernd fyrirspurn 25. febrúar sl. um hvort nefndinni væri heimilt að afhenda prófessornum þessar upplýsingar án þess að samþykki hvers einstaks prófessors lægi fyrir og að sýnt væri fram á nauðsyn þeirra. Svar hefur ekki borist frá Persónuvernd.“

Samkvæmt upplýsingum frá formanni kjaranefndar símleiðis við lokafrágang á skýrslu þessari hefur nefndinni borist svar frá Persónuvernd í tilefni af framangreindri fyrirspurn kjaranefndar. Hefur nefndin hins vegar ekki enn svarað A formlega í tilefni af bréfi hans til nefndarinnar, dags. 25. október 2001.

VI.

Með bréfi til kjaranefndar, dags. 18. janúar 2002, var óskað eftir upplýsingum um hvort A hefði leitað til nefndarinnar á ný og hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar af því tilefni eða málið væri enn til meðferðar. Í svari nefndarinnar, dags. 6. mars 2002, segir meðal annars svo:

„ […] beindi [settur] umboðsmaður Alþingis þeim tilmælum til kjaranefndar að hún léti [A], prófessor, í té sundurliðaða stigagjöf fyrir hvern prófessor kæmi fram ósk frá honum þess efnis, en hann hafði meðal annars kvartað yfir því að kjaranefnd hefði ekki verið heimilt að neita að láta honum í té nauðsynleg gögn sem réðu röðun annarra prófessora í launaflokka. Bréf barst frá [A] dags. 25. október 2001 þar sem hann óskaði meðal annars eftir því að kjaranefnd léti honum í té sundurliðun stigagjafar fyrir hvern prófessor við Háskóla Íslands. Kjaranefnd óskaði eftir því með bréfi til [A] dags. 9. nóvember 2001 að hann skilgreindi nánar hvað hann ætti við með sundurliðun stigagjafar. Með bréfi sama dag var stjórn Félags prófessora við Háskóla Íslands kynnt beiðni [A] og óskaði kjaranefnd eftir viðhorfi félagsins til þessarar beiðni þar sem þetta snerti alla prófessora við háskólann. Í svari Félags prófessora dags. 22. nóvember sagði meðal annars að félagið teldi nauðsynlegt að fá afgerandi svör við þeirri spurningu hvort kjaranefnd væri heimilt að miðla til prófessors upplýsingum um persónugreinanleg heildarstig annarra prófessora án þess að ótvírætt samþykki hvers og eins lægi fyrir og án þess að sýnt væri fram á nauðsyn slíkra upplýsinga og að þær þjóni skýrum og málefnalegum tilgangi. Í svari [A] sem barst með bréfi dags. 4. desember kom fram að hann óskar ekki eingöngu eftir upplýsingum um heildarstig heldur nákvæmri sundurliðun á störfum hvers einstaks prófessors, ritstörfum o.þ.h. og hvernig sérhvert verk hefur verið metið til stiga. Kjaranefnd sendi Persónuvernd fyrirspurn 25. febrúar sl. um hvort nefndinni væri heimilt að afhenda prófessornum þessar upplýsingar án þess að samþykki hvers einstaks prófessors lægi fyrir og að sýnt væri fram á nauðsyn þeirra. Svar hefur ekki borist frá Persónuvernd.“

Samkvæmt upplýsingum frá formanni kjaranefndar símleiðis við lokafrágang á skýrslu þessari hefur nefndinni borist svar frá Persónuvernd í tilefni af framangreindri fyrirspurn kjaranefndar. Hefur nefndin hins vegar ekki enn svarað A formlega í tilefni af bréfi hans til nefndarinnar, dags. 25. október 2001.

VII.

Með bréfi til kjaranefndar, dags. 24. mars 2003, óskaði ég eftir upplýsingum um framvindu máls A og hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í því. Í svari nefndarinnar, dags. 16. apríl 2003, segir m.a. svo:

„Í kjölfar álits setts umboðsmanns Alþingis óskaði [A] eftir að kjaranefnd léti honum í té sundurliðun stigagjafar fyrir hvern prófessor við Háskóla Íslands. Í tilefni af beiðni [A] sendi kjaranefnd fyrirspurn til Persónuverndar og barst svar með bréfi, dags. 18. apríl 2002, [...]. Með bréfum kjaranefndar, dags. 11. og 27. febrúar 2003, [...], var [A] synjað um aðgang að umbeðnum gögnum. Kjaranefnd hafa ekki borist frekari erindi frá [A].“