Rafræn stjórnsýsla. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11558/2022)

Spurt var hvort gjald sem tekið er við útgáfu rafræns sakavottorðs væri umfram kostnað við útgáfuna.

Ekki voru skilyrði til að umboðsmaður gæti fjallað um kvörtunina þar sem hún var almenn spurning. Auk þess lyti hún að lagasetningu Alþingis sem starfssvið hans tæki ekki heldur til.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

 

Vísað er til kvörtunar yðar 12. febrúar sl. sem er sett fram sem fyrirspurn og lýtur að því hvort gjald, sem er tekið við útgáfu rafræns sakavottorðs, sé umfram kostnað sem fellur til við útgáfuna.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboðsmanns Alþingis. Í þessu ákvæði felst að almennt verður ekki kvartað til umboðsmanns nema kvörtunin snerti tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem felur í sér beitingu stjórnsýsluvalds. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té, án þess að um tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sé að ræða í ofangreindum skilningi, lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið.

Þar sem ekki verður annað ráðið af kvörtun yðar en að í henni felist almenn spurning um tiltekið málefni eru ekki uppfyllt skilyrði til að hún verði tekin til frekari meðferðar. Þess skal einnig getið að fjárhæð téðs gjalds hefur verið ákveðin með 22. tölulið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs. Þar segir að gjald fyrir sakavottorð gefin út samkvæmt beiðni einstakra manna sé 2.500 krónur. Í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett. Þar sem gjaldið, sem kvörtun yðar snertir, hefur verið ákveðið með lögum fellur það ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla nánar um kvörtunarefnið.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.