Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11562/2022)

Kvartað var yfir ráðningu í starf.

Umboðsmaður benti viðkomandi á að leita til kærunefndar jafnréttismála áður en lengra væri haldið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 15. febrúar sl. yfir ráðningu í starf deildarstjóra VISS vinnu- og hæfingarstöðvar. Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið að gengið hafi verið framhjá yður við ráðninguna vegna fötlunar.

Lög nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, gilda um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð m.a. fötlun, svo sem hvað varðar aðgengi að störfum, sjálfstæðri atvinnustarfsemi eða starfsgreinum, þ.m.t. við ráðningar og framgang í starfi, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. laganna. Í III. kafla laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, er fjallað um kærunefnd jafnréttismála. Nefndin tekur til meðferðar kærur sem til hennar er beint eftir því sem mælt er fyrir um í lögum um jafnréttismál, sbr. 1. gr., en þar undir falla m.a. lög nr. 86/2018, og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði þeirra laga hafi verið brotin, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Erindi skulu berast nefndinni skriflega innan sex mánaða frá því að vitneskja um ætlað brot lá fyrir, frá því að ástandi sem talið er brot á hlutaðeigandi lögum lauk eða frá því að sá er málið varðar fékk vitneskju um ætlað brot, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna.

Í framkvæmd umboðsmanns Alþingis hefur, með hliðsjón af þeim sjónarmiðum er búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, verið litið svo á að þegar með lögum hefur verið komið á fót sérstökum eftirlitsaðila innan stjórnsýslunnar til að fjalla um tilteknar kærur eða kvartanir, eins og í þessu tilviki, sé rétt að slík leið hafi verið farin áður en kvörtun vegna sama máls kemur til umfjöllunar hjá umboðsmanni. Yður er í samræmi við framangreint fært að freista þess að bera mál yðar undir kærunefnd jafnréttismála. Ef þér kjósið að gera slíkt og teljið yður enn beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getið þér leitað til mín á ný.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni vegna kvörtunar yðar.