Skipulags- og byggingarmál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11567/2022)

Kvartað var yfir að ákvæðum byggingarreglugerðar hefði ekki verið fylgt þegar tilgreint fjöleignarhús var byggt á árunum 1990-1991. Af þeim sökum hefðu réttindi fatlaðra og aldraðra verið skert, auk þess sem gerðar voru athugasemdir við svör byggingarfulltrúans í Kópavogi við erindum. 

Hvað húsbygginguna snerti var hún utan þess ársfrests sem áskilinn er til að umboðsmaður geti tekið kvörtun til umfjöllunar. Þá taldi hann ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á svörum byggingarfulltrúans við erindunum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 18. þessa mánaðar yfir því að ákvæðum byggingarreglugerðar hafi ekki verið fylgt þegar tilgreint fjöleignarhús var byggt á árunum 1990-1991. Byggist kvörtunin á því að af þeim sökum hafi réttindi fatlaðra og eldri borgara verið skert, auk þess sem gerðar eru athugasemdir við svör byggingarfulltrúans í Kópavogi 11. febrúar sl. við erindum yðar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Meðal þeirra skilyrða sem kveðið er á um í lögunum fyrir því að kvörtun verði tekin til meðferðar er að hún sé borin fram innan árs frá því er stjórnsýslu­gerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. 6. gr. þeirra. Þar sem lengri tími er liðinn en eitt ár frá því að umrætt hús var byggt eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar að því marki sem hún kann að beinast að stjórnsýslu byggingarfulltrúans á þeim tíma er það var á byggingarstigi. Þá tel ég ekki nægilegt tilefni til nánari athugunar á svörum hans við erindum yðar.

Með vísan til þess sem er rakið að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.