Atvinnuréttindi og atvinnuleyfi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11568/2022)

Fyrri kvörtun sem afgreidd var hálfum mánuði fyrr var fylgt eftir. 

Sú síðari var sama marki brennd og hin fyrri þar sem í henni fólst beiðni um svör við fyrirspurnum um lögfræðileg málefni og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um hana nú frekar en áður. Þá benti umboðsmaður viðkomandi á að starfssvið sitt tæki ekki til starfa Alþingis og því ekki heldur skilyrði að því leiti til að hann gæti fjallað um erindið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 18. þessa mánaðar, en með henni fylgið þér eftir kvörtun yðar 31. janúar sl. sem fékk málsnúmerið 11522/2022. Lauk athugun umboðsmanns Alþingis á því máli með bréfi 14. febrúar sl.

Þótt þess sé getið í upphafi erindis yðar nú að ráðin hafi verið bót á þeim annmörkum sem voru á fyrra erindi yðar verður ekki annað ráðið en að erindið sé sama marki brennt og áður. Þar sem í kvörtuninni felst beiðni um að nánar tilgreindum fyrirspurnum um lögfræðileg mál­efni verði svarað fellur það ekki að hlutverki umboðsmanns að fjalla frekar um hana, líkt og nánar var gerð grein fyrir í áðurnefndu bréfi.

Af erindi yðar verður ráðið að þér teljið vegið að stjórnarskrár­vörðum atvinnuréttindum yðar með því að þess sé krafist á grunni laga nr. 160/2010, um mannvirki, að byggingar­stjórar hafi gæðastjórnunar­kerfi. Af þessum sökum er athygli yðar vakin á því að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en í a-lið 4. mgr. sömu greinar er kveðið á um að það taki ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Í ákvæðum þessa stafliðar felst að ekki er unnt að kvarta til umboðsmanns yfir laga­setningu Alþingis og brestur því einnig á þessum grundvelli skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.