Fullnusta refsinga. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11571/2022)

Kvartað var yfir þeim tíma sem leið frá dómi þar til afplánun hófst og að líta ætti til þess við mat á beiðni um reynslulausn. 

Af erindinu varð ekki ráðið hvort athugasemdunum hefði verið komið á framfæri við fangelsismálayfirvöld. Umboðsmaður benti viðkomandi á að gera það og svo mætti kæra ákvarðanir Fangelsismálastofnunar til dómsmálaráðuneytisins áður en það kæmi til sinna kasta.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til erindis yðar, sem barst 23. febrúar sl., en af því má ráða að þér séuð ósáttir við þann tíma sem hafi liðið frá því að dómur féll í máli yðar og þangað til að þér hófuð afplánun, og að þér teljið að líta eigi til þess við mat á beiðni yðar um veitingu reynslulausnar.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 2. gr. laganna. Í 2. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um að þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af hálfu stjórnvalda, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Til að umboðsmaður geti fjallað um mál í tilefni af kvörtun þarf hún því að beinast að tiltekinni ákvörðun eða athöfn. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 er þá kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skulu sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af erindi yðar verður ekki ráðið hvort þér hafið komið athugasemdum yðar og beiðni um veitingu reynslulausnar á framfæri við fangelsismálayfirvöld, en samkvæmt 5. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, sér Fangelsismálastofnun um fullnustu refsinga og önnur verkefni í samræmi við ákvæði laganna. Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, þ.m.t. ákvarðanir um veitingu reynslulausnar, eru þá kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna, en dómsmálaráðherra fer að öðru leyti með yfirstjórn fangelsismála, sbr. 4. gr. laganna.

Í ljósi framangreindra sjónarmiða um að leiðir innan stjórnsýslunnar séu fullnýttar áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun tel ég ekki unnt að taka mál yðar til athugunar að svo stöddu og lýk því meðferð málsins með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Fari svo að þér leitið til framangreindra stjórnvalda og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni afstöðu þeirra getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.