Börn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11572/2022)

Kvartað var yfir starfsmanni sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu.  

Líkt og viðkomandi var leiðbeint um í úrskurði sýslumanns benti umboðsmaður á að kæra mætti úrskurðinn til dómsmálaráðherra innan tveggja mánaða. Þar sem það hafði ekki verið gert voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 28. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. febrúar sl. yfir starfsmanni sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Af kvörtuninni og því bréfi sem fylgdi henni verður ráðið að þér teljið að úrskurður embættisins 9. nóvember sl. í máli nr. 2019-032937 sé haldinn annmörkum sökum vanhæfis. Einnig eru gerðar athugasemdir við að embættið hafi ekki svarað fyrrgreindu bréfi yðar með fullnægjandi hætti 18. nóvember sl. þótt það hafi verið ítrekað 22. desember sl.

Líkt og yður var leiðbeint um í fyrrgreindum úrskurði er heimilt að kæra úrskurði sýslumanns til dómsmálaráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu þeirra, sbr. 78. gr. barnalaga nr. 76/2003. Ástæða þess að þetta er áréttað er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þar sem ekki liggur fyrir að þér hafið leitað til dómsmálaráðuneytisins vegna fyrrgreinds úrskurðar eru ekki skilyrði að lögum til að umboðsmaður fjalli um það mál sem kvörtun yðar lýtur að, þ.á m. hvort vanhæfur starfsmaður hafi tekið þátt í meðferð þess. Þótt kærufrestur sé samkvæmt framangreindu liðinn getið þér freistað þess að skjóta málinu til ráðuneytisins teljið þér tilefni til þess og kann þá m.a. að reyna á hvort skilyrði séu uppfyllt til að taka stjórnsýslukæru yðar til meðferðar að kærufresti liðnum.

Að lokum tek ég fram að ekki verður annað ráðið en að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi svarað erindi yðar frá 17. nóvember sl. degi síðar með því að upplýsa yður um að samskipti yðar við téðan starfsmann embættisins hefðu leitt til þess að hann hefði ekki komið frekar að meðferð málsins og einnig að kvörtun yðar yfir honum væri komin í ferli hjá því. Þótt þér hafið ekki enn fengið sérstök svör við spurningu yðar 22. desember sl., um hvort þér mættuð eiga von á frekari viðbrögðum embættisins, tel ég í ljósi framangreinds ekki nægilegt tilefni til að taka það, eitt og sér, til nánari athugunar að svo stöddu. Verði óhóflegur dráttur á að embættið svari spurningu yðar frá 22. desember sl. getið þér, að undangenginni ítrekun á þeirri spurningu, leitað til umboðsmanns á nýjan leik.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.