Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11573/2022)

Kvartað var yfir synjun Landspítala á beiðni um afrit af tilteknum gögnum.

Umboðsmaður benti viðkomandi á að bera erindið undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál áður en það gæti komið til sinna kasta.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. febrúar sl. yfir því að Landspítali hafi synjað beiðni yðar um að fá afhent afrit af svokallaðri rótargreiningu sem var gerð í tilefni af andláti eiginmanns yðar á spítalanum árið 2011.

Með kvörtun yðar fylgdi afrit af bréfi spítalans 16. mars 2015 þar sem beiðni yðar var synjað. Um þá afstöðu var vísað til þess að rótargreining teldist „vinnugagn“ í skilningi 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og væri því undanþegin rétti almennings til aðgangs að gögnum á grunni 5. töluliðar 6. gr. sömu laga. Samkvæmt bréfinu var beiðni yðar einnig synjað með vísan til þess að í rótargreiningunni kæmu fram viðkvæmar upplýsingar um heilsuhagi einstaklings.

Í framhaldi af tölvubréfi starfsmanns umboðsmanns Alþingis til yðar 1. mars sl. leituðuð þér aftur til spítalans og óskuðuð eftir að fá rótargreininguna afhenta. Með svari spítalans næsta dag var beiðni yðar synjað á þeim grunni að um væri að ræða vinnugögn sem væri ekki skylt að afhenda, sbr. 5. tölulið 6. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt framangreindu verður ráðið að það sé afstaða Landspítala að um aðgang yðar að umræddu gagni fari eftir ákvæðum II. kafla upplýsingalaga. Í 1. mgr. 20. gr. sömu laga er kveðið á um að heimilt sé að bera synjun beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem úrskurðar um ágreininginn. Þessi ákvæði eru rakin þar sem mælt er fyrir um það í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Þótt spítalinn hafi hvorki leiðbeint yður um framangreinda kæruheimild í bréfinu 16. mars 2015 né tölvubréfinu 2. mars sl. er rétt að þér freistið þess að skjóta málinu til nefndarinnar áður en umboðsmaður fjallar um það.

Með vísan til þess sem rakið er að framan eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar og er athugun minni á henni því lokið að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér ákveðið að skjóta málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál getið þér leitað til umboðsmanns Alþingis að fengnum úrskurði nefndarinnar ef þér teljið þá efni til þess.