Fjármála- og tryggingastarfsemi. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11575/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar í vátryggingamálum. 

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til úrskurða nefndarinnar voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 25. febrúar sl. sem beinist að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum og lýtur að úrskurði nefndarinnar 19. október sl. í máli nr. 336/2021.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans almennt til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum er viðurkenndur frjáls úrskurðaraðili sem hlotið hefur viðurkenningu ráðherra samkvæmt 8. gr. laga nr. 81/2019, um úrskurðaraðila á sviði neytendamála. Nefndin starfar á grundvelli samþykkta sem tóku gildi 1. janúar sl. og fela jafnframt í sér samning á milli fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Neytendasamtakanna og Samtaka fjármálafyrirtækja. Þær samþykktir leystu af hólmi eldri samþykktir og samning aðilanna en áður var jafnframt fjallað um nefndina í 141. gr. laga nr. 30/2004, um vátryggingarsamninga. Í athugasemdum við 141. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 30/2004 sagði eftirfarandi: 

„Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum er ekki stjórnsýslunefnd, hún fer ekki með stjórnsýsluvald og mælir ekki fyrir um réttindi og skyldur þeirra sem fara með mál fyrir nefndina. Úrskurðir hennar eru ekki bindandi og þeim verður ekki skotið til stjórnvalda. Nefndarmenn eru ekki opinberir starfsmenn. Nefndinni má helst líkja við samningsbundinn gerðardóm.“ (Alþt. 2003-2004, A-deild, bls. 1216.)

Með 12. gr. laga nr. 19/2021, um breytingu á ýmsum lögum er varða úrskurðaraðila á sviði neytendamála, var 141. gr. laga nr. 30/2004 felld á brott. Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 19/2021 kemur fram að markmið frumvarpsins sé að deilur við fjármálafyrirtæki, vátryggingafyrirtæki, vátryggingamiðlara og fasteignasala verði leystar hjá frjálsum viðurkenndum úrskurðaraðilum í stað lögbundinna úrskurðaraðila. Með því móti verði starfsemi úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og úrskurðarnefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki færð nær upprunalegu fyrirkomulagi með samningi starfsgreinasamtaka og samtaka neytenda án þess að skerða aðgengi neytenda að skilvirki og faglegri málsmeðferð utan dómstóla (sjá þskj. 574 á 151. löggj.þ. 2020-2021, bls. 4).

Í gildistíð 141. gr. laga nr. 30/2004 var í framkvæmd umboðsmanns Alþingis litið svo á að löggjafinn hefði tekið skýra afstöðu til þess að úrskurðarnefnd í vátryggingamálum færi ekki með stjórnsýsluvald og að hún tæki ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Starfssvið umboðsmanns tæki því ekki til úrskurða hennar.

Samkvæmt framangreindu er nefndinni komið á fót með einkaréttarlegum samningi og þá er ekki lengur mælt fyrir um tilvist hennar í lögum. Nefndin telst því einkaaðili þótt hún hafi hlotið viðurkenningu ráðherra samkvæmt 8. gr. laga nr. 81/2019 og úrskurðir hennar eru ekki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi stjórnsýslulaga. Af því leiðir að umkvörtunarefni yðar fellur utan starfssviðs umboðsmanns eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997 og brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Í ljósi framangreinds lýk ég því athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.