Heilbrigðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11583/2022)

Kvartað var yfir heilbrigðisþjónustu og kostnaði við hana og óskað eftir svörum umboðsmanns við tilgreindum spurningum.  

Það er ekki hlutverk umboðsmanns að svara almennum fyrirspurnum um lögfræðileg málefni og því ekki skilyrði til að fjalla um þann lið kvörtunarinnar. Benti hann viðkomandi á hvað snerti heilbrigðisþjónustuna og kostnað við hana að bera erindið upp við úrskurðarnefnd velferðarmála áður en lengra væri haldið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 4. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar 1. þessa mánaðar sem snertir heilbrigðisþjónustu fyrir son yðar og kostnað vegna hennar. Óskið þér eftir því að nánar tilgreindum spurningum yðar þar að lútandi verði svarað.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Af ákvæðum laganna leiðir m.a. að umboðsmaður svarar að jafnaði ekki almennum fyrirspurnum um lögfræðileg málefni, heldur er hlutverk hans að fjalla um ákvarðanir og aðrar athafnir stjórnvalda að uppfylltum skilyrðum sem kveðið er á um í lögum nr. 85/1997.

Í 5. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, er kveðið á um að það sé hlutverk Sjúkratrygginga Íslands að annast framkvæmd sjúkratrygginga og semja um og greiða endurgjald fyrir heilbrigðisþjónustu samkvæmt lögunum í samræmi við stefnumörkun ráðherra á hverjum tíma. Í 23. gr. laganna er fjallað um læknismeðferð erlendis sem ekki er unnt að veita hér á landi og í 23. gr. a er fjallað um læknismeðferð erlendis sem unnt er að veita hér á landi. Í reglugerðum, sem hafa verið settar á grundvelli þessara lagaákvæða, er fjallað um umsóknar um greiðsluþátttöku sem Sjúkratryggingar Íslands afgreiða. Ákvörðunum stofnunarinnar um greiðsluþátttöku á grundvelli þessara reglugerða er unnt að skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Ástæða þess að framangreind ákvæði hafa verið rakin er að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af erindi yðar verður ekki ráðið að sótt hafi verið um greiðsluþátttöku ríkisins vegna þess meðferðarúrræðis, sem fjallað er um í erindinu, eða að fyrir liggi endanleg niðurstaða stjórnvalda um hana. Af þeim sökum eru að svo stöddu ekki uppfyllt lagaskilyrði til að umboðsmaður Alþingis fjalli frekar um það hvort ríkinu beri að taka þátt í kostnaði vegna meðferðarinnar. Ef þér ákveðið að senda umsókn þar að lútandi til sjúkratrygginga getið þér þó leitað aftur til umboðsmanns að fengnum úrskurði nefndarinnar teljið þér þá efni til þess.

Með vísan til þess sem er rakið að framan lýk ég athugun minni á erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.