Fullnusta refsingar.

(Mál nr. 11577/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun um vistun í öryggisklefa á Litla-Hrauni og gerðar athugasemdir við aðbúnað þar. 

Af erindinu varð ráðið að það væri til skoðunar hjá dómsmálaráðuneytinu og því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar, sem barst 28. febrúar sl., en af því má ráða að það lúti að ákvörðun um að vista yður í öryggisklefa í fangelsinu Litla-Hrauni, auk þess sem þér gerið athugasemdir við aðbúnað yðar í öryggisklefanum.

Ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga, eru að jafnaði kæranlegar til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 95. gr. laganna. Gildir það t.a.m. um ákvarðanir um vistun í öryggisklefa, sbr. jafnframt 78. gr. laganna. Ástæða þess að yður er bent á framangreint er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðs­mann Alþingis, er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu.

Ráðið verður af erindi yðar að það hafi jafnframt verið sent dóms­málaráðuneytinu í formi kæru. Verður því ekki annað ráðið en að ákvörðunin, og aðrar athugasemdir yðar, séu til skoðunar hjá því. Af þeim sökum mun ég ekki fjalla frekar um erindi yðar að svo stöddu, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, og lýk því meðferð málsins með vísan til 1. mgr. 10. gr. sömu laga. Ef þér teljið yður beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.