Lögmenn. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11596/2022)

Kvartað var yfir að tilteknar lögmannsstofur hefðu annaðhvort ekki svarað erindum eða upplýst um að þær hefðu ekki tök á að taka mál að sér. 

Þar sem starfsemi einkaaðila fellur að jafnaði ekki undir starfssvið umboðsmanns voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um erindið. Benti hann viðkomandi bæði á Mannréttindaskrifstofu Íslands og að  Lögmannafélag Íslands starfræki vakt þar sem almenningi bjóðist ókeypis lögfræðiráðgjöf

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. mars sl. yfir tilteknum lögmannsstofum og því að þær hafi annaðhvort ekki svarað erindum yðar eða upplýst yður um að þær hefðu ekki tök á að taka mál yðar að sér. Ekki verður fyllilega ráðið af kvörtun yðar um hvað téð mál snýst.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfs­svið hans almennt til stjórnvalda ríkis og sveitarfélaga auk einkaaðila sem að lögum hefur verið falið opinbert vald til að taka stjórn­valds­ákvarðanir, sbr. 3. gr. laganna. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar að jafnaði ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er að lög­manns­stofur, þar með talið þær sem þér nefnið sérstaklega í kvörtun yðar, teljast til einkaréttarlegra aðila. Þau atriði sem kvörtun yðar beinist að fela ekki í sér beitingu opinbers valds. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um kvörtun yðar að því marki sem hún snertir samskipti yðar við umræddar lögmannsstofur. Þá tel ég ekki efni til að taka önnur atriði sem eru nefnd í kvörtun yðar til nánari athugunar. Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið.

Ég bendi yður þó á að hjá Lögmannafélagi Íslands er starfrækt lögmannavakt þar sem almenningi er veitt ókeypis lögfræðiráðgjöf. Nánari upplýsingar má finna á vefslóðinni www.lmfi.is. Mannréttindaskrifstofa Íslands veitir innflytjendum jafnframt lögfræðiráðgjöf en nánari upplýsingar má nálgast á vefnum www.humanrights.is/is/verkefni.