Heilbrigðismál.

(Mál nr. 11555/2022)

Kvartað var yfir aðbúnaði á geðdeild Landspítala og húsnæði sem Reykjavíkurborg hafði úthlutað viðkomandi.

Að fengnum skýringum spítalans og borgarinnar taldi umboðsmaður ekki nægileg efni til að taka kvörtunina til nánari athugunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 10. febrúar sl. yfir aðbúnaði á geðdeild Land­spítala og húsnæði sem Reykjavíkurborg hafði úthlutað yður. Í tilefni af kvörtuninni voru Landspítala og sveitarfélaginu rituð bréf 15. þess mánaðar þar sem óskað var eftir upplýsingum frá stjórn­völdunum.

Í svarbréfi Landspítala 22. febrúar sl. var fjallað um athuga­semdir yðar við aðbúnað á geðdeild spítalans, auk þess sem bréfinu fylgdu gögn um dvöl yðar þar. Reykjavíkurborg svaraði fyrrgreindu erindi 10. þessa mánaðar. Þar var m.a. rakið að starfsmaður sveitar­félagsins hefði farið í vitjanir til yðar og að sögn hans virtist ástand íbúðarinnar gott. Þá væri starfsmanni Félagsbústaða hf., sem hefði verið haft samband við, ekki kunnugt um að kvartanir hefðu borist vegna ástands íbúðarinnar. Ástand íbúðarinnar yrði hins vegar kannað nú. Þá var vakin athygli á þér hefðuð nýlega undirritað umsókn um þjónustuíbúð, en talið væri að slík íbúð hentaði betur vegna þjónustu- og stuðningsþarfa yðar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan og eftir að hafa kynnt mér þau gögn sem liggja fyrir um kvörtunarefni yðar tel ég ekki nægileg efni til að taka hana til nánari athugunar. Lýk ég því athugun minni á henni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.