Skattar og gjöld. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11561/2022)

Kvartað var yfir því að Samgöngustofa hefði ranglega skráð bifreið sem bensínbifreið þegar rétt hefði verið að skrá hana sem tengiltvinnbifreið.

Ekki varð ráðið af kvörtuninni að erindinu hefði verið skotið til innviðaráðuneytis sem æðra stjórnvalds. Kæruleið var því ekki tæmd og þar með ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar sem barst 13. febrúar sl. og beinist að Samgöngustofu. Stofnunin hafi ranglega skráð bifreið yðar sem bensín­bifreið, þegar rétt hefði verið að skrá hana sem tengiltvinnbifreið.

Samgöngu­stofa annast skráningu ökutækja í ökutækjaskrá, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslu­stofnun samgöngumála. Stofnunin heyrir undir yfirstjórn innviðaráð­herra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 119/2012, og samkvæmt 1. mgr. 18. gr. sömu laga sæta ákvarðanir stofnunarinnar kæru til ráðherra í samræmi við ákvæði stjórn­sýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið fer þá að öðru leyti með mál er varða eftirlit með skráningu og búnaði samgöngutækja, sbr. k-lið 2. töluliðar 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnar­málefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grund­velli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni.

Ekki verður ráðið af kvörtun yðar að þér hafið átt í samskiptum við Samgöngustofu vegna kvörtunarefnisins, t.a.m. með því að óska eftir leiðréttingu, eða að þér hafið leitað með kvörtunarefnið til innviðaráðuneytisins. Í ljósi þess tel ég að svo stöddu ekki fullnægt skilyrði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 til að taka kvörtun yðar til með­ferðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér farið þá leið að leggja kvörtunarefnið fyrir áðurnefnd stjórnvöld og eruð enn ósáttir að fenginni afstöðu þeirra getið þér leitað til mín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.