Opinberir starfsmenn. Breytingar á störfum. Ráðningar í opinber störf. Auglýsing á lausum stöðum.

(Mál nr. 11449/2022)

Kvartað var yfir ráðningu Heilbrigðisstofnunar Norðurlands í starf á heilsugæslustöðinni á Akureyri án auglýsingar.  

Gögn málsins báru með sér að málefnaleg sjónarmið hefðu búið að baki ráðstöfuninni. Með hliðsjón af svörum stofnunarinnar og því svigrúmi sem felst í stjórnunarheimildum forstöðumanna til breytinga á störfum og verkaskiptingu taldi umboðsmaður ekki forsendur til athugasemda.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 20. desember sl., fyrir hönd Félags hjúkrunarfræðinga vegna A, yfir því að Heil­brigðisstofnun Norðurlands hefði á sl. ári ráðið í starf deildar­stjóra í hjúkrunarmóttöku á heilsugæslustöðinni á Akureyri án aug­lýsingar. 

Með bréfi til Heilbrigðisstofnunar Norðurlands 21. janúar sl. var óskað eftir gögnum málsins og að stofnunin veitti upplýsingar um aðdraganda og ástæður þess að farin hefði verið sú leið að fela deildar­stjórastarfið tilteknum starfsmanni heilsugæslustöðvarinnar í stað þess að auglýsa það sem laust starf. Heilbrigðisstofnunin svaraði með bréfi 7. febrúar sl.

Samkvæmt 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfs­manna ríkisins, sbr. einnig 2. gr. reglna nr. 1000/2019, um auglýsingar lausra starfa, er ríkisstofnun skylt að auglýsa starf ef það er laust í merkingu þessara ákvæða. Svo sem komið hefur fram í álitum umboðsmanns Alþingis er það að ýmsu leyti komið undir aðstæðum og afstöðu forstöðu­manns stofnunar hvort tiltekið starf skuli talið laust í þessari merkingu, sbr. t.d. álit umboðsmanns 1. júlí 2003 í málum nr. 3684/2003 og 3714/2003. Þannig hefur verið talið að ekki sé loku fyrir það skotið að forstöðumaður veiti starfsmanni stöðuhækkun á grundvelli stjórnunar­heimilda sinna, sbr. 19. gr. laga nr. 70/1996, enda sé ekki um óskyld störf að ræða. Sé það gert hefur verið litið svo á að umrætt starf verði ekki talið laust í framangreindri merkingu. Að öðrum kosti væri lögð sú skylda á stjórnvald að auglýsa starf án þess að það þjónaði þeim tilgangi sem liggur að baki auglýsingaskyldunni, sbr. t.d. bréf umboðsmanns 12. desember 2003 í máli nr. 3878/2003.

Svo sem gerð var grein fyrir í bréfi heilbrigðisstofnunarinnar 6. desember sl. og áréttað var í bréfi hennar til umboðsmanns Alþingis 7. febrúar sl. var sú ráðstöfun, sem kvörtun yðar lýtur að, gerð á grundvelli 19. gr. laga nr. 70/1996. Ekki var gerður nýr ráðningar­samningur við starfsmanninn sem í hlut átti. Í síðarnefnda bréfinu kom einnig fram að veruleg skörun væri á starfssviðum deildarstjóra og hjúkrunarfræðings í umræddri hjúkrunarmóttöku. Til marks um það segir m.a. í starfslýsingu að deildarstjóri stundi almenna hjúkrun, umönnun og ráðgjöf fyrir sjúka og slasaða, og sinni ýmsum störfum þar sem hjúkrunar­fræðiþekkingar er krafist. Þá bera gögn málsins með sér að mál­efnaleg sjónarmið bjuggu að baki umræddri ráðstöfun. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af því svigrúmi sem felst í stjórnunarheimildum forstöðumanna til breytinga á störfum og verkaskiptingu tel mig ekki hafa forsendur til athugasemda við þessa ráðstöfun.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.