Skattar og gjöld. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11589/2022)

Kvartað var yfir því að úrræði samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða við lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki hefði ekki verið framlengt með breytingu á lögunum. 

Starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis og því ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

 

Vísað er til kvörtunar yðar 8. mars sl. yfir því að úrræði samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða við lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, hafi ekki verið framlengt með breytingum á lögunum, en í ákvæðunum er mælt fyrir um sérstakan frádrátt frá álögðum tekjuskatti árin 2021 og 2022.

Samkvæmt a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hans ekki til starfa Alþingis. Það er því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefur tekist með löggjöf sem Alþingi hefur sett eða hvort tilefni sé til að breyta lögum. Með 11. gr. laga nr. 85/1997 er umboðsmanni þó veitt heimild til að tilkynna Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórn ef hann verður var við meinbugi á gildandi lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum í störfum sínum. Í lögum er hins vegar ekki gert ráð fyrir því að kvörtun verði borin fram við umboðsmann á þessum grundvelli, þótt vitanlega sé öllum frjálst að koma á framfæri við umboðsmann ábendingum um slík atriði. Slík mál eru tekin til athugunar að eigin frumkvæði umboðsmanns á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem kvörtunarefni yðar fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.