Gjafsókn.

(Mál nr. 11491/2022)

Kvartað var yfir synjun dómsmálaráðuneytis á umsókn um gjafsókn. 

Umboðsmaður benti á að elli- og lífeyrisgreiðslur væru ekki sérstaklega undanþegnar við mat á fjárhag umsækjenda um gjafsókn þar sem miða skyldi við stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekna. Ekki væri því ástæða til að gera athugasemd við að litið hefði verið til þessa við mat á fjárhagsstöðu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 13. janúar sl. fyrir hönd A yfir þeirri ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 3. nóvember sl. að synja umsókn hans um gjafsókn til að taka til varna í máli sem X ehf. hefur höfðað á hendur honum. Lýtur ágreiningsefni málsins að greiðsluskyldu A vegna vinnu og þjónustu sem félagið innti af hendi vegna viðgerða á svokölluðum liðlétting, sem hann hafði áður keypt af félaginu.

Af kvörtun yðar verður ráðið að þér teljið niðurstöðu ráðuneytisins efnislega ranga. Gerið þér einkum athugasemdir við að tekið hafi verið mið af elli- og lífeyristekjum A við mat á fjárhagsstöðu hans og það hafi verið metið umsókn hans í óhag að hann hafði ekki leitað til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa.

     

II

1

Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í upphafi málsgreinarinnar er kveðið á um það almenna skilyrði að gjafsókn verði aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda „nægilegt tilefni“ til málshöfðunar eða málsvarnar. Að auki þarf annaðhvort að vera fullnægt skilyrði sem snertir fjárhagsstöðu umsækjanda, sbr. a-lið, eða að málið hafi verulega almenna þýðingu eða varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjanda, sbr. b-lið. Fjallað er nánar um skilyrði gjafsóknar í reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar.

Í 7. gr. reglugerðarinnar er fjallað um fjárhagsstöðu umsækjanda. Í 1. mgr. ákvæðisins segir m.a. að við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skuli miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur nemi ekki hærri fjárhæð en samtals kr. 3.600.000. Sé umsækjandi í hjúskap eða sambúð beri að hafa hliðsjón af tekjum maka og skuli samanlagðar árstekjur ekki nema hærri fjárhæð en kr. 5.400.000. Þá er í 5. gr. reglugerðarinnar mælt fyrir um sjónarmið sem hafa skal til viðmiðunar við mat á því hvort nægilegt tilefni sé til veitingu gjafsóknar fyrir héraðsdómi, til að mynda hvort leitast hafi verið við að leysa málið utan réttar, þ.á m. fyrir úrskurðarnefndum.

     

2

Í umsögn gjafsóknarnefndar, sem ráðuneytið lagði til grundvallar ákvörðun sinni, kom fram að tekjur A væru yfir þeim tekjumörkum sem tilgreind væru í 7. gr. reglugerðar nr. 45/2008, sem henni bæri að hafa hliðsjón af við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda. Var það mat hennar, að virtum gögnum málsins, að ekki yrði séð að efnahag hans væri svo háttað að kostnaður af gæslu hagsmuna hans í málinu yrði honum fyrirsjáanlega ofviða. Þá væru hagsmunir hans af úrlausn málsins ekki með þeim hætti að b-liður 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 ætti við.

Í ljósi athugasemda yður um að tekið hafi verið mið af elli- og lífeyristekjum A árétta ég að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 45/2008 skal við mat á fjárhag umsækjanda um gjafsókn miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekna nemi ekki tiltekinni fjárhæð. Eru elli- og lífeyrisgreiðslur þar ekki sérstaklega undanskildar. Að því virtu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við að litið hafi verið til þessara tekna við mat á fjárhagsstöðu hans eða afstöðu nefndarinnar til þessa skilyrðis. Þá tel ég enn fremur, eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og gögn málsins, ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu að umsóknin hafi ekki uppfyllt skilyrði b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, en eins og orðalag stafliðarins gefur til kynna þarf nokkuð að koma til svo gjafsókn verði veitt á grundvelli hans.

Að því er snertir athugasemdir yðar um að það hafi verið metið umsókn A í óhag að hann hafi ekki leitað til kærunefndar vöru- og þjónustukaupa get ég tekið undir efasemdir um að rökstuðningur ráðuneytisins þar að lútandi fái nægilega stoð í lögum nr. 91/1991 eða almennum reglum. Ég tel þó, í ljósi þess að það var mat gjafsóknarnefndar að hvorki væru uppfyllt skilyrði a- né b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 ekki nægilegt tilefni til að taka þennan þátt kvörtunar yðar til frekari umfjöllunar.

    

III

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.