Kvartað var yfir mismunun vegna lóðarleigu.
Umboðsmaður benti á að viðkomandi leigði af sameignarfélagi og kvörtunarefnið félli utan starfssviðs síns.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar 21. febrúar sl. yfir mismunun þar sem yður sé gert að greiða hærri lóðarleigu en nágrönnum yðar, en fyrir liggur að lóðin sem þér leigið er í eigu ríkisins en ekki lóðir nágranna yðar. Með kvörtuninni fylgið þér eftir kvörtun yðar 22. janúar sl., sem fékk málsnúmerið 11503/2022, en athugun minni á henni lauk með bréfi 14. febrúar sl. þar sem afstaða Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna til athugasemda yðar lá ekki fyrir.
Af svari Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna 21. febrúar sl. sem og öðrum gögnum málsins liggur nú fyrir að ríkið hefur leigt sameignarfélaginu X þá lóð sem þér leigið af félaginu. Athugasemdir yðar um fjárhæð lóðarleigunnar snerta því réttarsamband yðar við sameignarfélagið, en það er einkaréttarlegur aðili.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns Alþingis til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er markað í lögum nr. 85/1997. Af þeim sökum tekur starfssvið umboðsmanns ekki til kvörtunarefnis yðar, enda felst ekki í þeirri starfsemi félagsins, sem erindi yðar snertir, að opinberu valdi í framangreindri merkingu sé beitt. Því brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.
Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna málsins.