Sektir.

(Mál nr. 11609/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotsgjalds vegna bifreiðar sem lagt var á grassvæði til hliðar við gangstétt.  

Umboðsmaður benti á að óumdeilt væri að bifreiðinni hefði verið lagt á svæði sem ekki væri ætlað fyrir umferð skráningarskyldra ökutækja. Ekki væri því ástæða til að gera athugasemdir við ákvörðun Bílastæðasjóðs og álagningu stöðubrotsgjaldsins.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 17. mars sl. sem lýtur að ákvörðun Bíla­stæðasjóðs Reykjavíkur 8. þess mánaðar um álagningu stöðubrotsgjalds fyrir brot gegn 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Laut brotið að því að bifreið yðar hefði verið lagt á grassvæði til hliðar við gangstétt. Í kvörtuninni gerið þér einkum athugasemdir við það að Bíla­stæðasjóður hafi ekki tekið tillit til þess að vegna veðuraðstæðna hafi áðurnefndur staður verið sá eini þar sem unnt hafi verið að leggja bif­reiðinni og þá hafi ekkert stæði verið laust í næsta nágrenni.

Í 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga segir að eigi megi stöðva skráningarskylt ökutæki eða leggja því á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjóla­rein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Sama eigi við um umferðareyjar, grassvæði og aðra svipaða staði.

Samkvæmt kvörtuninni og þeim gögnum sem henni fylgdu er óumdeilt að bifreið yðar var lagt á grassvæði sem ekki er ætlað fyrir umferð skráningarskyldra ökutækja. Þegar af þeirri ástæðu tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun Bílastæðasjóðs að með því hafi bifreiðinni verið lagt í andstöðu við fyrirmæli 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga sem heimilað hafi álagningu stöðubrotsgjalds, sbr. a-lið 1. mgr. 109. gr. sömu laga. Þá tel ég enn fremur ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það að Bílastæðasjóður hafi ekki fallið frá álagningu gjaldsins á grundvelli þeirra atriða sem þér nefnið í kvörtun yðar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.