Húsnæðismál. Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11374/2021)

Kvartað var yfir því að félagslegu húsnæði hefði ekki fengist úthlutað hjá Hafnarfjarðarbæ og töfum á meðferð umsókna. 

Í ljósi svara sveitarfélagsins um lausn á málinu taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

 

Vísað er til kvörtunar yðar 2. nóvember sl., fyrir hönd A, yfir því að hann hafi ekki fengið úthlutað félagslegu húsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og töfum á meðferð umsókna hans.

Í tilefni af kvörtun yðar var Hafnarfjarðarbæ ritað bréf 8. desember sl. Mér hefur nú borist svar frá sveitarfélaginu 21. mars sl. þar sem m.a. kemur fram að A hafi samþykkt að flytja í júnílok í nýjan íbúðar­kjarna á [...] þar sem hann muni búa í séríbúð næstu þrjú árin og njóta áfram þjálfunar og leiðsagnar til að auka færni hans til sjálfstæðis. Að þeim tíma liðnum geri Hafnarfjarðarbær ráð fyrir því að hann verði tilbúinn til sjálfstæðrar búsetu og sveitar­félagið muni þá hafa til ráðstöfunar húsnæði sem henti hag hans og þörfum.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna málsins og læt athugun minni á málinu lokið með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.