Fullnusta refsinga. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11464/2022)

Kvartað var yfir skorti á svörum frá Fangelsismálastofnun við 22 umsóknum á tveggja ára tímabili um flutning frá Litla-Hrauni í opið fangelsi og synjun um dagsleyfi.  

Í ljósi svara Fangelsismálastofnunar og yfirlýsingar um breytt vinnubrögð, þess efnis að stofnunin myndi í framhaldinu tileinka sér að synja umsóknum fanga sem augljóslega ættu ekki kost á vistun í opnu úrræði, taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þessa atriðis í kvörtuninni. Hvað dagsleyfi snerti hafði tveimur synjunum um slíkt ekki verið skotið til dómsmálaráðuneytisins og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. janúar sl. yfir því að hafa ekki fengið svör frá Fangelsismálastofnun við 22 umsóknum á tveggja ára tímabili um flutning frá Litla-Hrauni í opið fangelsi. Þá lýtur kvörtunin einnig að því að yður hafi verið synjað um dagsleyfi.

Í tilefni af kvörtun yðar var Fangelsismálastofnun ritað bréf 11. janúar sl. Þar var þess óskað að umboðsmanni yrðu afhent gögn sem gætu varpað ljósi á stöðu umræddra mála og að stofnunin myndi, eftir atvikum, veita nánari upplýsingar um þau. Mér hefur nú borist svar frá Fangelsis­málastofnun 24. febrúar sl. þar sem m.a. kemur fram að upp­haflegri umsókn yðar hafi verið svarað 17. júlí 2019. Þar hafi yður verið tjáð að ákvörðun yrði tilkynnt yður um leið og hún lægi fyrir og að tíma gæti tekið að fá niðurstöðu. Í bréfi stofnunar­innar til mín kemur einnig fram að í fram­kvæmd hafi þótt betra að fangar ættu virkar umsóknir hjá stofnun­inni frekar en að synja þeim þar sem ákvörðun um vistunarstað gæti tekið tíma auk þess sem lengd þess dóms sem fangi afplánar gæti haft áhrif á þá tímalengd sem þetta tæki. Stofnunin myndi hins vegar í framhaldinu tileinka sér að synja umsóknum fanga sem augljóslega af einhverjum ástæðum myndi ekki koma til með að eiga kost á vistun í opnu úrræði. Í ljósi framangreinds tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna þessa atriðis í kvörtun yðar.

Kvörtun yðar lýtur einnig að því að yður hafi verið synjað um dagsleyfi. Af þeim gögnum sem mér bárust frá Fangelsismálastofnun fæ ég ráðið að yður hafi tvívegis verið synjað um dagsleyfi. Annars vegar með ákvörðun 8. desember sl. og hins vegar með ákvörðun 13. janúar sl. Í fyrrgreindum ákvörðunum er yður leiðbeint um að heimilt sé að kæra ákvarðanir fangelsisins til „innanríkis­ráðuneytisins“, nú dómsmála­ráðu­neytið. Ástæða þess að þetta er rakið hér er sú að í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að þér hafið ekki leitað til ráðuneytisins vegna framan­greindra ákvarðana. Það eru því ekki skilyrði að lögum til að ég taki þær til nánari skoðunar að svo stöddu. Ég bendi yður hins vegar á að ef þér kjósið að kæra ákvarðanir fangelsisins til dómsmálaráðu­neytisins og teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni úrlausn þess getið þér leitað til mín að nýju.

Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.