Rafræn stjórnsýsla. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11586/2022)

Kvartað var yfir því að skila verði tilgreindum gögnum til Ferðamálastofu á tilteknum formi.  

Af kvörtuninni mátti ráða að málið væri enn til vinnslu hjá Ferðamálastofu og afstaða hennar til kvörtunarefnisins lægi því ekki að öllu leyti fyrir. Þegar þar að kæmi benti umboðsmaður á að skjóta mætti niðurstöðu hennar til menningar- og viðskiptaráðherra. Þar til úrlausn ráðuneytisins lægi fyrir væru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 4. mars sl. yfir því að skila verði tilgreindum gögnum til Ferðamálastofu á tilteknu formi.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald þegar það á við, hafa lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Það leiðir af framangreindu að kvörtun til umboðsmanns þarf að jafnaði að beinast að tiltekinni úrlausn eða háttsemi stjórnvalds og þær kæru­leiðir, sem kunna að vera tiltækar innan stjórnsýslunnar, þurfa að hafa verið nýttar. Þegar um er að ræða athugasemdir um tiltekna starfs­hætti eða verklag stjórnvalda hefur verið talið rétt að slíkar athuga­semdir hafi verið bornar undir hlutaðeigandi stjórnvald, og eftir atvikum það stjórnvald sem fer með yfirstjórn þess, áður en ágreiningur vegna þess kemur til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns.

Af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að þér hafið komið athugasemdum yðar á framfæri við Ferðamálastofu, mál yðar sé enn til vinnslu hjá stofnuninni og afstaða hennar til kvörtunarefnisins liggi því ekki að öllu leyti fyrir. Rétt er þá að benda yður á að stofnunin heyrir undir yfirstjórn menningar- og viðskiptaráðherra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2018, um Ferðamálastofu, og c-lið 6. töluliðar 9. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðu­neyta í Stjórnarráði Íslands, og stjórnvaldsákvarðanir stofnunar­innar eru kæranlegar til ráðherrans, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 96/2018. Með vísan til þessa tel ég að svo stöddu ekki fullnægt skilyrði 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 til að taka kvörtun yðar til með­ferðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þér teljið yður enn beitan rangsleitni að fenginni afstöðu stofnunarinnar, og eftir atvikum ráðuneytisins, getið þér leitað til mín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.