Skipulags- og byggingarmál.

(Mál nr. 11587/2022)

Kvartað var yfir að Reykjanesbær hefði ekki svarað efnislega erindi.  

Eftir að hafa kynnt sér málið taldi umboðsmaður ekki tilefni til að gera athugasemdir við það hvernig sveitarfélagið brást við.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 4. mars sl. yfir því að Reykjanesbær hafi ekki svarað efnislega erindi yðar 24. nóvember sl. um umferðar- og skipu­lagsmál á Ásbrú. Vísið þér til þess að samkvæmt bréfi sveitar­félagsins 9. desember sl. hafi aðeins komið fram að erindi yðar hafi verið lagt fram á fundi bæjarstjórnar 7. desember sl. ásamt bókun um að unnið væri að úrbótum á Ásbrú eins og öðrum hverfum bæjarins. Teljið þér að framangreint svar sé ekki fullnægjandi og fari í bága við ýmis ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. síðastnefndra laga gilda þau þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Ákvæði þeirra laga gilda því ekki þegar stjórnvöld svara fyrirspurnum, eins og þeim sem þér beinduð til sveitarfélagsins. Þrátt fyrir það ber stjórnvöldum í slíkum tilvikum að fara að almennum ólögfestum reglum stjórnsýslu­réttarins og fylgja vönduðum stjórnsýsluháttum. Meðal þeirra óskráðu reglna sem hér skipta máli er sú regla sem nefnd hefur verið svar­reglan, en í henni felst að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórn­vald á rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svara sé ekki vænst. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Í reglunni felst á hinn bóginn ekki að stjórnvöldum sé skylt að svara efnislega öllum almennum erindum sem þeim berast heldur ræðst réttur aðila að þessu leyti af öðrum réttarreglum, svo sem leiðbeiningarreglu stjórnsýsluréttar, vönduðum stjórnsýsluháttum sem og af eðli erindisins. Eftir að hafa kynnt mér erindi yðar tel ég, í samræmi við framangreint, ekki tilefni til að gera athugasemdir við það hvernig sveitarfélagið brást við því.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir lýk ég umfjöllun minni um mál yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.