Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11479/2022)

Kvartað var yfir landlækni vegna umsóknar um starfsleyfi sem lyfjafræðingur. 

Í svari landlæknis kom fram að mistök hefðu orðið við meðferð málsins og viðkomandi verið veittur kostur á að skila inn gögnum innan tilskilins tíma sem ekki var útrunninn. Málið var því enn til meðferðar og því ekki tilefni til að umboðsmaður aðhefðist frekar að svo stöddu. 

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 9. janúar sl. sem snertir umsókn yðar til embættis landlæknis um starfsleyfi sem lyfjafræðingur.

Í tilefni af kvörtuninni var embætti landlæknis ritað bréf 23. febrúar sl. og óskað eftir því að upplýst yrði hvað liði meðferð málsins og hvort embættið liti svo á að því væri lokið af þess hálfu. Einnig var þess óskað að umboðsmaður yrði upplýstur um hvort og þá með hvaða hætti yður hefði verið tilkynnt um ákvörðun embættisins í málinu og veittar kæruleiðbeiningar. Í svari embættis landlæknis 9. mars sl. kemur m.a. fram að við meðferð málsins hafi orðið þau mistök að yður hafi verið veittur frestur til að skila inn nýrri umsókn um starfsleyfi en ekki ráðningarsamningi í heilbrigðisþjónustu. Embættið hafi til­kynnt yður um mistökin með tölvubréfi 3. mars sl. og veitt yður kost á því að skila inn ráðningarsamningi til 4. apríl nk. Málið sé því enn í vinnslu hjá embættinu.

Eitt af skilyrðum þess að kvörtun sé tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns Alþingis er að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hafi verið fullnýttar, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af ákvæðinu leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns fyrr en það hefur endanlega verið leitt til lykta innan stjórnsýslunnar.

Af kvörtun yðar og gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að málið sé enn til meðferðar hjá embætti landlæknis. Þar sem ekki liggur fyrir endanleg niðurstaða í málinu af hálfu embættisins eru ekki skilyrði til að ég taki mál yðar til athugunar að svo stöddu. Ég tek fram að þegar þér hafið fengið endanlega niðurstöðu embættis land­læknis, og eftir atvikum heilbrigðisráðuneytisins, til umsóknar yðar um starfsleyfi sem lyfjafræðingur getið þér leitað til mín að nýju teljið þér þá efni til þess.

Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég athugun minni á málinu.