Opinberir starfsmenn. Rafræn stjórnsýsla.

(Mál nr. 11425/2022)

Kvartað var yfir Landspítalanum og meðferð hans á umsókn um starf.  

Í skýringum spítalans kom fram að kerfisvilla í tölvukerfi hefði leitt til þess að umsókn viðkomandi hefði ekki borist áður en ákvörðun um ráðningu hefði verið tekin. Þetta væri óviðunandi og viðkomandi hefði verið beðinn afsökunar og atvik málsins útskýrð á tveimur fundum. Þá hefði kjara- og mannauðssýsla ríkisins gert ráðstafanir til að lagfæra villuna og/eða fyrirbyggja að sambærileg atvik gætu endurtekið sig. Í ljósi viðbragða spítalans og hlutverks umboðsmanns taldi hann ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar á málinu. Það yrði að vera verkefni dómstóla að taka afstöðu til hugsanlegrar skaðabótaskyldu ef viðkomandi teldi málsmeðferðina hafa valdið sér tjóni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 25. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 3. desember sl., sem beinist að Land­spítalanum, og lýtur að meðferð hans á umsókn yðar um starf X á Y-deild spítalans.

Í tilefni af kvörtuninni var spítalanum ritað bréf 17. janúar sl., þar sem óskað var eftir gögnum málsins, auk þess sem farið var fram á tilteknar skýringar á afgreiðslu málsins. Svarbréf barst frá spítalanum 11. febrúar sl. og athugasemdir yðar bárust 24. sama mánaðar. Í svar­bréfi spítalans var m.a. rakið að kerfisvilla í tölvukerfi hefði leitt til þess að umsókn yðar um framangreint starf hefði ekki borist spítalanum áður en ákvörðun um ráðningu var tekin. Þegar það hefði komið í ljós hefði spítalinn haft samband við tiltekna aðila og óskað eftir nánari skýringum. Spítalinn hefði m.a. fengið þau svör frá kjara- og mannauðssýslu ríkisins að ráðstafanir hefðu verið gerðar til að lagfæra villuna og/eða til að fyrirbyggja að sams konar atvik kæmu upp aftur. Í svari spítalans kom þá m.a. fram að hann teldi að atvikið væri óásættanlegt, afsökunar hefði verið beðist og málið rætt við yður á tveimur fundum þar sem atvik málsins hefðu verið nánar útskýrð.

Af framangreindu er ljóst að Landspítalinn hefur viðurkennt að mistök hafi átt sér stað við meðferð hans á umsókn yðar um téð starf, með þeim afleiðingum að hún kom ekki til skoðunar við mat á umsækjendum í starfið. Þá liggja fyrir viðbrögð spítalans þegar mistökin urðu ljós og til hvaða úrræða hefur verið gripið í kjölfarið.

Það er hlutverk umboðs­manns Alþingis að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitar­félaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Störf umboðsmanns eru þess eðlis að viðbrögð hans geta almennt ekki orðið önnur en að lýsa þeirri afstöðu að meðferð mála hjá stjórnvöldum hafi ekki verið í samræmi við lög og vandaða stjórn­sýsluhætti og eftir atvikum beina þeim tilmælum til stjórnvalda að endur­skoða einstök mál, sbr. b-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Þar sem fyrir liggur í þessu máli að stjórnvaldið hefur fallist á að annmarkar hafi verið á meðferð ráðningarmálsins tel ég í ljósi framangreinds um hlutverk umboðsmanns ekki nægilegt tilefni til frekari athugunar á málinu. Í því sambandi hefur einnig áhrif að vegna hagsmuna þess sem var ráðinn í starfið eru ekki forsendur til að beina því til stjórnvaldsins að taka málið aftur til meðferðar. Þá fjallar umboðsmaður að jafnaði ekki um álitaefni sem lúta að hugsanlegri skaðabótaskyldu hins opinbera, en sé það afstaða yðar að málsmeðferðin hafi valdið yður tjóni verður það að vera verkefni dómstóla að fjalla um slíkt, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég ítreka þó að með þessari umfjöllun hef ég ekki tekið neina afstöðu til hugsanlegrar skaða­bótaskyldu eða til þess hver kunni að vera líkleg niðurstaða í slíku dómsmáli.

Þess skal að lokum getið að kvörtun yðar sem og skýringar Landspítala hafa varpað ljósi á álitaefni um starfsemi stjórnvalda sem kunna að verða tekin til almennrar athugunar á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997. Samkvæmt ákvæðinu getur umboðsmaður tekið starfsemi og máls­meðferð stjórnvalds til almennrar athugunar að eigin frumkvæði. Komi til slíkrar athugunar verða atvik máls yðar höfð til hliðsjónar. Ákvarðanir um slíkar athuganir eru teknar með hliðsjón af starfssviði og áherslum umboðsmanns, hagsmunum sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingu mannafla umboðsmanns. Verði af framangreindri athugun verður yður ekki tilkynnt um það sérstaklega heldur er upplýst um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a- og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.