Gistihúsa,- veitinga- og tækifærisleyfi.

(Mál nr. 10952/2021)

Kvartað var yfir afgreiðslu og meðferð á umsókn um þrjú rekstrarleyfi í gistiflokki II á grundvelli laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Með kvörtuninni var eldri kvörtun frá 2019 fylgt eftir.

Fyrir lá að þau réttindi sem upphaflega var sóst eftir höfðu verið veitt. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til málsgagna taldi umboðsmaður ekki tilefni til að fjalla nánar um athugasemdir við meðferð málsins eða ákvarðanir stjórnvalda.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. febrúar 2021 fyrir hönd A ehf. Með henni fylgið þér eftir kvörtun 24. október 2019 sem fékk málsnúmerið 10262/2019.

Báðar kvartanir er að rekja til umsókna félagsins 8. maí 2018 um þrjú rekstrarleyfi í gistiflokki II á grundvelli laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra synjaði umsóknunum 13. júní sama ár. Sú ákvörðun var kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, nú menningar- og viðskiptaráðuneytið, sem vísaði kærunni frá með úrskurði 2. ágúst 2019. Niðurstaða ráðuneytisins byggðist á þeirri forsendu að félaginu skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins þar sem reglugerðarákvæði, sem ákvörðun sýslumanns studdist við, hefði verið fellt úr gildi, en félagið hafði vísað til þess að téð reglugerðarákvæði ætti sér ekki stoð í lögum. Í kvörtuninni 24. október 2019 voru m.a. gerðar athugasemdir við úrskurð ráðuneytisins sem og málsmeðferð sýslumanns. Athugun umboðsmanns Alþingis á málinu lauk með bréfi 15. nóvember sama ár þar sem fyrir lá að umsóknir félagsins um rekstrarleyfi höfðu verið teknar til meðferðar hjá sýslumanninum.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra féllst á síðastnefndar umsóknir og gaf út þrjú rekstrarleyfi 4. desember 2019. Um útgáfudag leyfanna varð ágreiningur. Af hálfu félagsins var því haldið fram að dagurinn ætti að vera miðaður við það hvenær fyrst var sótt um leyfin en sýslumaður miðaði hins vegar við greiðsludag leyfanna, svo sem nánar var gerð grein fyrir í bréfi embættisins 16. desember 2019. Ráðuneytið staðfesti ákvörðun sýslumanns að þessu leyti með úrskurði 22. janúar 2021. Í kvörtun yðar 19. febrúar þess árs eru gerðar athugasemdir við úrskurðinn og málsmeðferð sýslumanns, auk þess sem athugasemdir samkvæmt fyrri kvörtun eru áréttaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 10. gr. sömu laga er fjallað um lyktir máls. Í b-lið 2. mgr. ákvæðisins segir að hafi umboðsmaður tekið mál til nánari athugunar geti hann látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða þeim siðareglum sem nánar eru tilgreindar í lögunum. Þá segir að sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns geti hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Í c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna kemur svo fram að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Á grundvelli 10. gr. laga nr. 85/1997, sbr. einnig 5. gr. sömu laga, hefur umboðsmaður Alþingis svigrúm til að ákveða hvaða mál hann telur tilefni til að fjalla nánar um og þá með hvaða hætti, m.a. með tilliti til mikilvægis þeirra, fjölda mála og þeirra takmörkuðu fjárveitinga og mannafla sem hann hefur til umráða. Hér kann einnig að skipta máli hvort og þá hvaða möguleikar eru á að umboðsmaður geti beint tilmælum til stjórnvalds sem kunna að hafa þýðingu fyrir réttarstöðu þess sem hefur kvartað til umboðsmanns. Ef sá sem leitar til umboðsmanns hefur fengið leiðréttingu sinna mála hjá stjórnvöldum er að jafnaði ekki tilefni fyrir umboðsmann að taka málsmeðferð stjórnvaldsins til sérstakrar athugunar þótt undantekningar kunni að vera á því.

Svo sem mál þetta liggur nú fyrir hefur A ehf. fengið þau réttindi sem það upphaflega sóttist eftir. Að því virtu og að öðru leyti með vísan til þess sem rakið er að framan tel ég ekki nægilegt tilefni til að fjalla nánar um athugasemdir félagsins við meðferð málsins og ákvarðanir stjórnvalda og hef því ákveðið að ljúka athugun minni á málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Sé það afstaða félagsins að athafnir stjórnvalda hafi valdið því skaðabótaskyldu tjóni verður það að vera verkefni dómstóla að taka afstöðu til þess, en umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um slík álitaefni, sbr. áðurnefndan c-lið sömu málsgreinar.