Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11472/2022)

Kvartað var yfir gjaldtöku Þjóðskrár Íslands fyrir vottorð um forsjá barna sem leggja þurfti fram með umsókn um gerð samnings um skipta búsetu barns. 

Í ljósi þess að viðkomandi hafði skilað inn samningi um skipta búsetu barns og þurfti ekki að framvísa forsjárvottorði að greiddu gjaldi til Þjóðskrár Íslands taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 7. janúar sl. yfir gjaldtöku Þjóðskrár Íslands fyrir vottorð um forsjá barna sem hafi þurft að leggja fram með umsókn um gerð samnings um skipta búsetu barns.

Í símtali yðar við starfsmann minn 14. janúar sl. kom m.a. fram að starfsmaður sýslumannsins á Vesturlandi hafði leiðbeint yður um fullnægjandi væri að láta skjáskot af „mínum síðum“ hjá Þjóðskrá, þar sem forsjárupplýsingar kæmu fram, fylgja með umsókninni. Af því tilefni var sýslumanninum ritað bréf 3. febrúar sl. þar sem þess var óskað að embættið upplýsti hvort fullnægjandi væri að framvísa fyrrgreindu skjáskoti og, ef svo væri, hvort áform væru um að leiðrétta þær upplýsingar um framvísun forsjárvottorðs sem fram kæmu í stöðluðum samningi um skipta búsetu á vefsíðu embættisins. Í tölvubréfi sýslumanns 16. febrúar sl. sagði að áfram yrði óskað eftir vottorðum frá Þjóðskrá í ofangreindum málum, í því skyni að tryggja uppruna upplýsinganna og áreiðanleika þeirra, og framvegis yrði ekki litið á skjáskot af vefsíðu Þjóðskrár sem fullnægjandi gögn. Í símtali starfsmanns míns við yður 9. mars sl. staðfestuð þér að þér hefðu getað sótt um skipta búsetu með því að láta fylgja með umsókninni fyrrgreint skjáskot.

Í ljósi þess að þér hafið skilað inn samningi um skipta búsetu barns og þurftuð ekki að framvísa forsjárvottorði að greiddu gjaldi til Þjóðskrár Íslands tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna málsins og læt athugun minni lokið. Ég tek þó fram að kvörtun yðar og samskipti embættis umboðsmanns við stjórnvald hafa vakið athygli mína á tilteknum álitaefnum sem í kjölfarið verður metið hvort verði tekin til athugunar að eigin frumkvæði á grundvelli 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.

Með vísan til alls framangreinds er umfjöllun minni um kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.