Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11494/2022)

Kvartað var yfir því að Reykjavíkurborg hefði ekki brugðist við margítrekuðu erindi. 

Samkvæmt svörum frá borginni hafði erindinu verið svarað skömmu eftir að það barst. Í kjölfarið hafi verið haldinn fundur með viðkomandi en könnun sem gera átti í framhaldi hans hefði því miður dregist. Niðurstaða í málinu ætti að liggja fyrir innan níu daga. Ekki var því tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 19. janúar sl. yfir því að Reykjavíkurborg hafi ekki brugðist við erindi yðar 11. október 2019 sem ítrekað hafi verið á fundi 25. febrúar 2021 og bréflega 28. júní, 29. september, 7. desember og 22. janúar sl.

Í tilefni af kvörtuninni var Reykjavíkurborg ritað bréf 16. mars sl. og óskað eftir upplýsingum um það hvort erindið hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Í svarbréfi sveitarfélagsins 30. mars sl. kemur fram að velferðarsviði þess hafi borist erindi frá yður 18. október 2020 og því hafi verið svarað 11. nóvember sama ár. Í kjölfarið hafi verið haldinn fundur með yður þar sem sviðsstjóri velferðarsviðs hafi fengið umboð frá yður til að kanna nánar tildrög málsins. Könnun þessi hafi því miður dregist en yður hafi verið tilkynnt að niðurstaða muni liggja fyrir innan níu daga. Bréfinu fylgdi afrit af bréfi Reykjavíkurborgar til yðar 29. mars sl.

Í ljósi þess að kvörtun yðar lýtur að því að Reykjavíkurborg hafi ekki svarað erindi yðar og það hefur nú upplýst um samskipti við yður og tilkynnt verði um niðurstöðu þess innan skamms tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins og læt því athugun minni lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.