Lögreglu- og sakamál.

(Mál nr. 11563/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu og að viðkomandi hefðu ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um ástæður þess að lögreglan hafði afskipti af honum í umrætt sinn.

Í svari frá nefndinni kom fram að upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi hefðu sýnt að við afskipti sín hefði lögreglan upplýst um ástæður sínar. Á vettvangi hafi einnig verið læknir og starfsmaður félagsþjónustunnar. Ekki voru efni til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar að mati umboðsmanns sem lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, sem barst 17. febrúar sl., og verður skilin þannig að kvartað sé yfir ákvörðun nefndar um eftirlit með lögreglu nr. 66/2021 frá 16. ágúst sl. Verður ráðið að athugasemdir yðar lúti m.a. að því að yður hafi ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar um ástæður þess að lögreglan hafi haft afskipti af yður umrætt sinn.

Í tilefni af kvörtun yðar var nefndinni ritað bréf 23. febrúar sl. þar sem óskað var eftir afriti af gögnum málsins. Einnig var óskað eftir því að nefndin upplýsti hvort og þá með hvaða hætti það hefði legið fyrir að lögreglan hefði við afskipti sín af yður umrætt sinn upplýst um ástæður sínar. Mér hefur nú borist bréf nefndarinnar 17. mars sl. þar sem fram kemur að upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi beri það með sér að lögreglan hafi við afskipti sín af yður upplýst um ástæður sínar, en á vettvangi hafi einnig verið læknir og starfsmaður félagsþjónustunnar.

Hlutverk umboðsmann Alþingis er að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í samræmi við það hlutverk beinist eftirlit umboðsmanns fyrst og fremst að því hvort málsmeðferð og ákvörðun stjórnvalds hafi verið í samræmi við lög. Eftir að hafa farið yfir gögn málsins og í ljósi þess hvernig hlutverk nefndar um eftirlit með lögreglu er afmarkað í lögreglulögum nr. 90/1996 tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar.