Gjafsókn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Aðili máls.

(Mál nr. 11578/2022)

Kvartað var yfir gjafsóknarnefnd.

Viðkomandi hafði kvartað áður yfir því sama. Þá voru ekki skilyrði til að taka kvörtunina til meðferðar að mati setts umboðsmanns þar sem viðkomandi átti ekki aðild að því máli um gjafsókn sem kvörtunin laut að. Á því hafði ekki orðið breyting og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. febrúar sl. yfir gjafsóknarnefnd. Í kvörtuninni er vísað til bréfs setts umboðsmanns Alþingis til yðar 22. janúar 2021 í máli nr. 10895/2021 en þar kom m.a. fram að ekki væru skilyrði að lögum til að umboðsmaður tæki kvörtun yðar til meðferðar þar sem þér hefðuð ekki átt aðild að því máli um gjafsókn sem kvörtunin laut að. Með vísan til þess sem kom fram í umræddu bréfi eru ekki enn uppfyllt skilyrði til þess að erindi yðar verði tekið til frekari meðferðar sem kvörtun.

Að því marki sem í erindi yðar felast almennar athugasemdir um fyrirkomulag gjafsóknarmála hér á landi er athygli yðar vakin á því að það er ekki hlutverk umboðsmanns að láta í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hann þó að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Þar er einnig kveðið á um að hann geti jafnframt tekið starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds til almennrar athugunar. Með hliðsjón af erindi yðar nú sem og því sem kom fram í fyrri kvörtun yðar tel ég ekki tilefni til að taka þau atriði sem þér fjallið um til nánari athugunar á þessum grundvelli.

Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.