Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11579/2022)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um álagningu stöðubrotagjalds. 

Af gögnum málsins varð ekki annað ráðið en óumdeilt væri að viðkomandi hefði lagt ökutæki sínu ólöglega í umrætt sinn og því ekki efni til að gera athugasemdir við niðurstöðu sjóðsins. Hvað snerti athugasemdir um skort á bílastæðum varðaði það ekki beinlínis hagsmuni eða réttindi þess er kvartaði umfram aðra og því ekki tilefni til að aðhafast af þeim sökum.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 28. febrúar sl. yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 22. þess mánaðar um álagningu stöðubrota­gjalds fyrir brot gegn c-lið 1. mgr. 109. gr. umferðarlaga nr. 77/2019.

Í ákvæðinu segir að leggja megi gjald á vegna brota á banni við stöðvun eða lagningu ökutækis sem gefið er til kynna með umferðarmerki. Af kvörtun yðar og gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að óumdeilt sé að þér hafið lagt ökutæki yðar ólöglega umrætt sinn. Að þessu virtu tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við þá ákvörðun sem kvörtun yðar beinist að. 

Jafnframt gerið þér athugasemdir við skort á bílastæðum fyrir utan hótel í Reykjavíkurborg. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, segir að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum, sem falla undir tilgreind ákvæði laganna, geti kvartað að því tilefni til umboðsmanns. Í ákvæðinu felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákveðin ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Ekki hefur verið sýnt fram á að athugasemdir yðar um bílastæðamál í sveitarfélaginu varði hagsmuni yðar eða réttindi með beinum hætti umfram aðra í þessum skilningi. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.