Skaðabætur.

(Mál nr. 11581/2022)

Kvartað var yfir því að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hefði synjað kröfu um greiðslu skaðabóta vegna ágreiningsmáls sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leiddi til lykta.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð heilbrigðiseftirlitsins hefði verið í ósamræmi við ákvæði stjórnsýslulaga. Þar sem æðra stjórnvald hafði fallist á athugasemdir viðkomandi var ekki tilefni til að aðhafast frekar. Hvað skaðabótakröfu snerti benti umboðsmaður viðkomandi á að það væri verkefni dómstóla að fjalla um slíkt.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 31. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til erindis yðar 1. mars sl. sem verður skilið þannig að kvartað sé yfir því að Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja hafi synjað kröfu yðar um að fá greiddar skaðabætur sem nema útlögðum kostnaði yðar vegna þess ágreiningsmáls sem var leitt til lykta með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 5. mars 2020 í máli nr. 121/2018. Með þeim úrskurði felldi nefndin úr gildi ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins 8. ágúst 2018 um að fjarlægja númerslausa bifreið yðar við hlið tilgreinds einbýlishúss. Verður ráðið að það sé afstaða yðar að með téðri ákvörðun hafi heilbrigðiseftirlitið bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart yður. Óskið þér eftir því að umboðsmaður Alþingis fjalli um það hvort starfsmenn heilbrigðiseftirlitsins hafi brotið í bága við stjórnsýslulög nr. 37/1993 þannig að það beri ábyrgð á tjóni yðar.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. mgr. 6. gr. sömu laga kemur fram að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Verður kvörtun þá að berast innan árs frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp. Í b-lið 2. mgr. 10. gr. laganna er kveðið á um það að umboðsmaður geti látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða tilgreindum siða­reglum. Sæti athafnir stjórnvalds aðfinnslum eða gagnrýni umboðsmanns geti hann jafnframt beint tilmælum til stjórnvalds um úrbætur. Þá er mælt fyrir um það í c-lið sömu málsgreinar að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt sé að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það. Á grunni síðastnefnds stafliðar hefur almennt verið litið svo á að það verði að vera verkefni dómstóla fremur en umboðsmanns að fjalla um álitaefni um skaða­bóta­skyldu hins opinbera, enda eru þar iðulega uppi álitaefni sem krefjast sönnunarfærslu sem dómstólar eru betur í stakk búnir til að leysa úr.

Svo sem fyrr greinir liggur fyrir að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur þegar komist að þeirri niðurstöðu að málsmeðferð Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafi verið í ósamræmi við tilgreind ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar athafnir stjórnvalda eru kæranlegar til annars stjórnvalds sem úrskurðar um lögmæti þeirra leiðir af fyrrgreindri 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 að athugun umboðs­manns á máli í tilefni af kvörtun lýtur einkum að úrskurði æðra stjórnvaldsins og þá hvort það hafi leyst réttilega úr málinu, þar með talið í ljósi þeirra athugasemda sem hafa verið gerðar við meðferð málsins á lægri stigum stjórnsýslunnar. Af framangreindu leiðir einnig að hafi æðra stjórnvald fallist á athugasemdir málsaðila um stjórnsýslu lægra setta stjórnvaldsins er að jafnaði ekki tilefni fyrir umboðsmann Alþingis að taka stjórnsýslu lægra setta stjórn­valdsins til sérstakrar athugunar. Með vísan til þess sem greinir að framan verður því ekki frekar fjallað um athugasemdir yðar við stjórnsýslu heilbrigðis­eftirlitsins. Eftir stendur krafa yðar um skaðabætur, en með vísan til þess sem fyrr greinir um c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 verður það að vera verkefni dómstóla að fjalla um hana. Með þessari ábendingu hefur þó engin afstaða verið tekin til þess hvort slíkt málssókn væri líkleg til árangurs.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég hér með umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.