Opinberir starfsmenn. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar. Aðild.

(Mál nr. 11601/2022)

Kvartað var yfir stjórnsýslu Matvælastofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, nú matvælaráðuneytisins, í tengslum við aðkomu viðkomandi sem héraðsdýralæknis að sótthreinsun útihúsi á tilgreindum bæ í kjölfar niðurskurðar vegna riðu. 

Stjórnvöld geta ekki kvartað við umboðsmann yfir ákvörðunum og athöfnum annarra stjórnvalda eða óskað lögfræðiálits umboðsmanns í máli og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallið um þann þátt kvörtunarinnar. Þá varð ekki annað séð en formlegt tiltal rúmaðist innan stjórnunarheimilda forstjóra Matvælstofnunar og því ekki tilefni til að fjalla heldur um það.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. mars 2022, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 15. mars sl. yfir stjórnsýslu Matvælastofnunar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, nú matvælaráðuneytisins, í tengslum við aðkomu yðar sem héraðsdýralæknis að sótthreinsun útihúsa á tilgreindum bæ í kjölfar niðurskurðar vegna riðu. Samkvæmt kvörtuninni lúta athugasemdir yðar annars vegar að ýmsum atriðum sem snerta samskipti yðar við aðra starfsmenn fyrrgreindra stjórnvalda vegna rækslu téðs verkefnis og hins vegar að athöfnum forstjóra Matvælastofnunar gagnvart yður á starfsmannaréttarlegum grundvelli.

Í tilefni af athugasemdum yðar sem lúta að samskiptum yðar við aðra starfsmenn stjórnvaldanna tel ég rétt að víkja að hlutverki umboðsmanns Alþingis. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt „borgaranna“ gagnvart stjórnvöldum landsins. Þá er kveðið á um það í 2. mgr. 4. gr. sömu laga að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir tilgreind ákvæði laganna, geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í athugasemdum við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 85/1997 kemur fram að stjórnvöld geti ekki kvartað við umboðsmann yfir ákvörðunum og athöfnun annarra stjórnvalda eða óskað lögfræðilegs álits umboðsmanns á máli (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329).

Af framangreindu leiðir að almennt er ekki gert ráð fyrir að stjórnvöld, eða einstakir starfsmenn innan stjórnsýslunnar, geti leitað beint til umboðsmanns þegar um er að ræða ágreining innan eða milli stjórnvalda um innri málefni þeirra. Þar sem ekki verður annað ráðið af kvörtun yðar en að sá hluti hennar sem lýtur að samskiptum yðar við aðra starfsmenn stjórnvalda sé til kominn vegna starfa yðar sem héraðsdýralæknis og lúti einkum að þeim opinberu hagsmunum sem tengjast starfinu eru ekki lagaskilyrði til þess að ég fjalli frekar um kvörtun yðar að þessu leyti, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997. 

Um athugasemdir yðar við athafnir forstjóra Matvælastofnunar gagnvart yður er m.a. upplýst í kvörtun yðar að í tilefni upplýsinga um að til hafi staðið að veita yður formlegt tiltal hafið þér óskað eftir að láta af störfum og séuð ekki lengur starfsmaður stofnunarinnar. Í gögnum sem fylgdu kvörtuninni kemur fram að með formlegu tiltali hafi forstjóri Matvælvælastofnunar ekki átt við áminningu í skilningi 21. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Slíkt samtal, þótt kallað sé formlegt tiltal, telst ekki vera stjórnvaldsákvörðun. Þar sem fyrirliggjandi gögn gefa ekki annað til kynna en að slíkt samtal hefði rúmast innan stjórnunarheimilda forstjóra tel ég að öðru leyti ekki nægilegt tilefni til að taka þennan þátt málsins til nánari athugunar.   

Með vísan til þess sem að framan greinir og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið.