Félög. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 11623/2022)

Kvartað var yfir því að dómsmálaráðherra hefði lagt fram frumvarp til laga þar sem lagt væri til að ekki yrði lengur kveðið á um Bálfarafélag Íslands í lögum. 

Starfssvið umboðsmanns tekur hvorki til lagasetningar Alþingis né lagafrumvarpa og því ekki skilyrði til að hann fjallaði um kvörtunarefnið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. mars 2022, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 24. mars sl. yfir því að dómsmálaráðherra hafi lagt fram frumvarp til laga þar sem lagt er til að ekki verði lengur kveðið á um Bálfarafélag Íslands í lögum.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í samræmi við þetta hlutverk er kveðið á um það í 3. gr. sömu laga að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt a-lið 4. mgr. sömu greinar tekur starfssviðið að jafnaði ekki til starfa Alþingis og stofnana þess.

Ástæða þess að framangreint er rakið er að það leiðir af stjórnarskrá og þeim hefðum sem fylgt hefur verið hér á landi að verkefni ráðherra er annars vegar að móta stefnu og leggja fram tillögur um hvernig bregðast skuli við þeim aðstæðum sem upp koma í þjóðfélaginu. Hins vegar fara þeir með framkvæmdarvald og koma þannig fram sem æðstu handhafar stjórnsýslu þeirra ráðuneyta sem þeir fara með. Í samræmi við fyrrgreind lagaákvæði um starfssvið umboðsmanns Alþingis fellur það almennt utan við hlutverk hans að lögum að taka afstöðu til athafna ráðherra sem einungis verða taldar liður í stjórnmálastarfi hans eða störfum á Alþingi. Af framangreindum sjónarmiðum leiðir að það fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um lagafrumvörp ráðherra og brestur því lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.