Opinberir starfsmenn. Tjáningarfrelsi.

(Mál nr. 11466/2022)

A, kennari við framhaldsskólann X, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því hvernig skólameistari brást við bloggskrifum hans um nafngreindan mann. Byggðist kvörtunin á því að skólameistarinn hefði með ólögmætum hætti skipt sér af þátttöku hans í opinberri umræðu og vegið þannig að starfsheiðri hans og stjórnarskrárvörðum rétti til tjáningarfrelsis. Hefði skólameistari lýst óánægju með skrifin á fundi með A, fjallað um þau í tölvubréfi til starfsmanna, nemenda og foreldra og enn fremur hefði í framhaldinu dregið verulega úr þeirri yfirvinnu sem A hefði verið úthlutað.

Umboðsmaður gerði grein fyrir að þótt forstöðumanni opinberrar stofnunar væri óheimilt að takmarka tjáningarfrelsi starfsmanna og þátttöku þeirra í samfélagsumræðu leiddi engu af síður af stöðu hans og stjórnunarrétti samkvæmt lögum að honum væri heimilt, að gættum málefnalegum sjónarmiðum og meðalhófi, að bregðast við ummælum starfsmanns ef þau hefðu þýðingu fyrir starfsemi viðkomandi stofnunar. Í þessu sambandi yrði að hafa í huga að meðal skyldna skólameistara væri að gæta þess á hverjum tíma að skólastarfið væri í samræmi við lög og reglugerðir, og bæri honum sem öðrum aðilum skólasamfélagsins að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Sér í lagi væri til þess ætlast að í framhaldsskólum væri fjallað um mál sem kynnu að hafa áhrif á skólabrag, þ.m.t. mál sem kæmu upp utan skólatíma og í rafrænum samskiptum. Með fyrrgreindu tölvubréfi hefði skólameistari brugðist við máli sem umtalað var í skólasamfélaginu og hann taldi að kynni að hafa þýðingu fyrir þau gildi sem skólinn stæði fyrir. Yrði ekki annað ráðið en að sú afstaða, sem skólameistari tjáði í tölvubréfinu, m.a. með vísan til fjölbreytileika nemendahópsins svo og virðingar og stuðnings við nemendur, hafi verið í samræmi við skyldur hans. Þá hefði skólameistari ekki veitt A formlega áminningu í starfi eða bannað honum framvegis að tjá sig að viðlögðum slíkum afleiðingum.

Niðurstaða umboðsmanns var að að skólameistari hefði ekki farið út fyrir heimildir sínar og að ekkert lægi fyrir um að ákvörðun um yfirvinnu tengdist bloggskrifum A.  

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 26. apríl 2022. 

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 4. janúar sl. yfir því hvernig skóla­meistari framhaldsskólans X brást við bloggskrifum yðar í október sl. um nafngreindan mann, en þér eruð meðal kennara við skólann. Kvörtunin byggist á því að skólameistarinn hafi með ólögmætum hætti skipt sér af þátttöku yðar í opinberri umræðu og þannig vegið að starfs­heiðri yðar og stjórnarskrárvörðum rétti til tjáningarfrelsis. Um það vísið þér til þess að í tilefni af skrifum yðar hafi skólameistari lýst yfir óánægju með þau á fundi með yður og ritað starfsmönnum, nemendum og foreldrum þeirra tölvubréf þar sem hann hafi fjallað um skrifin, auk þess sem yður hafi ekki staðið til boða jafnmikil yfirvinna og áður í kjölfar framan­greindra samskipta.

Með bréfi til skólans 17. janúar sl. var óskað eftir öllum gögnum málsins og afstöðu til kvörtunarinnar. Umbeðin gögn og skýringar bárust með bréfi skólameistara 3. febrúar sl. og athugasemdir yðar við svörin bárust með bréfi 14. sama mánaðar.

  

II

Í tölvubréfi skólameistara framhaldsskólans X til starfsmanna, nemenda og aðstandenda þeirra 27. október sl. var vísað til þess að honum hefði borist mikill fjöldi athugasemda vegna skrifa yðar um nafngreindan mann og fram hefðu komið kröfur um aðgerðir vegna þeirra. Þá kom fram í svarbréfi skólameistara til umboðsmanns 3. febrúar sl. að skrifin hefðu vakið mikla athygli og skaðað það traust sem nemendur ættu tilkall til að bera til skólans og kennara hans.

Í tölvubréfinu kvaðst skólameistari enn fremur skilja skrif yðar svo að framganga hins nafngreinda manns á starfsvettvangi hans væri ómarktæk vegna þess að hann glímdi við geðsjúkdóm. Af því mætti væntanlega draga þá ályktun að fólk sem glímdi við slíka sjúkdóma ætti lítið erindi í opinbera umræðu. Þessu væri skólameistari algerlega ósammála og teldi ummælin afar óheppileg fyrir framhaldsskólakennara og hefði hann gert yður grein fyrir þeirri afstöðu. Þá kom fram að þótt settar væru fram athugasemdir vegna umræddra skrifa yrði ekki hróflað við stöðu yðar við skólann. Undir lok tölvubréfsins vísaði skólameistari til þess að í skólanum væri fjölbreyttur hópur nemenda, þannig vildi skólinn hafa það og honum bæri að sýna nemendum hans virðingu og styðja á leiðinni til frekari þroska.

Af framangreindu verður ráðið að tilefni tölvubréfsins 27. október sl. hafi verið tvíþætt, þ.e. annars vegar að upplýsa viðtakendur um að skólameistari myndi ekki grípa til viðurlaga gagnvart yður vegna téðra blogg­skrifa og hins vegar að lýsa afstöðu til þess viðhorfs gagnvart geðsjúkum sem hann taldi að lesa mætti úr skrifunum svo og upplýsa að málið hefði verið rætt við yður. Tók skólameistari sérstaklega fram í bréfinu að tjáningarfrelsið væri mikilvægt og það væri hornsteinn lýðræðislegrar umræðu að unnt væri að tjá sig án þess að þurfa að hafa áhyggjur af atvinnu sinni í kjölfarið.

  

III

Opinberir starfsmenn njóta verndar tjáningarfrelsisákvæða 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. samnefnd lög nr. 62/1994. Meginreglan er því sú að opinberir starfsmenn eiga rétt á að láta í ljós hugsanir sínar og skoðanir, þ.m.t. þær er lúta að mati á atriðum er tengjast starfi þeirra, án afskipta stjórnvalda, og takmarkanir á þeim rétti má eingöngu gera að uppfylltum þeim skilyrðum sem fram koma í 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 2. mgr. 10. gr. mannréttindasáttmálans, sbr. einnig 41. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Slíkar takmarkanir verða þannig að byggjast á lögum, stefna að lögmætum markmiðum og mega ekki ganga lengra en nauðsyn krefur.

Þótt almennt sé forstöðumanni opinberrar stofnunar óheimilt að takmarka tjáningarfrelsi starfsmanna og þátttöku þeirra í samfélags­umræðu leiðir engu af síður af stöðu hans og stjórnunarrétti samkvæmt lögum að honum er heimilt, að gættum málefnalegum sjónarmiðum og meðalhófi, að bregðast við ummælum starfsmanns ef þau hafa þýðingu fyrir starfsemi viðkomandi stofnunar. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að meðal skyldna skólameistara er að gæta þess á hverjum tíma að skólastarfið sé í samræmi við lög og reglugerðir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, og samkvæmt 1. mgr. 33. gr. b sömu laga ber honum sem öðrum aðilum skólasamfélagsins að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 326/2016, um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í framhaldsskólum, að í framhalds­skólum skuli fjalla um mál sem kunna að hafa áhrif á skólabrag, þ.m.t. mál sem koma upp utan skólatíma og í rafrænum samskiptum.

Með fyrrgreindu tölvubréfi brást skólameistari við máli sem umtalað var í skólasamfélaginu og hann taldi að kynni að hafa þýðingu fyrir þau gildi sem skólinn stæði fyrir. Verður ekki annað ráðið en að sú afstaða, sem skólameistari tjáði í tölvubréfinu, m.a. með vísan til fjölbreytileika nemendahópsins svo og virðingar og stuðnings við nemendur, hafi verið í samræmi við skyldur hans samkvæmt áðurlýstum ákvæðum laga og reglugerðar. Þá verður að horfa til þess að í téðum viðbrögðum skólameistara fólst einungis tjáning hans, sem forstöðumanns skólans, til ákveðinna málefna án þess að yður væri veitt formleg áminning í starfi eða bannað framvegis að tjá yður að viðlögðum slíkum afleiðingum. Að þessu virtu tel ég ekki efni til að líta svo á að skólameistari hafi farið út fyrir heimildir sínar með áðurlýstum viðbrögðum þannig að tjáningarfrelsi yðar væri takmarkað með ólögmætum hætti.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla sérstaklega um athuga­semdir yðar við það hvernig kennsluyfirvinnu var skipt í kjölfar framan­greindra atvika, enda liggur ekkert fyrir um að ákvörðun um hana hafi tengsl við umrædd bloggskrif yðar.

  

IV

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og a- og b-liða 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég málinu hér með lokið.