Félög. Fyrirtækjaskrá. Skráning firmanafns. Rökstuðningur.

(Mál nr. 10675/2020)

Landssamband æskulýðsfélaga leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Með úrskurðinum var m.a. staðfest ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra um að synja beiðni félagsins um skráningu tilkynningar um breytingu á nafni þess í Landssamband ungmennafélaga. Í úrskurði ráðuneytisins var byggt á því að breytingin væri til þess fallin að valda ruglingshættu milli félagsins og Ungmennafélags Íslands. Síðarnefnda félaginu væri falið tiltekið hlutverk samkvæmt íþróttalögum og gert væri ráð fyrir því að það væri landssamband ungmennafélaga á landinu. Kvörtunin byggðist einkum á því fyrirtækjaskrá hefði farið út fyrir heimildir sínar að lögum með synjuninni og að nöfnin „Landssamband ungmennafélaga“ og „Ungmennafélag Íslands“ væru nægilega aðgreind hvort frá öðru í skilningi laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga um hlutverk fyrirtækjaskrár og skráningu firmaheita. Hann benti á að í lögum væri gert ráð fyrir því að hægt væri að fá samnefnt firma skráð svo framarlega sem glögglega væri greint á milli þess og eldra firmaheitis með viðauka eða öðrum hætti. Við mat á því hvort synja bæri um skráningu firmaheitis með vísan til laganna yrði fyrst og fremst að líta til firmaheitanna sjálfra og meta líkindi þeirra út frá heitunum sem slíkum. Hann benti jafnframt á að í ákvörðun fyrirtækjaskrár um skráningu firma fælist almennt ekki úrlausn stjórnvalds um lagalegan rétt hlutaðeigandi til að nota tiltekið heiti í atvinnuskyni.

Umboðsmaður benti á að heitin Landssamband ungmennafélaga og Ungmennafélag Íslands væru ekki þau sömu og að ekki yrði séð að þau, ein og sér, væru þess eðlis að ekki væri hægt að greina þau glöggt hvort frá öðru. Með vísan til lagaskilyrða fyrir skráningu firma og hlutverks fyrirtækjaskrár í því sambandi komst hann að þeirri niðurstöðu að úrskurður ráðuneytisins hefði ekki verið í samræmi við lög. Þá taldi hann óhjákvæmilegt að líta svo á að rökstuðningur ráðuneytisins hefði ekki verið fyllilega í samræmi við reglur stjórnsýslulaga þar um, m.a. þar sem fjallað hefði verið um fjölda lagaákvæða og sjónarmiða í úrskurðinum án þess að ætíð væri fyllilega skýrt hvaða þýðingu þau hefðu fyrir niðurstöðu málsins. 

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka mál Landssambands æskulýðsfélaga aftur til meðferðar, kæmi fram beiðni þess efnis frá félaginu, og að úr því yrði leyst í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt að ráðuneytið myndi framvegis taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 5. maí 2022.

   

  

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 20. ágúst 2020 leitaði A, f.h. Landssambands æskulýðsfélaga, til umboðsmanns Alþingis með kvörtun vegna úrskurðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 25. september 2019. Þar staðfesti ráðuneytið þá ákvörðun fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra að synja beiðni félagsins um skráningu tilkynninga um breytingu á heiti félagsins og stjórn þess.

Í úrskurði ráðuneytisins var annars vegar talið að breyting á nafni félagsins í Landssamband ungmennafélaga væri til þess fallin að valda ruglingshættu milli þess og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). Hins vegar var breytingu á stjórn félagsins synjað á þeim grundvelli að á meðal stjórnarmanna væri maður sem væri ólögráða sökum aldurs.

Kvörtunin byggðist m.a. á því að ekki væru til lagareglur sem kvæðu á um aldur stjórnarmanna almennra félaga að íslenskum rétti og því ættu samþykktir félaga að gilda um kjör stjórnarmanna. Fyrirtækjaskrá hefði auk þess farið út fyrir heimildir sínar að lögum þegar hún synjaði um að skrá breytingu á nafni félagsins. Ótvírætt væri að nöfnin „Landssamband ungmennafélaga“ og „Ungmennafélag Íslands“ væru aðgreind hvort frá öðru í skilningi laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð.

Athugun umboðsmanns laut í upphafi að báðum fyrrgreindum atriðum. Eftir að kvörtunin barst tóku lög nr. 110/2021, um félög til almannaheilla, gildi þar sem kveðið er á um að stjórnarmenn og framkvæmdastjórar slíkra félaga skuli vera lögráða. Af því leiðir að ekki eru efni til að fjalla nánar um téða synjun á breytingu á stjórn félagsins. Málið hefur hins vegar orðið mér tilefni til að fjalla um staðfestingu ráðuneytisins á synjun fyrirtækjaskrár á skráningu tilkynningar um breytingu á nafni félagsins.

  

II Málavextir

Landssamband æskulýðsfélaga tilkynnti fyrirtækjaskrá með bréfi, dags. 8. mars 2017, um breytingu á heiti félagsins. Félagið óskaði eftir því að vera skráð undir heitinu Landssamband ungmennafélaga.

Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) sendi fyrirtækjaskrá bréf 4. apríl 2017. Þar var athygli vakin á því að Ungmennafélag Íslands væri skráð í fyrirtækjaskrá. Um væri að ræða landssamband ungmennafélaga, sbr. 1. gr. samþykkta félagsins. Skráning nafnsins Landssamband ungmennafélaga myndi því brjóta gegn betri rétti félagsins til nafnsins. Af nafnabreytingu Landssambands æskulýðsfélaga stafaði talsverð ruglingshætta sem bryti í bága við landslög og réttindi UMFÍ. Félagið hefði óskað skráningar á vörumerkjunum „Landssamband ungmennafélaga“ og „Landssamtök ungmennafélaga“ hjá Einkaleyfastofu.

Af þessu tilefni ritaði Landssamband æskulýðsfélaga fyrirtækjaskrá bréf 9. mars 2018 þar sem m.a. kom fram að félagið teldi sig eiga fullan rétt á breytingunni. Í samþykktum félagsins kæmi fram að nafn þess væri Landssamband ungmennafélaga. Heiti UMFÍ væri Ungmennafélag Íslands samkvæmt samþykktum þess og skráningu í fyrirtækjaskrá. Félagið benti jafnframt á að það teldi skráningu heitisins Landssamband ungmennafélaga ekki skapa ruglingshættu. Tilgangur, markmið og starfsemi félaganna væru ólík sem og markaðsfesta þeirra þar sem þau kæmu bæði fram undir skammstöfunum. Frá því að nafninu hefði verið breytt hefði félaginu aldrei verið ruglað við UMFÍ. Breytingin væri í sjálfu sér minniháttar og endurspeglaði hvernig ungt fólk skilgreindi sig og félög sín. Þá var bent á að umsókn UMFÍ hjá Einkaleyfastofu hefði verið synjað.

Fyrirtækjaskrá synjaði um skráningu umræddrar tilkynningar um breytingu á heiti Landssambands æskulýðsfélaga 16. mars 2018 á þeim grundvelli að breytingin bryti gegn betri rétti Ungmennafélags Íslands. Í ákvörðun fyrirtækjaskrár kemur eftirfarandi m.a. fram um lagagrundvöll málsins: 

„Þegar firma er valið nafn ber fyrst og fremst að fara eftir ákvæðum laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903 (firmalög), en jafnframt er höfð hliðsjón af lögum um vörumerki nr. 45/1997, sérstaklega 4. gr. laganna, sbr. og 15. gr. a. laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.“

[...]

Við úrlausn á því hvað teljist heiti annars manns sem ekki má nota án hans leyfis, er meginreglan sú að teljist heitið vera almennt, eins og t.d. síld, fiskur, steinn, nes, kaffi, bíll, verktaki, sól eða ís, þá er ekki unnt að banna öðrum notkun orðsins eða heitisins, svo fremi sem hann aðgreini sitt firmaheiti frá því sem þegar kann að vera til skráð með því heiti. Með almennu orði, er eins og áður hefur komið fram, litið til íslensku orðabókarinnar sem og gagnagrunnsins www.snara.is.“

Því næst er í ákvörðuninni litið til samþykkta UMFÍ og fjallað um orðið „ungmennafélag“:

„Í máli þessu er deilt um það hvort heiti það sem tilkynnt var um á félaginu, Landssamband ungmennafélaga, brjóti gegn betri rétti félagsins UMFÍ til heitisins. Í 1. gr. samþykkta UMFÍ segir; „Landssamband ungmennafélaga á Íslandi heitir Ungmennafélag Íslands, skammstafað UMFÍ.“ Samkvæmt tilvitnuðum texta er því ljóst að UMFÍ er landssamband ungmennafélaga á Íslandi og starfar sem slíkt. Við úrlausn á máli þessu þarf að líta til skýringar orðsins ungmennafélags. Samkvæmt hinni Íslensku orðabók er skýring orðsins ungmennafélag eftirfarandi; „sérstök tegund félagsskapar sem breiddist mest út meðal ungs fólks í sveitum á Íslandi á fyrsta fjórðungi 20. aldar og stefndi að alhliða vakningu og hollustu (með aukinni þjóðerniskennd, skógrækt, íþróttum o.s.frv.).“ Að mati fyrirtækjaskrár verður skilgreiningu hinnar Íslensku orðabókar ekki vikið til hliðar með vísun til huglægrar túlkunar ungs fólks á hugtakinu. Hin Íslenska orðabók telst vera hlutlæg heimild er varðar merkingu orða í íslenskri tungu. Þau rök að einungis hluti landsmanna, ungt fólk, túlki hugtakið „ungmennafélag“ á annan hátt en skilgreint er í hinni íslensku orðabók eru ekki fullnægjandi til þess að víkja frá þeim hlutlæga mælikvarða er finna má í hinni Íslensku [orðabók]. Að mati fyrirtækjaskrár verður einungis eitt landssamband ungmennafélaga rekið hverju sinni. Verði annað félag skráð undir heitinu Landssamband ungmennafélaga eru því töluverðar líkur á að ruglingshætta skapist.

Það er því mat fyrirtækjaskrár að skráning heitisins Landssamband ungmennafélag myndi brjóta gegn betri rétti UMFÍ til heitisins. Fyrirtækjaskrá synjar því um skráningu á tilkynningu um breytingu á nafni félagsins er barst hinn 10. mars 2017.“

Ákvörðun fyrirtækjaskrár var kærð til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 14. júní 2018. Í kærunni kom m.a. fram að félagið teldi fyrirtækjaskrá hafa farið út fyrir valdsvið sitt. Athugasemdum UMFÍ hefði verið gefið mikið vægi þó svo að nöfn félaganna væru ekki þau sömu og því ekki um skráningu á sama firmaheiti að ræða. Landssamband æskulýðsfélaga hefði bent á að Einkaleyfastofa hefði hafnað umsókn UMFÍ um einkaleyfi á heitinu Landssamband ungmennafélaga. Nafnið gæti því ekki talist nafn UMFÍ sem kærandi mætti ekki nota. Fyrirtækjaskrá hefði vísað til þess í ákvörðun sinni að ekki væri hægt að banna öðrum notkun almennra heita, en við skilgreiningu á almennum heitum væri stuðst við orðabók. Í kjölfarið hefði fyrirtækjaskrá komist að þeirri niðurstöðu að orðið „ungmennafélag“ fyndist í orðabók en þrátt fyrir það teldi fyrirtækjaskrá orðið ekki almennt og UFMÍ ætti betri rétt til þess að nota orðið í nafni sínu. Kærandi teldi að ekki væri um ruglingshættu að ræða enda nöfnin ekki þau sömu. Þar að auki væri orðið ungmennafélag almennt og því ekki hægt að banna notkun þess líkt og fyrirtækjaskrá hefði byggt á í rökstuðningi sínum.

Það athugast að við meðferð málsins hjá fyrirtækjaskrá lá fyrir að UMFÍ hafði verið synjað um skráningu vörumerkisins „Landssamband ungmennafélaga“ með ákvörðun Hugverkastofu 18. maí 2017. Sú ákvörðun var síðar staðfest með úrskurði áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar frá 6. júlí 2021 í máli nr. 4/2019.

Ráðuneytið staðfesti ákvörðun fyrirtækjaskrár með úrskurði 25. september 2019. Í niðurstöðu ráðuneytisins er hlutverk fyrirtækjaskrár samkvæmt lögum nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, rakið og komist að þeirri niðurstöðu að ráðuneytið gæti ekki fallist á það með kæranda að það félli utan verksviðs fyrirtækjaskrár að taka ákvörðun um heiti félags, hvort sem um væri að ræða félag í atvinnurekstri eða félagasamtök. Þá sagði eftirfarandi í úrskurðinum:

„Þegar ráðuneytið úrskurðar um heiti félaga er almennt litið til laga um verslanaskrá, firmu og prókúruumboð, nr. 42/1903, laga um vörumerki, nr. 45/1997, og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005. Litið er til þess hvort heiti félags innihaldi orð sem telst almennt orð og hvort heitið sé nægjanlega aðgreint frá heitum annarra félaga svo ekki skapist ruglingshætta.“

Í úrskurðinum voru því næst ákvæði 8. og 10. gr. firmalaga reifuð sem og 3. og 4. gr. vörumerkjalaga, 15. gr. a. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og 1. mgr. 5. gr. svo og 6. gr. íþróttalaga nr. 64/1998. Þá sagði í úrskurðinum:

„Þannig er í íþróttalögum gert ráð fyrir starfsemi UMFÍ og kveðið á um hlutverk félagsins í skiptingu landsins í íþróttahéruð. Félagsaðild að UMFÍ eiga ungmennafélög landsins annað hvort beint eða í gegnum héraðssambönd. Þannig verður að telja ljóst að UMFÍ sé landssamband ungmennafélaga á landinu og að gert sé ráð fyrir því hlutverki félagsins í íþróttalögum.“

Að lokum kom eftirfarandi fram í niðurstöðu ráðuneytisins:

„Í Íslenskri orðabók Eddu útgefin 2007 og í vefbókasafni Snöru á vefnum snara.is segir að orðið ungmennafélag merki sérstök tegund félagsskapar sem breiddist mest út meðal ungs fólks í sveitum á Íslandi á fyrsta fjórðungi 20. aldar og stefndi að alhliða vakningu og hollustu (með aukinni þjóðerniskennd, skógrækt, íþróttum o.s.frv.). Skv. sömu heimildum merkir orðið ungmennasamband samband ungmennafélaga í tilteknu héraði.

Þrátt fyrir að ungmennafélag sé almennt heiti þá telur ráðuneytið að ruglingshætta sé fyrir hendi milli heitanna Ungmennafélag Íslands og Landssambands ungmennafélaga. Í þessu sambandi verður ekki hjá því litið að UMFÍ er í íþróttalögum falið ákveðið hlutverk og gert ráð fyrir því að félagið sé landssamband ungmennafélaga.

Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða ráðuneytisins í málinu að staðfesta ákvörðun fyrirtækjaskrár um að synja beri skráningu tilkynningar um breytingu á heiti Landssambands æskulýðsfélaga í Landssamband ungmennafélaga.“

  

III Samskipti umboðsmanns og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra var ritað bréf 4. nóvember 2020 þar sem m.a. var óskað eftir afstöðu ráðuneytisins til kvörtunarinnar. Jafnframt var óskað eftir því að umboðsmaður yrði upplýstur um hvort ráðuneytið hefði kannað hvort ákvörðun Einkaleyfastofu um synjun umsóknar UMFÍ um skráningu á vörumerkinu „Landssamband ungmennafélaga“ hefði legið fyrir og þá hvaða þýðingu það hefði haft fyrir niðurstöðu málsins. Hefði það ekki verið gert var þess óskað að ráðuneytið gerði grein fyrir því hvernig sú afstaða samrýmdist 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í svarbréfi ráðuneytisins 25. janúar 2021 sagði eftirfarandi í tilefni af fyrirspurn umboðsmanns:

„Eins og fram kemur í úrskurði ráðuneytisins þá benti kærandi á að Hugverkastofan hafi hafnað umsókn UMFÍ um skráningu á heitinu „Landssamband ungmennafélaga“ sem vörumerki. Ráðuneytinu var því kunnugt um að ákvörðun Hugverkastofu þegar úrskurðað var í málinu og að um væri að ræða ákvörðun á grundvelli laga um vörumerki.

[...]

Ákvarðanir Hugverkastofu um skráningu vörumerkja byggja á ákvæðum laga um vörumerki nr. 45/1997, og miðaðist mat stofnunarinnar á skráningarhæfi umrædds heitis „Landssamband ungmennafélaga“ við þáverandi ákvæði 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. um skort á sérkenni (núverandi ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 13. gr. vörumerkjalaga). Þá voru ekki lögð fram gögn um notkun á merkinu sem sýnt hefðu getað fram á að merkið hafi öðlast sérkenni með notkun. Því var umsókn hafnað á þeim grundvelli að merkið skorti sérkenni í tengslum við þá vöru og þjónustu sem það óskast skráð fyrir. Þetta lá fyrir þegar ráðuneytið úrskurðaði í málinu. Ákvörðun Hugverkastofu um synjun hefur hins vegar verið vísað til áfrýjunarnefndar hugverkaréttinda á sviði iðnaðar þar sem beðið er niðurstöðu.“

Í bréfinu var því næst fjallað um samspil firmalaga, vörumerkjalaga og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu við skráningu firmaheita í fyrirtækjaskrá með eftirfarandi hætti:

„Þegar ráðuneytið úrskurðar um skráningu á heiti félaga í fyrirtækjaskrá er fyrst og fremst horf[t] til laga um verslunarskrá, firmu og prókúruumboð nr. 42/1903 (firmalögum). Ráðuneytið horfir einnig til laga um vörumerki, nr. 45/1997, og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, í úrskurðum sínum. Þrátt fyrir að gildissvið framangreindra laga taki til félaga í atvinnurekstri verður að telja að sambærileg sjónarmið eigi við um önnur félög og skráningu á heiti þeirra. Þá horfir ráðuneytið enn fremur til þess hvort heiti félags innihaldi orð sem telst almennt orð og hvort heitið sé nægjanlega aðgreint frá heiti annarra félaga svo ekki skapist ruglingshætta. Í máli því sem um ræðir taldi ráðuneytið einnig rétt að líta til íþróttalaga, nr. 64/1998, þar sem í lögunum er vísað til Ungmennafélags Íslands og hlutverk þess við skipan íþróttamála á landsvísu. Í úrskurði ráðuneytisins varðandi heiti Landssambands æskulýðsfélaga er vísað til 8. og 10. gr. laga um verslanaskrár, firmu og prókúruumboðs, 3. og 4. gr. laga um vörumerki, 15. gr. [a.] laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, fjallað er um hugtakið firma, vísað er til íþróttalaga, nr. 64/1998, og fjallað um hugtakið ungmennafélag eins og það kemur fyrir í Íslenskri orðabók Eddu. Var það niðurstaða ráðuneytisins þegar litið var til allra framangreindra þátta að staðfesta ákvörðun fyrirtækjaskrár um að synja beri skráningu tilkynningar um breytingu á heiti Landssambands æskulýðsfélaga í Landssamband ungmennafélaga. Ráðuneytið taldi þannig að ákvörðun Hugverkastofu á grundvelli laga um vörumerki hefði ekki úrslita þýðingu í kærumáli því sem var til meðferðar í ráðuneytinu.“

Athugasemdir Landssambands æskulýðsfélaga við skýringar ráðneytisins bárust 10. febrúar 2021.

  

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagagrundvöllur

1.1 Hlutverk fyrirtækjaskrár og firmalög

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 42/1903, um verslanaskrár, firmu og prókúruumboð (firmalög), skal fyrirtækjaskrá halda verslanaskrár og rita í þær tilkynningar þær, er getur um í lögunum, eða heimilað verður með öðrum lögum að setja í skrárnar. Fyrirtækjaskrá skal m.a. geyma upplýsingar um félög til almannaheilla, sbr. 4. tölulið 2. gr. laga nr. 17/2003, um fyrirtækjaskrá, en þar á meðal eru upplýsingar um heiti félaga, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 4. gr. laganna.

Ákvæði um firmu er að finna í öðrum kafla firmalaga. Í 1. málslið 8. gr. laganna segir að hver sá er stundar atvinnurekstur skuli hlýða ákvæðum þeim, er á eftir fara, um nafn það, er hann notar við atvinnuna, og um undirskrift fyrir hana (firma), enda beri fyrirtækið og atvinnustarfsemi þess nöfn, sem samrýmist íslensku málkerfi að dómi skrásetjara.

Ákvæði 10. gr. firmalaga er svohljóðandi:

„Enginn má í firma sínu hafa nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis. Í firma má eigi nefna fyrirtæki, er ekki standa í sambandi við atvinnuna; eigi má heldur halda firma því óbreyttu, er tilgreinir ákveðna atvinnugrein, ef veruleg breyting hefir verið gerð á henni.

Firmu þau, er sett eru á skrá fyrir sama kaupstað eða hrepp, skal greina glöggt hvert frá öðru. Sá, sem tilkynnir firma með nafni sínu, skal því ef samnefnt firma er þegar sett á skrá fyrir einhvern annan í sama kaupstað eða hrepp, greina firma sitt glöggt frá hinu eldra firma með viðauka við nafn sitt eða á annan hátt. Sá, sem eigi tilkynnir firma, en ætlar að reka atvinnu með nafni sjálfs sín (sbr. 16. gr.), má ekki stæla skrásett firma, sem hefir sama nafn, með því að bæta við nafn sitt, fella úr því eða breyta.“

   

1.2 Vörumerkjalög og lög um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu

Í úrskurði ráðuneytisins er m.a. vísað til 3. og 4. gr. laga nr. 45/1997, um vörumerki (vörumerkjalög), og 15. gr. a. laga nr. 57/2005, um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

Í 1. mgr. 3. gr. vörumerkjalaga segir að vörumerkjaréttur geti stofnast með skráningu vörumerkis fyrir vöru eða þjónustu í samræmi við ákvæði laganna eða notkun vörumerkis sem er og hefur verið notað hér á landi fyrir vöru eða þjónustu. Vörumerki, sem ekki telst uppfylla skilyrði laganna um skráningu, geti ekki skapað vörumerkjarétt með notkun. Þó geti vörumerki, sem ekki telst uppfylla skilyrði laganna um sérkenni við upphaf notkunar, skapað vörumerkjarétt ef merkið öðlast sérkenni við notkun, sbr. 2. mgr. 3. gr. laganna.

Samkvæmt 4. gr. vörumerkjalaga, eins og þeim hefur síðar verið breytt, öðlast eigandi vörumerkis einkarétt á notkun þess samkvæmt ákvæðum laganna. Í því felst réttur hans til að banna þriðja aðila að nota í atvinnustarfsemi og í tengslum við vörur og þjónustu, án leyfis, tákn sem er eins og vörumerkið og er notað fyrir sömu vörur og þjónustu. Sama á við um tákn sem er eins og eða líkt vörumerkinu og er notað fyrir sömu eða svipaðar vörur og þjónustu og vörumerkjarétturinn nær til ef hætt er við ruglingi, þ.m.t. að tengsl séu með merkjunum, og tákn sem er eins og eða líkt vörumerkinu og er notað, án réttmætrar ástæðu, fyrir sömu, svipaðar eða ólíkar vörur og þjónustu ef vörumerkið telst vel þekkt hér á landi og notkunin hefur í för með sér misnotkun eða rýrir aðgreiningareiginleika eða orðspor hins þekkta merkis.

Meðal hlutverka vörumerkja er að upplýsa neytendur um uppruna vöru eða þjónustu. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 12. gr. vörumerkjalaga, eins og þeim hefur síðar verið breytt, annast Hugverkastofan skráningu vörumerkja og heldur vörumerkjaskrá. Ákvörðunum og úrskurðum hennar samkvæmt lögunum geta aðilar máls skotið til áfrýjunarnefndar, sbr. 1. mgr. 63. gr. laganna. Af lögunum leiðir að mat á ruglingshættu samkvæmt vörumerkjalögum er í höndum Hugverkastofu og, eftir atvikum, áfrýjunarnefndar. Í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögum nr. 71/2020 og breytti 4. gr. vörumerkjalaga kemur fram að við mat á ruglingshættu samkvæmt ákvæðinu sé nauðsynlegt að líta til viðmiða og dómaframkvæmdar, bæði hjá íslenskum dómstólum, áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar og Evrópudómstólnum (sbr. þskj. 1084, 150. löggjafarþing 2019-2020, bls. 16-17).

Í 15. gr. a. fyrrgreindra laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, segir að óheimilt sé að nota í atvinnustarfsemi firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt, sem sá hefur ekki rétt til er notar, eða reka atvinnu undir nafni sem gefur villandi upplýsingar um eignarrétt eða ábyrgð atvinnurekanda. Enn fremur er sérhverjum bannað að nota auðkenni, sem hann á tilkall til, á þann hátt að leitt geti til þess að villst verði á því og öðru einkenni sem annað fyrirtæki notar með fullum rétti. Fyrri málsliður greinarinnar felur í sér reglu sem bannar aðila að nota auðkenni sem er í eigu annars. Um nánari skilgreiningu á því hvenær auðkenni telst vera eign annars manns fer eftir almennum reglum vörumerkja- og auðkennaréttar (sbr. til hliðsjónar Eirík Jónsson og Halldóru Þorsteinsdóttur: Vernd auðkenna og atvinnuleyndarmála í lögum nr. 57/2005, Úlfljótur, 2. tbl., 66. árg. 2013, bls. 115).

Fyrrgreint ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu er samhljóða eldra ákvæði 30. gr. laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti. Í athugasemdum við 30. gr. þess frumvarps sem varð að þeim lögum kemur fram að tilgangur ákvæðisins hafi m.a. verið að ná til tilvika sem ekki féllu beint undir ákvæði firmalaga eða vörumerkjalaga. Sú vernd, sem háð væri ýmsum skilyrðum, næði ekki ávallt nógu langt. Því væri talin þörf fyrir almenna samkeppnisreglu um vernd auðkenna. Réttur til að nota auðkenni, svo sem firmanafn, verslunarmerki eða því um líkt, gæti hvílt á sérlöggjöf eins og t.d. firmalögum og lögum um vörumerki (Alþt. 1977-1978, A-deild, bls. 1953).

Neytendastofa, undir yfirstjórn ráðherra, fer með eftirlit samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu í þágu neytenda og er hlutverk hennar m.a. að framfylgja boðum og bönnum laganna. Ákvörðunum hennar, sem teknar eru á grundvelli laganna, verður skotið til áfrýjunarnefndar neytendamála, sem starfar á grundvelli 4. gr. laga nr. 62/2005, um Neytendastofu.

  

1.3 Íþróttalög

Í úrskurði ráðuneytisins er jafnframt vísað til 5. og 6. gr. íþróttalaga nr. 64/1998. Í 5. gr. laganna segir að íþróttastarfsemi utan skóla byggist á frjálsu framtaki landsmanna, sbr. 1. mgr. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands sé æðsti aðili frjálsrar íþróttastarfsemi í landinu og í erlendum samskiptum íþróttahreyfingarinnar. Ungmennafélag Íslands eru sjálfstæð félagasamtök á sviði íþrótta, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 6. gr. laganna skiptist landið í íþróttahéruð. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands annast skiptingu og breytingu á íþróttahéruðum.

  

2 Var staðfesting ráðuneytisins á synjun fyrirtækjaskrár í samræmi við lög?

Líkt og áður greinir er firma heiti lögaðila eða fyrirtækis í eigu þess sem stundar atvinnustarfsemi. Þeim sem hafa áhuga á að stunda atvinnurekstur er heimilt að nota það nafn sem þeir kjósa nema lög mæli fyrir um annað og þá m.a. vegna hugsanlegs lögverndaðs betri réttar annars aðila til nafnsins. Hér verður jafnframt að hafa í huga þá vernd atvinnufrelsis sem leiðir af grunnreglu 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Ef nauðsynlegt þykir vegna almannahagsmuna eða sérgreindra hagsmuna á ákveðnu sviði að banna notkun tiltekins firmanafns verður því að jafnaði að gera þá kröfu að slíkt bann eigi sér stoð í lögum, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis frá 30. apríl 2002 í máli nr. 3235/2001.

Af 10. gr. firmalaga leiðir að enginn má hafa í firma sínu nafn annars manns eða nafn á fasteign annars manns án hans leyfis og greina skal firmu glöggt hvert frá öðru. Í 2. málslið 2. mgr. 10. gr. laganna er gert ráð fyrir því að sá sem tilkynnir firma með nafni sínu, sem þegar er til á skrá, skuli greina það frá þegar skrásettu firma með viðauka eða á annan hátt. Ákvæðið gerir þannig ráð fyrir því að heimilt sé að fá samnefnt firma skráð svo framarlega sem glögglega er greint á milli þess og eldra firmaheitis með viðauka eða öðrum hætti. Verður því að leggja til grundvallar að við mat á því hvort synja beri um skráningu firmaheitis með vísan til laganna beri fyrst og fremst að líta til firmaheitanna sjálfra og meta líkindi þeirra út frá heitunum sem slíkum.

Í áðurlýstum úrskurði ráðuneytisins er gengið út frá því að „ungmennafélag“ sé almennt heiti, en í framkvæmd hefur að jafnaði verið gengið út frá því að ekki sé unnt að banna öðrum notkun slíks heitis svo fremi sem hann aðgreini sitt firmanafn frá því sem þegar kann að hafa verið skráð, sbr. til hliðsjónar fyrrgreint álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 3235/2001. Eins og þar kemur fram kann fyrirtæki sem notar almennt heiti hins vegar að eiga á hættu að skráning þess veiti því ekki einkarétt að þessu leyti ef ágreiningur kemur upp við annað fyrirtæki sem síðar hefur skráð sama eða sambærilegt firmanafn, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 16. maí 1947 í máli nr. 132/1946. Firmalög gera á hinn bóginn ekki ráð fyrir því að það sé skilyrði fyrir skráningu firma að það hafi þá eiginleika að skapa viðkomandi fyrirtæki einkarétt að þessu leyti.

Lög kunna að mæla fyrir um að tiltekin starfsemi sé undirorpin einkarétti ákveðins aðila, svo sem ríkis eða lögaðila. Ekki er því útilokað að hafna beri skráningu heitis sem eindregið gefur til kynna að viðkomandi aðili muni stunda nafngreinda starfsemi sem er háð einkarétti annars aðila. Hér verður þó að gera kröfu um að þær lagaheimildir sem veita öðrum aðila slíkan einkarétt séu ótvíræðar þannig að fyrir liggi að starfsemi með ákveðnu heiti heyri undir hann einan samkvæmt lögum. Að virtum fyrrgreindum ákvæðum íþróttalaga, og eins og málið liggur fyrir að öðru leyti, verður ekki séð að þau sjónarmið sem hér um ræðir hafi þýðingu fyrir úrlausn þess.

Hafa ber í huga að ágreiningur um hvort aðili hafi öðlast einkarétt til firmaheitis með skráningu, sem og ágreiningur um hver eigi betri rétt til tiltekins auðkennis, svo sem á grundvelli vörumerkjalaga, er einkaréttarlegs eðlis. Iðulega hefur reynt á slíkan rétt í dómaframkvæmd og þá hvort aðila verði gert að afmá skráningu úr firmaskrá, sbr. t.d. hæstaréttardóma frá 17. nóvember 1950 í máli nr. 28/1949, 1. nóvember 1973 í máli nr. 169/1972, 26. október 1988 í máli nr. 282/1987 og 1. mars 2012 í máli nr. 497/2011. Í samræmi við þetta er kveðið á um það í 6. gr. firmalaga að þyki einhverjum tilkynning, sem rituð er í verslanaskrá, vera sér skaðleg, liggi það undir úrskurð dómstóla hvort afmá skuli tilkynninguna. Svo sem áður greinir liggur einnig fyrir að önnur stjórnvöld en fyrirtækjaskrá fara með framkvæmd vörumerkjalaga og laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu. Aðilar geta því t.d. leitað til Neytendastofu telji þeir brotið gegn réttindum sínum samkvæmt 15. gr. a. síðargreindu laganna. Samkvæmt þessu felst almennt ekki í ákvörðun fyrirtækjaskrár um skráningu firma úrlausn stjórnvalds um lagalegan rétt hlutaðeigandi til að nota tiltekið heiti í atvinnuskyni.

Ljóst er að heitin „Ungmennafélag Íslands“ og „Landssamband ungmennafélaga“ eru ekki þau sömu og ekki verður séð að þau, ein og sér, séu þess eðlis að ekki sé hægt að greina þau glöggt hvort frá öðru.  Með vísan til þess sem áður hefur verið rakið um lagaleg skilyrði fyrir skráningu firma og hlutverks fyrirtækjaskrár í því sambandi er það þar af leiðandi álit mitt að áðurlýstur úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hafi ekki verið í samræmi við lög.

  

3 Rökstuðningur ráðuneytisins

Samkvæmt 4. tölulið 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal úrskurður æðra stjórnvalds í kærumáli hafa að geyma rökstuðning sem fullnægir þeim kröfum sem gerðar eru til rökstuðnings stjórnvaldsákvörðunar samkvæmt 22. gr. laganna. Í 1. mgr. þeirrar greinar er tekið fram að í rökstuðningi fyrir ákvörðun skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðunin er byggð á. Að því marki sem ákvörðun byggist á mati skal í rökstuðningi greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi voru. Ákvæðið felur í sér lágmarkskröfur sem ávallt eru gerðar til efnis rökstuðnings. Auk þess er gengið út frá því að gera verði ríkari kröfur til réttaröryggis við úrlausn kærumála og þar af leiðandi til rökstuðnings úrlausna æðra setts stjórnvalds (Alþt. 1992-93, A-deild, bls. 3299 og 3302).

Af almennum athugasemdum við V. kafla frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum má ráða að sjónarmið um réttaröryggi og traust almennings búi að baki reglum laganna um rökstuðning. Krafa um rökstuðning sé til þess fallin að auka líkur á því að ákvarðanir verði réttar þar sem hún knýr á um það að stjórnvald vandi til undirbúnings að ákvörðun og leysi úr máli á málefnalegan hátt. Jafnframt stuðlar rökstuðningur að því að aðili máls geti skilið af lestri hans hvers vegna niðurstaða máls hefur orðið sú sem raun varð á og geti staðreynt að ákvörðun eigi sér stoð í lögum og sé í samræmi við þau (Alþt. 1992-93, A-deild, bls. 3299 og 3303). Stjórnvöld verða þar af leiðandi að haga orðalagi og framsetningu rökstuðnings þannig að þau atriði sem þar koma fram séu í eðlilegu samhengi við niðurstöðu málsins, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 30. desember 2008 í málum nr. 5220/2008 og 5230/2008.

Í fyrrgreindum úrskurði ráðuneytisins er fjöldi lagaákvæða og sjónarmiða reifaður án þess að ætíð sé fyllilega skýrt hvaða þýðingu þau hafa fyrir niðurstöðu málsins. Þar eru t.d. ákvæði 3. og 4. gr. vörumerkjalaga rakin án þess að vikið sé að heimfærslu málsatvika til þeirra eða gerð grein fyrir þýðingu þeirra að öðru leyti fyrir niðurstöðu málsins. Er þá m.a. haft í huga að við úrlausn málsins lá fyrir að UMFÍ ætti ekki vörumerkjarétt á grundvelli vörumerkjalaga, líkt og áður greinir. Var því erfiðleikum bundið fyrir aðila málsins að gera sér grein fyrir efnislegum forsendum niðurstöðu ráðuneytisins og meta réttarstöðu sína með hliðsjón af því.

Samkvæmt framangreindu er óhjákvæmilegt að líta svo á að rökstuðningur ráðuneytisins hafi ekki verið fyllilega í samræmi við áðurlýstar kröfur 1. mgr. 22. gr., sbr. 4. tölulið 31. gr. stjórnsýslulaga. Svo sem áður greinir eru þá m.a. hafðar í huga þær auknu kröfur sem gera verður til rökstuðnings stjórnvalds á kærustigi.

  

V Niðurstaða

Það er niðurstaða mín að úrskurður atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 25. september 2019, þar sem staðfest var ákvörðun fyrirtækjaskrár 16. mars 2018 um synjun skráningar tilkynningar um breytingu á heiti Landssambands æskulýðsfélaga, hafi ekki verið í samræmi við lög. Ég tel jafnframt að rökstuðningur ráðuneytisins hafi ekki verið fyllilega í samræmi við þær kröfur sem gera verður til rökstuðnings stjórnvalda á kærustigi samkvæmt 1. mgr. 22. gr., sbr. 4. tölulið 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er þeim tilmælum beint til ráðuneytisins að taka téð mál upp að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá Landssambandi æskulýðsfélaga, og leysi þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hafa verið rakin í álitinu. Jafnframt beini ég því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.

Undirritaður var kjörinn umboðsmaður Alþingis 26. apríl 2021 og fór með mál þetta frá 1. maí þess árs.

  

  

  

VI Viðbrögð stjórnvalda

Ráðuneytið tók málið til meðferðar að nýju og komst að þeirri niðurstöðu að UMFÍ hefði hvorki öðlast einkarétt til notkunar heitisins Landssamband ungmennafélaga á grundvelli firmalaga, ákvæða íþróttalaga né á grundvelli skilgreiningar á orðinu ungmennafélag í orðabók. Jafnframt að framvegis verði tekið mið af sjónarmiðunum í álitinu.