Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11263/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur sem lagði á stöðubrotsgjald vegna bifreiðar sem lagt hafði verið í stæði við Bankastræti 7 á svæði sem þá hefði verið göngugata.

Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns til Reykjavíkurborgar ákvað borgin að beina þeim tilmælum til bílastæðasjóðs að endurskoða þá ákvörðun að synja beiðni viðkomandi um endurupptöku málsins og afgreiða hana á réttum lagagrundvelli og endurgreiða umrætt gjald. Ekki var því ástæða fyrir umboðsmann að aðhafast frekar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. maí 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 20. ágúst sl. yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að leggja á yður stöðubrotagjald 21. janúar þess árs fyrir að hafa lagt tilgreindri bifreið í merkt stæði við Bankastræti 7 á svæði sem þá hafi verið göngugata.

Í tilefni af kvörtuninni voru Reykjavíkurborg rituð bréf 21. október og 21. mars sl. sem sveitarfélagið svaraði með bréfum 18. nóvember og 29. apríl sl. Með síðastnefndu bréfi tilkynnti sveitar­félagið að eftir yfirferð málsins hefði verið ákveðið að beina þeim tilmælum til bílastæðasjóðs að endurskoða þá ákvörðun að synja beiðni yðar um endurupptöku málsins og afgreiða hana á réttum lagagrundvelli og endur­greiða yður umrætt stöðubrotagjald. Að þessu virtu er ekki ástæða af hálfu umboðsmanns til að að­­hafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Ég bendi þó á að þér getið leitað aftur til umboðsmanns Alþingis að fenginni nýrri afstöðu bílastæðasjóðs teljið þér þá efni til þess.

Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

   


   

Fyrirspurnarbréf umboðsmanns til Reykjavíkurborgar 21. mars 2022.

  

Vísað er til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A vegna ákvörðunar um álagningu stöðubrotagjalds 21. janúar 2021 vegna bifreiðarinnar X sem lagt var í merkt stæði við Bankastræti 7.

Í kvörtuninni eru m.a. gerðar athugasemdir við að ekki hafi verið tekin formlega ákvörðun af hálfu borgarinnar um að umræddur hluti Bankastrætis milli Þingholtsstrætis og Ingólfsstrætis skyldi vera göngu­gata á því tímabili sem sektin var lögð á A. Samkvæmt svörum umhverfis- og skipulagssviðs til innri endurskoðunar 22. júlí sl. voru öll skilti sem afmörkuðu umrætt svæði tekin niður 18. febrúar s.á. og því sé umrætt svæði ekki lengur göngugata. Það er ekki nánar útskýrt hvers vegna skiltin voru tekin niður á þessum tíma eða hver tók ákvörðun um að fjarlægja þau. Þá liggur ekki fyrir í gögnum málsins hvenær tekin var ákvörðun um að Bankastræti skyldi vera tímabundin göngugata og þá af hverjum eða hvenær tekin var ákvörðun um að að framlengja það tímabil.

Af framangreindu tilefni er þess óskað, með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að Reykjavíkurborg upplýsi hvenær og hver hafi ákveðið að Bankastræti væri göngugata á umræddum tíma. Þess er einnig óskað að borgin upplýsi umboðsmann um hvers vegna ákveðið var að taka niður merkingar um að umrætt svæði væri göngugata 18. febrúar 2021 og þá hver tók þá ákvörðun. Að teknu til­liti til svara í tilefni af framangreindu er óskað eftir afstöðu Reykjavíkurborgar til þess hvernig það telji að merkingar um göngugötu á þessum hluta Bankastrætis hafi byggst á fullnægjandi grundvelli og þá hvort og hvernig sektin hafi verið í samræmi við lög.

Þess er óskað að umbeðnar upplýsingar og skýringar berist umboðsmanni Alþingis eigi síðar en 11. apríl nk.