Opinberir starfsmenn. Framhaldsskólar. Ráðningar í opinber störf. Skólanefndir. Svör stjórnvalda til umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 10783/2020)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun setts rektors um ráðningu kennslustjóra. Í ljósi fyrri mála A og þess að kærunefnd jafnréttismála hafði kveðið upp úrskurð um að skólinn hefði brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðninguna var athugun umboðsmanns afmörkuð við það hvort settur rektor skólans hefði viðhaft lögbundið samráð við skólanefnd við meðferð ráðningarmálsins.

Umboðsmaður tók fram að lögbundið samráð skólameistara við skólanefnd um starfsmannamál yrði almennt að vera formlegt og upplýsingar um það bæri að skrá. Í lögum væri ekki kveðið á um nánara inntak samráðs skólameistara við skólanefnd og þá væri ljóst að samráði yrði ekki jafnað til álitsumleitunar í lagalegum skilningi, en í hinu síðarnefnda fælist að jafnaði að álitsgjafi veitti rökstudda umsögn um málið sem væri til úrlausnar hjá stjórnvaldi. Slík skylda hvíldi t.d. á skólanefnd í ráðningarferli skólameistara. Taldi umboðsmaður að með samskiptum rektors og síðar setts rektors við skólanefndina hefði verið fullnægt þeim lágmarkskröfum sem leiddu af lögum. Þá voru gerðar athugasemdir við að skólanefnd hefði ekki svarað bréfi umboðsmanns Alþingis.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 10. maí 2022. 

   

   

I

Vísað er til kvörtunar yðar 30. október 2020 yfir ákvörðun setts rektors X 24. september 2019 um að ráða annan umsækjanda en yður í starf kennslustjóra skólans til fjögurra ára.

Kvörtunin tengist náið fyrri málum yðar hjá umboðsmanni Alþingis. Í máli nr. 10261/2019 fjallaði umboðsmaður um kvörtun yðar yfir afgreiðslu skólans á beiðni yðar um aðgang að gögnum ráðningar­málsins. Umboðsmaður lauk athugun á þeirri kvörtun með bréfi 21. september 2020 á þeim grunni að ekki yrði annað ráðið en að þér hefðuð fengið aðgang að öllum gögnum málsins. Þá lauk umboðsmaður athugun á kvörtun yðar 24. september 2020, sem fékk málsnúmerið 10725/2020, með bréfi 29. þess mánaðar þar sem fyrir lá að þér hefðuð kært fyrrgreinda ákvörðun um ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála og málið væri enn til meðferðar hjá henni. Með kvörtun yðar nú fylgdi afrit af úrskurði nefndarinnar 21. október 2020 í máli nr. 8/2020, en samkvæmt úrskurðarorði var það niðurstaða hennar að X hefði brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, við téða ráðningu í starf kennslustjóra.

Líkt og gerð hefur verið grein fyrir í fyrri bréfum umboðsmanns hefur athugun hans, í ljósi framangreinds, verið afmörkuð við það hvort settur rektor hafi viðhaft lögbundið samráð við skólanefnd við meðferð ráðningarmálsins, svo sem áskilið er í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla.

  

II

Með tölvubréfi 25. júní 2019 sendi rektor X starfsmönnum skólans og formanni skólanefndar auglýsingu um starf kennslu­stjóra. Í auglýsingunni sagði að ráðið væri í starfið frá og með 1. ágúst þess árs til fjögurra ára. Um starfið sagði enn fremur að kennslustjóri ynni í teymisvinnu með öðrum stjórnendum skólans. Hann hefði umsjón með nemendabókhaldi, þ.á m. skráningu nemenda, fjarvista­skráningu, mati á námi og útgáfu námsferla. Hann héldi einnig utan um framkvæmd skólareglna og væri tengiliður stjórnenda við félagsmála­fulltrúa skólans og stjórn nemendafélagsins. Þá kom fram að kennslu­stjóri annaðist m.a. prófstjórn og gerð próftöflu á matsdögum.

Umsækjendur um starfið voru tveir. Í framhaldi af því að það lá fyrir hverjir hefðu sótt um starfið lýsti rektor skólans sig vanhæfan til meðferðar málsins og setti þáverandi mennta- og menningarmála­ráðherra annan mann til að fara með það 30. ágúst 2019.

Með tölvubréfi setts rektors til formanns skóla­nefndarinnar 19. september þess árs upplýsti hann hverjir hefðu sótt um starfið og ráða skyldi í það að höfðu samráði við skólanefnd. Að því virtu spurði settur rektor hvort óskað væri eftir að haldinn yrði fundur skólanefndar um málið eða hvort fullnægjandi væri að hann myndi sendi formanni ákvörðun og rökstuðning sem formaður kæmi til annarra skólanefndarmanna.

Næsta dag upplýsti formaður skólanefndar aðra nefndarmenn um erindi setts rektors og að hann hallaðist að því að láta síðarnefnda valmöguleikann duga. Ef eindreginn vilji væri meðal skólanefndarmanna til að halda fund yrði þó orðið við því. Að fengnum svörum tveggja nefndarmanna, sem lýstu sig sammála þeirri tillögu, svaraði formaður settum rektor því að fullnægjandi væri að senda ákvörðunina og rök­stuðning fyrir henni. Í gögnum málsins liggur ekki annað fyrir en að aðrir nefndarmenn hafi látið fyrrgreindu erindi formanns skóla­nefndar ósvarað.

Með tölvubréfi 24. sama mánaðar sendi settur rektor formanni skólanefndar gögn ráðningarmálsins og upplýsti hvern hefði verið ákveðið að ráða í starfið. Sama dag áframsendi formaður nefndarinnar öðrum nefndarmönnum þær upplýsingar.

  

III

Umboðsmaður Alþingis ritaði settum rektor X og formanni skólanefndar bréf 4. desember 2020. Í bréfunum var óskað eftir upplýsingum og skýringum viðvíkjandi því hvort og þá hvernig meðferð málsins, að því er snerti samráð skólameistara við skólanefnd, hefði verið í samræmi við lög.

Í svarbréfi setts rektors 4. janúar 2021 var því lýst að formaður skólanefndar hefði fengið í hendur gögn málsins. Nefndin hefði ekki talið þörf á að funda um málið, heldur talið nægjanlegt að fá upplýsingar um niðurstöðu og rökstuðning. Í samráði fælist skylda til að kynna og ræða við skólanefnd um áform, rökstyðja þau og gefa nefndinni kost á að koma sjónarmiðum og tillögum sínum á framfæri áður en endanleg ákvörðun væri tekin. Skólanefndin hefði fjallað um málið og talið nægjanlegt að fá niðurstöðu setts rektors ásamt rökstuðningi. Það væri algjörlega ljóst að nefndin hefði hvenær sem er getað kallað eftir frekari umfjöllun. Samráð við nefndina hefði því verið í samræmi við lög.

Formaður skólanefndar X svaraði ekki erindi umboðsmanns Alþingis. Eftir að erindið hafði verið ítrekað nokkrum sinnum var mennta- og menningarmálaráðherra ritað bréf 9. september sl. Þar var þess farið á leit við ráðuneyti hans að málinu yrði komið í þann farveg að unnt yrði að leysa úr kvörtun yðar. Þess var einnig óskað að ráðuneytið upplýsti hvort og þá með hvaða hætti það teldi rétt að aðhafast gagnvart skólanefndinni eða formanni hennar í tilefni af stöðu málsins. Með bréfi 1. október sl. upplýsti ráðuneytið að það hefði sent formanni skólanefndarinnar auk annarra aðalmanna nefndarinnar bréf þar sem því væri beint til þeirra að bregðast án tafar við bréfi umboðsmanns með því að veita umbeðnar upplýsingar og skýringar. Það hefur nefndin þó enn ekki gert.

Athugasemdir yðar við fyrrgreint svarbréf setts rektors bárust með bréfi 17. febrúar sl.

  

IV

1

Samkvæmt g-lið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/2008 er hlutverk skólanefndar að vera skólameistara til samráðs um starfsmanna­mál. Í 1. mgr. 8. gr. sömu laga er mælt fyrir um að skólameistari ráði stjórnendur, kennara og aðra starfsmenn skólans að höfðu samráði við skólanefnd. Samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 1100/2007, um starfslið og skipulag fram­haldsskóla, er skólameistara heimilt að ráða áfangastjóra, að höfðu samráði við skólanefnd, til allt að fjögurra ára í senn úr hópi fram­halds­skólakennara við skólann eftir að starfið hefur verið auglýst innan skólans. Í ákvæðinu kemur fram að endurráðning sé heimil að undan­geng­inni auglýsingu. Í gögnum málsins kemur fram að starf kennslustjóra við X svari til stöðu áfangastjóra samkvæmt reglu­gerðinni.

Í samræmi við það sem kom fram í áliti umboðsmanns Alþingis 13. febrúar 2017 í máli nr. 8956/2016 verður lögbundið samráð skólameistara við skólanefnd um starfsmannamál almennt að vera formlegt og upplýsingar um það ber að skrá. Líkt og einnig er rakið í áliti umboðsmanns 16. desember sl. í málum nr. 10784 og 10796/2020 er ekki kveðið á um nánara inntak samráðs skóla­meistara við skólanefnd í lögum nr. 92/2008 eða reglugerð nr. 1100/2007. Þá er ljóst að samráði verður ekki jafnað til álitsumleitunar í lagalegum skilningi, en í hinu síðarnefnda felst að jafnaði að álits­gjafi veiti rökstudda umsögn um málið sem er til úrlausnar hjá stjórnvaldi. Slík skylda hvílir t.d. á skólanefnd í ráðningarferli skóla­meistara, sbr. h-lið 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/2008.

Orðalag framangreindra laga- og reglugerðarákvæða, um ráðningu „að höfðu samráði“ við skólanefnd, ber með sér að samráðið skuli, a.m.k. að hluta, eiga sér stað áður en ákvörðun er tekin um ráðninguna. Í athugasemdum við 5. og 8. gr. þess frumvarps er varð að lögum nr. 92/2008 kemur annars vegar fram að með því sé eflt mikilvægi skólanefnda við að móta áherslur í skólastarfinu og þjónustu skólanna en dregið sé úr ábyrgð þeirra á rekstri. Hins vegar kemur fram um síðarnefndu greinina að ákvæði hennar séu löguð að auknu sjálf­stæði skóla um fyrirkomulag starfsmannamála (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1869-1870). Hvað sem þessu líður, og án tillits til þess hvernig nánara samráði skólameistara við skólanefnd er háttað, er ljóst að hann er óbundinn af afstöðu nefndarinnar og ber endanlega ábyrgð á ákvörðunum sínum um ráðningar.

Í málinu liggur ekki fyrir að skólanefnd X hafi ályktað með almennum hætti um það hvernig háttað skyldi lögákveðnu samráði hennar við rektor í einstökum málum. Af framan röktum atvikum verður ráðið að rektor hafi upplýst formann skólanefndar um upphaf umrædds ráðningarmáls þegar starf kennslustjóra var auglýst laust til umsóknar 25. júní 2019 sem og að settur rektor hafi haft samráð við nefndina um það hvernig hún kysi að haga samráði í því máli. Hafa verður í huga að í aðkomu skólanefndar að ráðningarmálinu fólst hvorki stjórnvaldsákvörðun né lögákveðin álitsgjöf. Að þessu virtu verður að líta svo á að með áðurlýstum samskiptum rektors og síðar setts rektors við nefndina hafi verið fullnægt þeim lágmarkskröfum sem leiða af fyrrnefndum ákvæðum laga nr. 92/2008 og reglugerðar nr. 1100/2007, sbr. til hliðsjónar fyrrgreint álit umboðsmanns í málum nr. 10784 og 10796/2020.

Eigi að síður bendi ég á að samkvæmt almennum reglum um störf stjórnsýslunefnda bar skólanefndinni að álykta um fyrirkomulag samráðs síns við rektor á formlegum fundi. Ég tek þó fram að þetta haggar ekki fyrrgreindri niðurstöðu minni á þá leið að fullnægt hafi verið fyrrgreindum lágmarkskröfum laga og reglugerðar um samráð við nefndina.

  

2

Svo sem fyrr er rakið svaraði skólanefnd X ekki bréfi umboðsmanns Alþingis 4. desember 2020 þrátt fyrir ítrekanir og tilmæli þáverandi mennta- og menningarmálaráðuneytisins í þá veru.

Af þeim sökum er rétt að minna á að með lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er embættinu falið það meginhlutverk að gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög landsins og vandaða stjórnsýsluhætti. Til þess að umboðsmaður geti rækt lögbundið hlutverk sitt hefur embættið víðtækar heimildir til gagna- og upplýsingaöflunar, sbr. 7. og 9. gr. fyrr­greindra laga, en skýringar og upplýsingagjöf stjórnvalda innan hæfilegs tíma eru einnig forsenda þess að umboðsmaður geti rækt það eftirlits­hlutverk sem honum er ætlað.

Ekki fer á milli mála að skólanefnd X, sem lögákveðinni stjórnsýslunefnd innan stjórnkerfisins, bar skylda til að svara fyrrgreindu erindi umboðsmanns og í öllu falli bregðast við ítrekun erindisins, bæði af hálfu embættisins og ráðuneytis. Þótt ég telji mig hafa fengið fullnægjandi upplýsingar til að fjalla um kvörtun yðar olli vanræksla nefndarinnar á skyldum sínum að þessu leyti töfum á meðferð málsins en auk þess var hún ósamrýmanleg þeim sjónarmiðum sem lög um umboðsmann byggjast á. Af þeim sökum er afrit af áliti þessu sent mennta- og barnamálaráðuneytinu til upplýsingar.

  

V

Með vísan til alls þess sem að framan greinir og a- og b-liða 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég málinu hér með lokið.

Undirritaður var kjörinn umboðsmaður Alþingis 26. apríl 2021 og fór með mál þetta frá 1. maí sama ár.