Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Frávísun. Málshraði.

(Mál nr. 11342/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði Persónuverndar. Með úrskurðinum var kvörtun hennar til stofnunarinnar vísað frá en hún laut að haldlagningu héraðssaksóknara á gögnum í tengslum við sakamálarannsókn á tilteknum málefnum vinnuveitanda hennar og brotum gegn lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Niðurstaða Persónuverndar byggðist á því að það félli utan valdsviðs stofnunarinnar að skera úr um efni kvörtunarinnar þar sem lögfest væri í lögum um meðferð sakamála að þau yrðu borin undir dómstóla. Athugun umboðsmanns beindist einkum að því hvort úrskurður Persónuverndar hefði verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lögákveðnu hlutverki Persónuverndar samkvæmt lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Hann benti á að það fengi ekki stoð í lögunum né almennum reglum stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar að ákvæði laga um meðferð sakamála, sem fælu í sér almenna heimild en ekki skyldu til að leggja ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda fyrir héraðsdóm, stæðu því í vegi að Persónuvernd væri bær til að sinna því hlutverki sem mælt væri fyrir um með lögum um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.

A hefði að meginstefnu óskað eftir því að fá úr því skorið hvort vinnsla héraðssaksóknara á tilteknum gögnum vegna rannsóknar sakamáls færi í bága við grunnreglur laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Í samræmi við fyrirmæli laganna, eins og þau yrðu skýrð með hliðsjón af almennum reglum, hefði stofnuninni borið að taka efnislega afstöðu til þess hvort umrædd vinnsla ætti sér stoð í lögum og samræmdist að öðru leyti fyrirmælum áðurnefndra laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Umboðsmaður taldi þar af leiðandi að úrskurður Persónuverndar hefði ekki verið í samræmi við lög og mæltist til þess að stofnunin tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem hefðu verið rakin í álitinu. Þá benti hann stofnuninni einnig á sjónarmið sem gilda um skilvirka málsmeðferð stjórnvalda en lét þar við sitja í ljósi þess að stofnunin hafði viðurkennt óhæfilegan drátt á meðferð málsins. Að lokum beindi hann því til stofnunarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 16. maí 2022. 

   

   

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 11. október 2021 leitaði B lögmaður til umboðs­manns Alþingis, f.h. A, og kvartaði yfir úrskurði Persónuverndar 1. sama mánaðar í máli nr. 2020031134. Með úrskurðinum var kvörtun A til Persónuverndar vísað frá en hún laut að haldlagningu héraðssaksóknara á gögnum í tengslum við sakamálarannsókn á tilteknum málefnum vinnuveitenda hennar og brotum gegn lögum nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Niðurstaða Persónuverndar byggðist á því að það félli utan valdsviðs stofnunarinnar að skera úr efni kvörtunarinnar þar sem lögfest væri í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, að þau yrðu borin undir dómstóla.

Athugun mín hefur einkum beinst að því hvort úrskurður Persónu­verndar hafi verið í samræmi við lög.

  

II Málavextir

Forsaga málsins er sú að héraðssaksóknari hóf rannsókn á vinnuveitanda A í árslok 2019. Vinnuveitandi hennar afhenti embættinu í kjölfarið gögn, þ.á m. afrit af tölvupósthólfi hennar á tilteknu tíma­bili.

Í bréfi A til héraðssaksóknara 6. janúar 2020 var því borið við að í tölvupósthólfinu væri að finna verulegt magn gagna sem ólögmætt væri að leggja hald á, sbr. einkum 68. gr. og 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Meðal gagna væri mappa sem merkt væri „einkamál“ og tvær möppur er vörðuðu störf hennar fyrir annað fyrirtæki svo og erlent ríki. Þá var einnig vísað til þess að A starfaði sem lögmaður og hún nyti því þeirra réttinda og skyldna sem því fylgdu. Í tölvupósthólfi hennar væri þannig einnig að finna gögn um yfirstandandi rannsókn embættisins á vinnuveitanda hennar sem féllu undir áðurnefnda 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Var þess því krafist að embættið myndi afla dómsúrskurðar ef það hygðist skoða umrædd gögn.

Með svarbréfi 16. sama mánaðar hafnaði héraðssaksóknari því að ólögmætt hefði verið að haldleggja umrædd gögn sem og að embættið þyrfti sérstakan dómsúrskurð til að heimila leit í þeim. Þá var athygli vakin á því að samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 væri unnt að bera einstakar rannsóknarathafnir lögreglu undir héraðsdóm. Embættið gæti fallist á að bíða með leit í umræddum gögnum þar til úrskurður héraðsdóms lægi fyrir ef A hygðist leita til dómstóla. Í síðari samskiptum lögmanns A og héraðssaksóknara benti embættið á að það teldi „nauðsynlegt að ganga úr skugga um hvað þau pósthólf og þær póstsendingar“ sem vísað væri til hefðu að geyma.

Í kjölfarið, eða 9. mars 2020, leitaði A til Persónu­verndar með kvörtun á grundvelli 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Þess var óskað að héraðs­sak­sóknara yrði gert skylt að eyða þeim persónuupplýsingum sem vísað væri til í kvörtuninni, sbr. 2. mgr. 14. gr. laganna. Á því var byggt að vinnsla embættisins á umræddum gögnum færi í bága við meginreglur a., b. og c. liðar 1. mgr. 4. gr. laganna. Því var einnig borið við að verklag héraðssaksóknara, sem fæli í sér að öll gögn væru skoðuð til þess að sannreyna hvort þau féllu undir 68. gr. laga nr. 88/2008, sam­­ræmdist ekki fyrrgreindu lögunum.

Með ákvörðun 1. október 2021 vísaði Persónuvernd kvörtun A frá á eftirfarandi grundvelli:

„Persónuvernd lítur svo á að það falli utan valdsviðs stofnunar­innar að skera úr um álitaefni það sem fyrrgreind kvörtun lýtur að þar sem lögfest er í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um með­ferð sakamála að ágreiningur um fyrrgreint álitaefni verði borinn undir dómstóla. Slík úrlausn heyrir því undir valdsvið dóm­stóla og fellur því utan valdsviðs Persónuverndar eins og það er skilgreint í 39. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.“

  

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og stjórnvalda

Í tilefni af téðri kvörtun var Persónuvernd ritað bréf 21. október 2021. Þar var þess óskað að umboðsmanni yrði afhent afrit af öllum gögnum málsins og Persónuvernd myndi veita þær skýringar sem hún teldi að kvörtunin gæfi tilefni til. Í þeim efnum var þess sérstaklega óskað að stofnunin myndi skýra hvort og þá hvernig það samræmdist þeim ákvæðum laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sem fjalla um störf og heimildir Persónuverndar að vísa kvörtun A frá. Í svarbréfi Persónuverndar 13. desember þess árs kom m.a. eftir­farandi fram:

„Fyrir liggur að héraðssaksóknari byggði umrædda haldlagningu á 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt kvörtun var við þá haldlagningu farið umfram heimildir þar sem í pósthólfi kvartanda hefði verið að finna verulegt magn gagna sem ólögmætt hefði verið að leggja hald á í ljósi ákvæðisins, sbr. einnig 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008. Í því sambandi vísaði Persónuvernd til 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála þar sem mælt er fyrir um að leggja megi fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Tók stofnunin fram í ljósi þessa að hér ræddi um álitaefni sem bera þyrfti undir dómstóla og félli það því utan valdsviðs hennar að taka afstöðu til þess.[...]

Persónuvernd telur ljóst að eftir atvikum geti stofnunin orðið að taka afstöðu til þess hvort gagnaöflun í tengslum við sakamál, sem rekið er fyrir dómstólum, hafi samrýmst lögum, t.d. ef svo virðist sem farið hafi verið framhjá þeim leiðum til gagnaöflunar sem gert er ráð fyrir í lögum um meðferð slíkra mála, nr. 88/2008. Þegar gagna hefur hins vegar verið aflað á grundvelli þeirra úrræða sem þau lög mæla fyrir um verður að gera ráð fyrir að ágreiningur í því sambandi, t.d. um umfang gagnaöflunar, sé leystur innan þess ramma sem lögin sjálf mæla fyrir um. Í því sambandi vísast til samhengis reglna um rannsókn sakamála annars vegar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hins vegar þar sem mælt er fyrir um réttinn til réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. Eins og fram kemur í 1. mgr. þess ákvæðis skal sá sem sakaður er um refsivert brot eiga rétt til réttlátrar og opinberrar máls­meðferðar innan hæfilegs tíma fyrir sjálfstæðum og óvilhöllum dóm­stóli. Telja verður að íhlutun stjórnvalds í málefni, sem dómstóli er lögum samkvæmt ætlað að taka afstöðu til í tengslum við meðferð slíks máls, geti jafnframt falið í sér íhlutun í rétt manna til réttlátrar og opinberrar málsmeðferðar samkvæmt þessu ákvæði. Hvað snertir lögmæti öflunar einstakra gagna verður auk þess að skoða hana í tengslum við það sakarefni sem til meðferðar er og verður að ætla að dómstóll, sem leysa skal úr því, verði þar að geta haft síðasta orðið. Í því ljósi gæti íhlutun stjórnvalds í gagnaöflun innan ramma löggjafar um meðferð sakamála, á meðan mál er til rannsóknar og meðferðar á grundvelli þeirrar löggjafar, jafnframt talist fela í sér íhlutun í framgang réttvísinnar.“

Í bréfi Persónuverndar kom einnig fram að líta bæri til þess að 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 fæli í sér að leggja mætti fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti einstakra rannsóknaraðgerða lögreglu og ákæranda sam­kvæmt lögunum. Löggjafinn hefði með ákvæðinu tekið ákvörðun um að það væri dómstóla að taka afstöðu til álitaefna í tengslum við beitingu slíkra úrræða á meðan sakamál væri til rannsóknar og dómsmeðferðar, sbr. og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 3. mars 2002 í máli nr. 177/2002. Persónuvernd gæti ekki „vikið til hliðar áðurnefndri ákvörðun löggjafans um í hvaða farvegi reka skuli mál um ágreining um rannsóknaraðgerðir við meðferð sakamála.“ Persónuvernd væri ekki ætlað það hlutverk á grundvelli laga nr. 75/2019 að hlutast til um beitingu rannsóknarúrræða samkvæmt lögum nr. 88/2008 sem bera mætti undir dómstóla samkvæmt þeim lögum. Af því leiddi að rétt hefði verið að vísa kvörtun A frá. Í lok svarbréfs Persónuverndar sagði því næst eftirfarandi:

„Jafnframt skal hins vegar tekið fram að eftir því sem líður kann að reynast unnt að bera tiltekin álitaefni í tengslum við umrædda gagnaöflun undir Persónuvernd, einkum um varðveislu gagna að meðferð sakamáls lokinni. Vísast í því sambandi til skyldu til að aflétta haldi á gögnum þegar þeirra er ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er endanlega lokið, sbr. 72. gr. laga nr. 88/2008. Liggur fyrir að í þeirri skyldu getur falist að eyða beri upplýsingum sem safnað hefur verið við rannsókn máls, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 26. nóvember 2009 í máli nr. 633/2009, en álitaefni sem þar á reynir verður einnig að skoða í ljósi laga nr. 44/2014 um opinber skjalasöfn. Að því gefnu að sú lög­gjöf standi ekki í vegi fyrir eyðingu upplýsinga er ljóst að Persónuvernd kann síðar að gefa fyrirmæli þar að lútandi, sbr. 3. mgr. 31. gr. laga nr. 75/2019, en einkum gæti komið til þess að fenginni kvörtun frá skráðum einstaklingi samkvæmt 3. mgr. 30. gr. sömu laga.“

Athugasemdir A við svör Persónuverndar bárust umboðsmanni 5. janúar 2022.

  

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Lagagrundvöllur

1.1 Lög um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í lög­gæslu­tilgangi, er markmið laganna að stuðla að því að yfirvöld á sviði refsi­vörslu fari með persónuupplýsingar í samræmi við grund­vallar­sjónar­mið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og tryggja áreiðan­leika og gæði slíkra upplýsinga, auk þess að greiða fyrir skilvirkum störfum og nauðsynlegri miðlun persónuupplýsinga þessara yfirvalda sín á milli og til annarra. Með lögunum var tilskipun Evrópusambandsins nr. 2016/680 frá 27. apríl 2016 innleidd, sbr. 35. gr. laganna.

Í 1. málslið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 75/2019 segir að lögin gildi um vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbærum yfirvöldum sem fram fer í lög­gæslutilgangi, þ.á m. við rannsókn á refsiverðum brotum, sbr. 8. tölulið 2. gr. laganna. Með lögbæru yfirvaldi er átt við opinbert yfirvald sem ber ábyrgð á eða er falið það hlutverk að lögum að koma í veg fyrir, rannsaka, koma upp um eða saksækja fyrir refsiverð brot eða fullnægja refsiviðurlögum, þ.m.t. að vernda gegn og koma í veg fyrir ógnir við almannaöryggi. Meðal lögbærra yfirvalda samkvæmt lögunum er héraðssaksóknari, sbr. 11. tölulið 2. gr. laganna.

Í a-lið 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að við vinnslu per­sónu­upp­lýsinga skuli gæta að því að þær séu unnar með lögmætum og sanngjörnum hætti og að vinnsla sé lögbæru yfirvaldi nauðsynleg vegna verkefna í lög­gæslutilgangi. Í þessu felst, samkvæmt athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 75/2019, að vinnslan verði að eiga sér stoð í lögum og vera nauðsynleg í löggæslutilgangi. Með ákvæðinu var lögmætisregla a-liðar 1. mgr. 4. gr. og 8. gr. fyrrgreindrar til­skipunar innleidd en samkvæmt síðarnefndu greininni skulu aðildarríkin kveða á um að vinnsla sé einungis lögmæt ef og að því marki sem hún er nauðsynleg til að lögbært yfirvald geti unnið verk í löggæslutilgangi svo og að hún grundvallist á lögum Evrópusambandsins eða aðildarríkis (sjá þskj. 932, 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls. 27).

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 4. gr. sömu laga skal við vinnslu persónu­upplýsinga gæta að því að þær séu fengnar í skýrt tilgreindum, lögmætum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi, en í athugasemdum í fyrrgreindu frumvarpi segir um ákvæðið að um sé að ræða tilgangsreglu persónuverndarréttar. Þar segir einnig að með áskilnaði um að tilgangurinn sé skýr sé átt við að hann skuli vera nægjanlega vel skilgreindur og afmarkaður til að vinnslan sé gagnsæ og auðskilin og komið sé í veg fyrir svo víðtæka tilgreiningu tilgangs að undir hann megi fella næstum hvað sem er, enda samrýmist slíkt ekki sjónar­miðum um persónuvernd. Þá kemur fram í athugasemdunum að ekki sé nóg að tilgangurinn sé skýr heldur þurfi hann einnig að vera málefnalegur (sjá þskj. 932, 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls. 27).

Í c-lið 1. mgr. 4. gr. laganna er kveðið á um meðalhóf. Þar segir að við vinnslu persónuupplýsinga skuli gæta að því að þær séu nægilegar, við­eigandi og ekki langt umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar. Í athugasemdum í fyrrgreindu frumvarpi segir að með því að áskilja að upplýsingarnar séu nægjanlegar og viðeigandi sé átt við að eðli þeirra og efni skuli þjóna yfirlýstum tilgangi. Ákvæðið mæli í raun fyrir um að vinnsla ábyrgðaraðila sé háð hlutfallssjónarmiði, sem sé kjarni meðalhófsreglunnar, en með því sé átt við að hún megi ekki ganga lengra en þörf krefur til að ná því markmiði sem ábyrgðaraðila er heimilt að ná. Samkvæmt reglunni skuli einungis vinna persónuupplýsingar ef ekki sé unnt að ná tilgangi með vinnslunni á annan aðgengilegan hátt (sjá þskj. 932, 149. löggjafarþingi 2018-2019, bls. 28).

Persónuvernd annast eftirlit með framkvæmd laga nr. 75/2019, sbr. 1. mgr. 30. gr. þeirra. Sérhver skráður einstaklingur eða fulltrúi hans hefur rétt til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd ef hann telur að vinnsla persónuupplýsinga um hann hjá lögbæru yfirvaldi brjóti í bága við ákvæði laganna, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglu­gerðar nr. 577/2020, um skrár lögreglu og vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi, sem sett er með stoð í lögum nr. 75/2019, á hinn skráði rétt á því að Persónuvernd staðreyni lögmæti vinnslunnar og tilkynni honum um þá endurskoðun eða annars konar sannprófun sem fram­kvæmd er. Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga nr. 75/2019 getur Persónuvernd að eigin frumkvæði eða í kjölfar kvörtunar skv. 2. mgr. greinarinnar fjallað um einstök mál og tekið í þeim ákvörðun, m.a. um það hvort til­tekin vinnsla falli undir gildissvið laganna.

Við eftirlitsstörf sín getur Persónuvernd krafið ábyrgðaraðila, vinnslu­aðila og, eftir atvikum, fulltrúa þeirra um hverjar þær upplýsingar sem hún þarfnast vegna framkvæmdar laganna, jafnt sem aðgang að öllum þeim gögnum, þar á meðal persónuupplýsingum, sem nauðsynleg eru, sbr. 1. mgr. 31. gr. laganna. Í athugasemdum við ákvæðið í fyrr­greindu frumvarpi segir m.a. að skýra verði það með hliðsjón af eðli þeirra upplýsinga sem um ræðir hverju sinni, ekki síst þegar um sé að ræða upplýsingar sem séu hluti af yfirstandandi rannsókn sakamáls (sjá þskj. 328, 49. löggjafarþing 2018-2019, bls. 45).

Persónuvernd getur jafnframt lagt fyrir ábyrgðaraðila að láta af vinnslu sem fer í bága við ákvæði umræddra laga eða sett skilyrði sem upp­fylla þarf til að vinnslan teljist lögmæt, þ.á m. mælt fyrir um að ábyrgðar­aðili eyði, leiðrétti eða takmarki vinnslu í samræmi við 14. til 16. gr. þeirra. Takmarkanir eða bann við frekari vinnslu getur verið tímabundið eða varanlegt, sbr. 3. mgr. 31. gr. laganna. Hinn skráði á rétt til að fá persónuupplýsingum, er varða hann sjálfan, eytt án óþarfa tafar ef í ljós kemur að vinnsla þeirra hefur brotið gegn 4. eða 6. gr. laganna eða ábyrgðaraðila er skylt að lögum að eyða upplýsingunum, sbr. 2. mgr. 14. gr. þeirra.

  

1.2 Lög um meðferð sakamála

Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, má leggja fyrir héraðsdóm ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda. Hið sama á við um ágreining um réttindi sakbornings, verjanda hans eða lögmanns, þ.á m. kröfu þeirra um tilteknar rann­sóknar­aðgerðir, ellegar réttindi brotaþola, réttargæslumanns hans eða lög­manns.

Í athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 88/2008 segir að um sum atriði sem eigi undir ákvæði 2. mgr. 102. gr. laganna séu sér­ákvæði annars staðar í frumvarpinu, þ.á m. í 69. og 74. gr. um heimild þess sem hald beinist að, eða húsleit er gerð hjá, til að skjóta ágreiningi þar að lútandi til dóms. Að öðru leyti sé í ákvæðinu að finna almenna heimild til að bera undir dóm þau ágreiningsatriði, sem ekki séu sérstök fyrirmæli um annars staðar, t.d. varðandi ýmis réttindi sak­bornings, verjanda eða lögmanns hans, sem um ræðir í IV. kafla frumvarpsins, ellegar réttindi brotaþola, réttargæslumanns eða lögmanns hans, sbr. V. kafla þess (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 1453).

     

2 Var úrskurður Persónuverndar í samræmi við lög?

Líkt og áður greinir hefur athugun umboðsmanns einkum beinst að því hvort úrskurður Persónuverndar hafi verið í samræmi við lög, en sem fyrr segir reisti stofnunin niðurstöðu sína um frávísun kvörtunar A efnislega á því að hún félli utan valdsviðs hennar þar sem efni hennar ætti undir dómstóla samkvæmt  2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008.

Áður hefur verið gerð grein fyrir því lögákveðna hlutverki Persónuverndar að annast eftirlit með framkvæmd laga nr. 75/2019, hvort heldur er að eigin frumkvæði eða í kjölfar kvörtunar. Í 2. mgr. 30. gr. laganna er sérstaklega mælt fyrir um rétt „skráðs einstaklings eða fulltrúa hans“ til þess að fá úr því skorið með kvörtun til stofnunar­innar hvort vinnsla persónuupplýsinga um hann hjá lögbæru yfirvaldi brjóti í bága við ákvæði laganna, en líkt og áður greinir fer ekki á milli mála að héraðssaksóknari fellur undir það hugtak. Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar verður að skýra téð ákvæði á þá leið að Persónuvernd beri almenn skylda til þess að fjalla efnislega um kvartanir borgaranna til stofnunarinnar sem lúta að vinnslu persónu­upp­lýsinga um þá hjá lögbæru yfirvaldi. Fær það ekki stoð í lögum nr. 75/2019 eða almennum reglum að sá réttur sé bundinn við það að meðferð sakamáls sé lokið, eins og Persónuvernd virðist ganga út frá í skýringum sínum til umboðsmanns. Fær það heldur hvorki stoð í lögunum, né almennum reglum stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar, að ákvæði 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, sem felur í sér almenna heimild en ekki skyldu til þess að leggja ágreining um lögmæti rannsóknarathafna lögreglu eða ákæranda fyrir héraðsdóm, standi því í vegi að Persónuvernd sé bær til þess að sinna því hlutverki sem mælt er fyrir um með lögum nr. 75/2019 og áður er gerð grein fyrir.

Með kvörtun sinni til Persónuverndar óskaði A að meginstefnu eftir því að fá úr því skorið hvort vinnsla héraðssaksóknara á tilteknum gögnum vegna rannsóknar sakamáls færi í bága við grunnreglur a., b. og c. liðar 1. mgr. 4. gr. laga nr. 75/2019. Í samræmi við áður­lýst fyrirmæli laga nr. 75/2019, eins og þau verða skýrð með hliðsjón af almennum reglum, bar stofnuninni að taka efnislega afstöðu til þess hvort umrædd vinnsla persónuupplýsinga ætti sér stoð í lögum og sam­ræmdist að öðru leyti fyrirmælum laga nr. 75/2019. Er það þar af leiðandi álit mitt að úrskurður Persónuverndar í máli A, þar sem kvörtun hennar var vísað frá án þess að tekin væri efnisleg afstaða til hennar, hafi ekki verið í samræmi við lög. Ég tek þó fram að með þeirri niðurstöðu felst engin afstaða til þess hvort umrædd vinnsla héraðs­saksóknara á persónuupplýsingum hafi farið í bága við lög nr. 75/2019.

  

3 Var málsmeðferð Persónuverndar í samræmi við lög?

Fyrir liggur að A leitaði til Persónuverndar 9. mars 2020, en úrskurður stofnunarinnar er dagsettur 1. október 2021 eða rúmum 18 mánuðum eftir að kvörtunin barst. Í niðurlagi fyrrgreinds úrskurðar Persónu­verndar er viðurkennt að fyrirspurnum um stöðu málsins og afhendingu gagna hafi ekki verið svarað innan ásættanlegs tíma, en ástæður þess hafi einkum verið mikið álag undanfarin misseri, mikill mála­fjöldi og undirmönnun til lengri tíma. Þá kemur einnig fram að leyfi starfsmanna hafi haft áhrif á meðferð málsins.

Samkvæmt framangreindu verður að líta svo á að fyrir liggi viðurkenning Persónuverndar á því að afgreiðsla málsins hafi dregist um of og meðferð málsins hafi þannig ekki verið í samræmi við málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ég bendi þó á að þegar stofnun telur erindi falla utan valdssviðs síns þannig að vísa beri því frá án efnislegrar málsmeðferðar verður að gera ríkari kröfur en ella til málshraða. Þá athugast að leyfi starfsmanna geta almennt ekki rétt­lætt tafir á afgreiðslu mála heldur verður að haga skiptingu verkefna milli starfsmanna, skipulagi leyfa og ráðstöfunum vegna þeirra á þann hátt að unnt sé að afgreiða mál innan hæfilegs tíma, sjá t.d. álit umboðs­manns Alþingis frá 29. desember 2017 í máli nr. 8749/2015. Sé raunin sú að stjórnvald telji sig ekki geta framkvæmt þau verkefni sem því eru falin innan lögmælts frests eða að öðru leyti í samræmi við megin­reglu stjórnsýsluréttar um málshraða verður að gera þá kröfu að það geri nauðsynlegar ráðstafanir til að úr verði bætt, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis frá 26. nóvember 2002 í máli nr. 3508/2002.

Í ljósi þess að Persónuvernd hefur viðurkennt óhæfilegan drátt á meðferð málsins og beðist afsökunar læt ég við það sitja að benda stofnuninni á fyrrgreind sjónarmið.

  

V Niðurstaða

Það er álit mitt að úrskurður Persónuverndar 1. október 2021 í máli nr. 2020031134, þar sem kvörtun A var vísað frá án efnislegrar með­ferðar, hafi ekki verið í samræmi við lög. Sú niðurstaða byggist einkum á því að ég tel 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð saka­mála, ekki standa því í vegi að Persónuvernd fjalli um kvartanir borgaranna viðvíkjandi ætlaðri ólögmætri vinnslu persónuupplýsinga hjá lögbæru yfirvaldi með þeim hætti sem mælt er fyrir um í lögum nr. 75/2019, um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi. Þá tel ég að sá óhæfilegi dráttur sem varð á afgreiðslu málsins og Persónuvernd hefur í reynd viðurkennt gefi samt sem áður tilefni til að benda stofnuninni á þau almennu sjónarmið sem gilda um skilvirka málsmeðferð stjórnvalda, sbr. einkum 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í samræmi við framangreint beini ég þeim tilmælum til Persónu­verndar að hún taki mál A til meðferðar að nýju, komi fram beiðni þess efnis frá henni, og leysi þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem hafa verið rakin í álitinu. Jafnframt beini ég því til stofnunarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram.

 

 

 

VI Viðbrögð stjórnvalda

Persónuvernd tók málið aftur til meðferðar eftir beiðni þess efnis og komst að þeirri niðurstöðu að vinnsla embættis héraðssaksóknara á persónuupplýsingum hefði samrýmst ákvæðum laga um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi.