Atvinnuleysistryggingar.

(Mál nr. 11639/2022)

Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta. 

Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns ákvað nefndin að taka málið upp að nýju og því ekki ástæða til að aðhafast frekar að svo stöddu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. maí 2022.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 1. apríl sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 3. mars sl. í máli nr. 648/2021 þar sem ákvörðun Vinnu­mála­stofnunar 28. október sl. um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til yðar var staðfest.

Í tilefni af kvörtun yðar voru úrskurðarnefnd velferðarmála rituð bréf 5. apríl og 9. maí sl. þar sem óskað var eftir annars vegar öllum gögnum málsins og hins vegar tilteknum upplýsingum og skýringum. Í svar­bréfi nefndarinnar 25. maí sl. kom fram að hún hefði komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að endurupptaka málið og að yður hefði verið tilkynnt um það.

Í ljósi þess að nefndin hefur endurupptekið mál yðar eru ekki efni til að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar að svo stöddu og læt ég því athugun minni á málinu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni nýrri niðurstöðu nefndarinnar er yður fært að leita til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.

   


  

Bréf umboðsmanns til úrskurðarnefndar velferðarmála 9. maí 2022.

   

Vísað er til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 3. mars sl. í máli nr. 648/2021.

Með vísan til 7. og. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er þess óskað að nefndin lýsi viðhorfi sínu til kvörtunarinnar, sem hér fylgir hjálögð í ljósriti, eftir því sem hún telur efni til. Einnig er óskað upplýsinga og skýringa í samræmi við eftirfarandi:

  1. Samkvæmt gögnum málsins lagði A fram læknisvottorð við meðferð málsins fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, en af úrskurðinum verður ekki ráðið að nefndin hafi fjallað um hvort og þá hvaða þýðingu vottorðið hefði við mat á lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Að teknu tilliti til þess að kærustjórnvaldi er að jafnaði rétt að líta til nýrra upplýsinga sem komið hafa fram eftir að hin kærða ákvörðun var tekin er þess óskað að nefndin skýri hvers vegna ekki var fjallað um áðurnefnt læknisvottorð í úrskurði nefndarinnar. Þess er enn fremur óskað að nefndin skýrt hvort og þá hvernig niðurstaða hennar byggðist á fullnægjandi grundvelli ef ekki var fjallað um téð læknisvottorð og þýðingu þess, m.a. með hliðsjón af ákvæði 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. 
  1. Samkvæmt gögnum málsins kærði A ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála 2. desember sl. Stofnunin staðfesti hins vegar fyrri ákvörðun 27. janúar sl. í framhaldi af því að hafa fallist á beiðni hans um endurupptöku málsins frá 24. sama mánaðar. Með hliðsjón af þessum atvikum og stöðu nefndarinnar gagnvart Vinnumálastofnun er þess óskað að nefndin skýri hvort hún telji að ákvörðun stofnunarinnar um að endurupptaka málið meðan það var til meðferðar hjá nefndinni hafi samræmst almennum reglum stjórnsýsluréttar og hvers vegna hún taldi ekki efni til að fjalla um þennan þátt málsins í úrskurðinum.

Þess er óskað að umbeðnar upplýsingar og skýringar berist umboðsmanni Alþingis eigi síðar en 27. maí nk.