Börn.

(Mál nr. 11545/2022)

Kvartað var yfir afgreiðslu Innheimtustofnunar sveitarfélaga á erindi vegna greiðslu meðlagsskuldar.

Þar sem stjórnin ákvað að fella niður hluta meðlagsskuldar vegna fyrningar var ekki tilefni fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. maí 2022.

   

   

Vísað er til kvörtunar yðar 7. febrúar sl. yfir afgreiðslu stjórnar Inn­heimtustofnunar sveitarfélaga á fundi hennar 4. febrúar sl. á erindi yðar sem laut að greiðslu meðlagsskuldar.

Í tilefni af kvörtun yðar var stjórn stofnunarinnar ritað bréf 28. febrúar þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvort tekin hefði verið afstaða til þess hvort meðlagsskuld yðar væri fyrnd, s.s. fram kom í erindi yðar til stofnunarinnar, og ef svo væri, skýrði þá afstöðu og lagagrundvöll hennar. Hefði stjórnin ekki tekið afstöðu til þessa atriðis var þess óskað að hún útskýrði á hvaða lagagrundvelli það byggðist.

Svör bárust með bréfi 31. mars sl. Þar er þeirri afstöðu stjórnar lýst að kröfur vegna greiðslu meðlags sem féllu fyrir 3. desember 1995 séu fyrndar. Segir í svarinu að þær kröfur, sem nema samtals 877.887 krónum verði felldar niður. Þá kemur fram að dráttarvextir vegna þeirra krafna hafi áður verið felldir niður. Var yður sent afrit af svari stjórnarinnar.

Þar sem stjórn Innheimtustofnunarinnar hefur nú brugðist við erindi yðar er ekki tilefni til þess að afhafast frekar vegna áður­greindrar kvörtunar yðar og læt ég því athugun minni vegna hennar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  


  

Bréf umboðsmanns til Innheimtustofnunar sveitarfélaga 28. febrúar 2022

   

Til umboðsmanns Alþingis hefur leitað A með kvörtun sem beinist að Innheimtustofnun sveitarfélaga og varðar samning um greiðslu meðlagsskuldar hans, sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 54/1971, um Innheimtustofnun sveitarfélaga, og afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á erindi hans þar að lútandi á fundi hennar 4. febrúar sl. Þar samþykkti stjórnin að fella niður skuld A að hluta. Auk þess var samþykkt að A greiddi áfram hálft meðlag á mánuði næstu þrjú árin.

Tilefni umfjöllunar stjórnar stofnunarinnar um meðlagsskuld A var erindi hans þar að lútandi frá 27. desember sl. Laut erindið að samkomulagi hans um greiðslu meðlagsskuldar frá árinu 2011, líkt og afgreiðsla stjórnar ber með sér. Af erindinu verður þó einnig ráðið að hann hafi borið því við að meðlagsskuld hans sé fyrnd. Af tilkynningu um afgreiðslu stjórnarinnar á beiðni A verður á hinn bóginn ekki ráðið hvort tekin hafi verið afstaða til síðarnefnda atriðisins.

Í tilefni af framangreindu, og með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er þess óskað að stjórn stofnunarinnar upplýsi umboðsmann um hvort tekin hafi verið afstaða til þess hvort meðlagsskuld A sé fyrnd, og ef svo er, upplýsi umboðsmann um þá afstöðu og þau lagasjónarmið sem hún byggist á. Hafi stjórnin ekki tekið afstöðu til þessa atriðis er þess óskað að stjórnin skýri nánar á hvaða lagagrundvelli það byggist.

Þess er óskað að svör berist eigi síðar en 21. mars nk.