Menntamál. Háskólar. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 11384/2021)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema sem hafnaði öllum kröfum A, en þær lutu að ákvörðunum forseta Raunvísinda­deildar og forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands. Með þeim var A annars vegar gefin einkunnin 0,0 fyrir lokapróf í X-námskeiði, réttur hans til að þreyta endurtökupróf felldur niður og honum gert að sitja námskeiðið aftur hygðist hann ljúka því. Hins vegar var A áminntur fyrir brot á reglum skólans. Málið átti upphaf sitt í því mati kennara námskeiðsins á prófúrlausn A að hann hefði notast við úrlausn frá tilgreindri vefsíðu í andstöðu við prófreglur. Áfrýjunarnefndin komst m.a. að þeirri niðurstöðu að hún væri hvorki bær né hefði sérfræðilega þekkingu til að endurmeta þá niðurstöðu Háskóla Íslands að A hefði svindlað á umræddu lokaprófi. Athugun umboðsmanns beindist einkum að þeirri afstöðu nefndarinnar.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lagaákvæðum um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema. Benti hann á að samkvæmt lögum um háskóla endurmeti nefndin ekki prófúrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Umboðsmaður taldi að af gögnum málsins yrði ekki annað ráðið en að það hefði verið mat kennara X-námskeiðs á prófúrlausn A að hann hefði notast við úrlausn frá tilgreindri vefsíðu í andstöðu við prófreglur. Þetta mat, sem álitsgjafi og deildarforseti hefðu tekið undir, byggðist á faglegri þekkingu umræddra aðila á tilteknu sviði og það hefði verið samofið mati kennarans á prófúrlausn A. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá efnislegu afstöðu nefndarinnar að það félli utan hlutverks hennar, eins og það væri afmarkað í lögum, að leggja mat á þá niðurstöðu að A hefði við úrlausn á hinu umdeilda prófverkefni eftirritað lausn af tiltekinni vefsíðu og þannig svindlað á prófinu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 10. júní 2022.

  

  

I

Vísað er til kvörtunar yðar 7. nóvember sl. fyrir hönd A yfir úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema 8. október sl. í máli nr. 3/2021. Samkvæmt úrskurðarorði var öllum kröfum A hafnað, en þær lutu að ákvörðunum forseta Raunvísindadeildar og forseta Verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands 16. mars og 20. apríl sama ár.

Samkvæmt fyrrnefndu ákvörðuninni var það niðurstaða forseta Raun­vísindadeildar að gefa A einkunnina 0,0 fyrir loka­próf í námskeiðinu X, fella niður rétt hans til að þreyta endur­tökupróf og yrði hann að sitja námskeiðið aftur hygðist hann ljúka því. Í framhaldinu ákvað forseti Verkfræði- og náttúruvísindasviðs að áminna A fyrir það brot á reglum skólans sem hefði verið stað­fest með niðurstöðu deildarforseta. Um þau atvik sem bjuggu að baki téðum ákvörðunum og málsmeðferð vegna þeirra var einnig fjallað í úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema 4. janúar 2021 í máli nr. 4/2020.

Í kvörtun yðar er þess farið á leit við umboðsmann Alþingis að hann skoði málið heildstætt og sérstaklega tilgreindar spurningar yðar í átta liðum um afmarkaða þætti málsins. Af því tilefni skal þess getið að með vísan til ákvæða laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hefur athugun embættisins verið afmörkuð við það hvort fyrrgreindur úrskurður áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema 8. október sl. samræmist lögum, einkum þeirri afstöðu nefndarinnar að hún sé hvorki bær né hafi sér­fræðilega þekkingu til að endurmeta þá niðurstöðu Háskóla Íslands að A hafi svindlað á umræddu lokaprófi.

  

II

Mál þetta er að rekja til þess að grunur vaknaði um að A hefði svindlað á lokaprófi í námskeiðinu X sem haldið var 30. apríl 2020. Um þetta sagði í ódagsettu bréfi kennara að þegar hann hefði lokið yfirferð á lokaprófi og gefið einkunnir, áður en þær voru birtar, hefðu honum borist upplýsingar um að prófið hefði verið sett í heild sinni inn á tilgreinda vefsíðu. Þar hefði mátt finna lausnir á öllum verkefnum prófsins, að einu tilgreindu verkefni undanskildu. Kennari hefði skoðað úrlausnir verkefnanna á vef­síðunni og borið saman við lausnir nemenda. Því næst sagði orðrétt í bréfinu:

„Kennari telur að stúdentinn [A], kt. [...], hafi notað lausnirnar frá [tilgreindri vefsíðu] í einu af verk­efnum prófsins, þ.e. verkefni 5, og mögulega haft lausnirnar til hlið­sjónar í öðrum verkefnum.

 Verkefni 5.

Verkefnið var í fjórum liðum a), b), c) og d). Lausn [A] á lið a) er alfarið endurritun á netlausnum merktum d5-nr.1.png og d5-nr.1.2.png og fylgir þýðing hans á skýringum með netlausnunum á ensku yfir á íslensku með þannig að ekki er um að villast.“

Við meðferð málsins aflaði deildarforseti álits B, doktors í Y, á því hvort líkindi með lausn A á verk­efni 5 a) og lausn á sama dæmi af umræddri vefsíðu væru það mikil að ástæða væri til að ætla að lausn hans væri afrituð af lausninni sem hefði fundist á vefsíðunni eða hún hefði verið notuð til hliðsjónar við úr­lausnir A á prófinu.

Niðurstaða B samkvæmt áliti 14. júní 2020 var svohljóðandi: „Það er mitt álit að hafið sé yfir allan vafa að prófverkefni 5 a) hafi verið leyst með eftirritun og þýðingu úr ensku á þeirri netlausn verk­efnisins sem er að finna á [tilgreindri vefsíðu] og fylgir með máls­gögnum.“ Um það sagði nánar í álitinu að lausn A á verkefninu gæfi við fyrstu sýn ekki tilefni til grunsemda um brot á prófreglum. Hún væri í meginatriðum rétt, en ekki gallalaus. Grunsemdir vakni þegar lausnin sé borin saman við netlausnina frá vefsíðunni. Það sé eftir­tektar­vert að uppsetning, orðalag og gallar úrlausnarinnar séu svo gott sem nákvæmlega þeir sömu og í netlausninni. Líkindin í minnstu smá­atriðum séu svo mikil að það verði að teljast frámunalega ólíklegt að þau séu tilkomin fyrir tilviljun.

Í fyrrgreindri ákvörðun deildarforseta 16. mars 2021 var enn fremur ítarlega rökstutt að [A] hefði leyst úr prófverkefninu með eftirritun úrlausnar frá umræddri vefsíðu. Byggðist áðurgreind ákvörðun sviðsforseta 20. apríl þess árs á þeirri niðurstöðu.

Í úrskurði áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema 8. október sl. var vísað til þess að samkvæmt 2. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, endurmeti nefndin ekki prófúrlausnir eða faglega niður­stöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara. Þá sagði að hin umdeila niðurstaða um lausn A byggði á sérfræðilegu mati á próf­úrlausninni. Af því leiddi að nefndin væri hvorki bær né hefði sérfræðilega þekkingu til þess að endurmeta þá niðurstöðu að hann hefði við úrlausn á hinu umdeilda prófverkefni eftirritað lausn af umræddri vefsíðu. Aftur á móti gæti nefndin leyst úr því hvort ákvörðunin byggði á fullnægjandi laga­grundvelli og hvort málsmeðferð og efnisleg úrlausn væri í samræmi við skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins. Það var svo niðurstaða nefndarinnar að gætt hefði verið að efnis- og málsmeðferðareglum stjórnsýsluréttar við meðferð málsins og kröfum A því hafnað.

Í skýringum nefndarinnar 10. janúar sl. til umboðsmanns Alþingis var fyrrgreind afstaða áréttuð og nánar skýrð.

  

III

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, er Háskóli Íslands sjálfstæð ríkis­stofnun. Af því leiðir m.a. að stjórnvaldsákvörðunum skólans verður ekki skotið til annars stjórnvalds nema samkvæmt sérstakri lagaheimild og þá aðeins að því marki sem þar er kveðið á um.

Í 1. mgr. 19. gr. síðarnefndu laganna segir að háskólaráð setji, að fenginni umsögn heildarsamtaka nemenda innan háskólans, reglur um réttindi og skyldur nemenda, þ.m.t. um mál­skotsrétt þeirra innan háskólans. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal nemandi forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða framkomu sinni innan og utan skólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla. Í 3. mgr. greinarinnar er því næst kveðið á um að gerist nemandi sekur um háttsemi samkvæmt 2. mgr. eða sem er andstæð lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim skuli forseti þess skóla þar sem hann er skráður til náms taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvar­leika brots geti forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brott­rekstur er tekin skuli gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda sé heimilt að skjóta ákvörðun forseta til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla. Um réttindi og skyldur nemenda við Háskóla Íslands og aga­viður­lög er m.a. fjallað nánar í 51. gr. reglna fyrir skólann nr. 569/2009.

Um áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema er fjallað í 20. gr. fyrrnefndra laga nr. 63/2006, sbr. einnig reglur um störf hennar nr. 550/2020. Í 1. mgr. 1. gr. reglnanna er mælt fyrir um, í fjórum stafliðum, að nefndin úrskurði í málum þar sem háskólanemar telja brotið á rétti sínum vegna m.a. framkvæmdar prófa og námsmats, þ.m.t. fyrir­lagnar prófa, tilhögunar einkunnagjafar, skipunar prófdómara og birtingar einkunna; mats á námsframvindu, þ.m.t. rétti til endur­töku­prófs; afgreiðslu umsókna um skólavist, þ.m.t. tilhögun mats á námi á milli skóla; og brottvikningar nemenda úr skóla og beitingar annarra aga­viðurlaga. Í 2. mgr. sömu greinar reglnanna, sbr. einnig 3. mgr. 20. gr. téðra laga nr. 63/2006, endurmetur áfrýjunarnefndin hins vegar ekki próf­úrlausnir eða faglega niðurstöðu kennara, dómnefnda eða prófdómara.

Líkt og áður greinir átti málið upphaf sitt í því mati kennara námskeiðsins X á prófúrlausn A 30. apríl 2020 að hann hefði notast við úrlausn frá tilgreindri vefsíðu í andstöðu við prófreglur. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að þetta mat, sem síðar hefur verið tekið undir af álitsgjafa og deildar­forseta, hafi byggst á fag­legri þekkingu umræddra aðila á téðu sviði og það hafi verið samofið mati kennarans á prófúrlausn A. Þótt mælt sé fyrir um það í 6. gr. fyrrgreindra reglna nr. 550/2020 að áfrýjunar­nefndinni sé heimilt að kveðja sér til fulltingis sérfróða aðila við úrskurð einstakra mála tel ég að samkvæmt 3. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006 hafi það ekki verið á valdsviði nefndarinnar að endurmeta þessa faglegu niðurstöðu. Með vísan til þessa tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá efnislegu afstöðu nefndarinnar að það falli utan hlut­verks hennar, eins og það er afmarkað í lögum, að leggja mat á þá niðurstöðu að [A] hefði við úrlausn á hinu umdeilda próf­verkefni eftirritað lausn af umræddri vefsíðu og þannig svindlað á prófinu.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég að öðru leyti ekki efni til að fjalla sérstaklega um þá niðurstöðu nefndarinnar að gætt hafi verið að efnis- og máls­meðferðar­reglum stjórnsýsluréttar.

  

IV

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. a- og b-liði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.