A ehf. leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir því að ráðherra viðskiptamála hefði ekki endurskoðað hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar samkvæmt reglugerð nr. 37/2009, um hámarksfjárhæð innheimtu-kostnaðar o.fl., frá árinu 2010. Byggðist kvörtunin á því að ráðherra væri að eigin frumkvæði skylt að endurskoða fjárhæðirnar reglulega.
Umboðsmaður tók fram að markmið innheimtulaga nr. 95/2008 væri að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi, þ.á m. með því að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar sem heimilt er að krefja skuldara um. Í samræmi við það væri í 12. gr. laganna mælt fyrir um að ráðherra geti ákveðið í reglugerð hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, en jafnframt að fjárhæðin skyldi taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist.
Ráðherra væri skylt að taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist, nýtti hann þá heimild sem honum er falin til að ákvæða hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar. Að því leyti væri ráðherra þó falið mat um það hvaða kostnaður væri nauðsynlegur og hóflegur. Af lögskýringargögnum yrði jafnframt ráðið að þær hámarksfjárhæðir, sem kynnu að verða ákveðnar með reglugerð, gætu verið lægri en þær sem kröfuhafi og innheimtuaðili semdu um sín á milli. Var það niðurstaða umboðsmanns að það væri ekki andstætt fyrirmælum innheimtulaga þótt þær hámarksfjárhæðir sem mælt væri fyrir um í reglugerðinni séu nokkuð lægri en raunverulegur kostnaður innheimtuaðila, sem kröfuhafi eftir atvikum samþykkir að greiða að hluta. Loks kom fram að við mat á því hvort ráðherra væri skylt að endurskoða hámarksfjárhæðir reglugerðarinnar væri óhjákvæmilegt að líta til þess að í 12. gr. innheimtulaga væri ekki kveðið á um slíka skyldu berum orðum, ólíkt því sem gert er í ýmsum öðrum lögum með einum eða öðrum hætti. Þótt athafnir ráðherra í þessu sambandi verði að byggjast á viðhlítandi upplýsingaöflun og málefnalegum sjónarmiðum, þannig að efni reglugerðarinnar samræmist ákvæðum 12. gr. innheimtulaga miðað við aðstæður á hverjum tíma, væru ekki efni til að gera athugasemdir við þá afstöðu ráðuneytisins að ekki hafi verið skylt að lögum að endurskoða hámarksfjárhæðirnar.
I
Vísað er til kvörtunar A ehf. 8. október 2020 yfir því að ráðherra viðskiptamála, nú menningar- og viðskiptaráðherra, hafi ekki endurskoðað hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 37/2009, um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl., frá árinu 2010. Byggist kvörtunin á því að ráðherra sé að eigin frumkvæði skylt að endurskoða fjárhæðirnar reglulega á grunni 12. gr. innheimtulaga nr. 95/2008, sbr. einnig 4. gr. reglugerðarinnar. Kvörtunin laut einnig að því að þáverandi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefði ekki svarað erindi félagsins 22. desember 2017 þar sem farið var fram á endurskoðun fjárhæðanna.
Samkvæmt kvörtuninni og gögnum málsins hefur A ehf. ítrekað óskað eftir því á undanförnum árum að ráðherra endurskoði téðar hámarksfjárhæðir í samræmi við lagaskyldu þar um. Á hinn bóginn hefur ráðuneytið lýst því að það hafi tekið erindi félagsins, og þau sjónarmið sem þar komi fram um hækkun hámarksfjárhæða innheimtukostnaðar, til skoðunar en hafi að svo stöddu ekki áform um að breyta fjárhæðunum. Ráðuneytið hefur m.a. andmælt því að slík skylda hvíli á ráðherra samkvæmt innheimtulögum.
Þar sem ráðuneytið svaraði fyrrgreindu erindi A ehf. 24. mars 2021, í framhaldi af fyrirspurnarbréfi embættis umboðsmanns Alþingis til ráðuneytisins, er umfjöllun umboðsmanns afmörkuð við áðurgreindan fyrri hluta kvörtunar félagsins.
II
Í athugasemdum í greinargerð þess frumvarps sem varð að innheimtulögum nr. 95/2008 segir að markmiðið með frumvarpinu sé einkum að setja ákveðnar meginreglur um innheimtu til hagsbóta fyrir neytendur, m.a. ákvæði um góða innheimtuhætti og innheimtuviðvörun, og draga úr óeðlilegum kostnaði skuldara vegna innheimtuaðgerða á frumstigi, t.d. með því að takmarka í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja hann um (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 2766).
Í samræmi við þessi markmið er mælt fyrir um það í 12. gr. laganna að ráðherra geti ákveðið í reglugerð hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar, m.a. þóknunar, sem heimilt er að krefja skuldara um samkvæmt lögunum. Því næst segir: „Skal fjárhæðin taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist.“ Í athugasemdum við greinina í því frumvarpi er varð að lögum nr. 95/2008 segir m.a. að í 2. málslið sé það skilyrði sett að hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar skuli taka mið af öllum þeim kostnaði sem kröfuhafi verði fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur geti talist. Því sé bætt við í frumvarpinu að kostnaðurinn geti einnig talist hóflegur. Þá segir m.a. að með því að setja ákvæði um hámark þóknunar megi stuðla að því að kröfur á hendur skuldara, þar sem skuldari hefur ekkert val um innheimtuaðila, verði ekki strax sendar í óeðlilega dýra innheimtu á kostnað hans. Því næst segir að „[k]jósi kröfuhafi að greiða umframþóknun [geti] hann það“ (Alþt. 2007-2008, A-deild, bls. 2772).
Á grundvelli 12 gr. innheimtulaga, sbr. einnig 21. gr. laganna, setti ráðherra fyrrgreinda reglugerð nr. 37/2009. Í 4. gr. hennar segir að hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar, m.a. innheimtuþóknun, sem ráðherra ákveði í reglugerðinni taki mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist, sbr. 12. gr. laganna. Í 6. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar vegna innheimtu gjaldfallinna peningakrafna ef sá kostnaður er innheimtur hjá skuldara. Fjárhæðirnar voru hækkaðar með reglugerð nr. 133/2010 en hafa ekki verið endurskoðaðar eftir það.
Samkvæmt orðalagi 12. gr. innheimtulaga er ljóst að ákveði ráðherra að nýta þá heimild sem honum er falin, til að ákveða hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar með reglugerð, er honum skylt að taka mið af þeim kostnaði sem kröfuhafi verður fyrir vegna innheimtunnar og nauðsynlegur og hóflegur getur talist. Af því orðalagi sem kemur fram í niðurlagi 2. málsliðar greinarinnar, svo og fyrrgreindum athugasemdum við hana, er bæði ljóst að ráðherra er falið mat um það hvaða kostnaður sé „nauðsynlegur og hóflegur“ og gert var ráð fyrir að þær hámarksfjárhæðir, sem kynnu að verða ákveðnar með reglugerð, gætu verið lægri en þær sem kröfuhafi og innheimtuaðili semdu um sín á milli.
Að þessu virtu, einkum að teknu tilliti til þess svigrúms til mats sem ráðherra nýtur, svo og áðurgreindra markmiða þess frumvarps sem varð að lögum nr. 95/2008, verður því að leggja til grundvallar að það sé ekki andstætt fyrirmælum laganna þótt umræddar hámarksfjárhæðir, sem heimilt er að krefja skuldara um vegna kostnaðar af frum- og milliinnheimtu, séu nokkuð lægri en raunverulegur kostnaður innheimtuaðila, sem kröfuhafi eftir atvikum samþykkir að greiða að hluta. Við mat á því hvort ráðherra hafi verið skylt að endurskoða umræddar hámarksfjárhæðir á grunni 12. gr. laganna er enn fremur óhjákvæmilegt að líta til þess að í greininni er ekki kveðið á um slíka skyldu berum orðum, ólíkt því sem gert er í ýmsum öðrum lögum með einum eða öðrum hætti. Þótt athafnir ráðherra í þessu sambandi verði sem endranær að byggjast á viðhlítandi upplýsingaöflun og málefnalegum sjónarmiðum, þannig reglugerð hans samræmist ákvæðum 12. gr. laganna miðað við aðstæður á hverjum tíma, tel ég því ekki efni til að gera athugasemdir við fyrrgreinda afstöðu ráðuneytisins þess efnis að ekki hafi verið skylt að lögum að endurskoða hámarksfjárhæðir innheimtukostnaðar samkvæmt reglugerð nr. 37/2009.
III
Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um málið, sbr. a- og b-liði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti án tilmæla 10. júní 2022.