Heilbrigðismál. Eftirlitshlutverk landlæknis. Heilbrigðisþjónusta. Læknisvottorð.

(Mál nr. 11296/2021)

A leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins. Samkvæmt úrskurðinum var kæru A vegna niðurstöðu landlæknis í eftirlitsmáli vísað frá. Úrskurður ráðuneytisins byggðist einkum á því að kvörtun A til landlæknis vegna vottorðs sem læknir gaf út um hana að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997 lyti ekki að heilbrigðisþjónustu. Því væri ekki fyrir hendi kæruheimild til ráðuneytisins.

Í áliti umboðsmanns kom fram að það væri þáttur í eftirlitshlutverki landlæknis að notendum heilbrigðisþjónustu væri samkvæmt lögum um landlækni og lýðheilsu heimilt að beina formlegri kvörtun til hans vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu eða ef þeir teldu að framkoma heilbrigðisstarfsmanns við veitingu þjónustunnar hefði verið ótilhlýðileg. Samkvæmt orðalagi laganna yrði að meta hvort kvörtun beindist að veitingu heilbrigðisþjónustu. Í skilningi laganna væri með hugtakinu átt við hvers kyns heilsugæslu, lækningar, hjúkrun, almenna og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, sjúkra­flutninga, hjálpar­­tækjaþjónustu og þjónustu heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðis­stofnana sem veitt væri í því skyni að efla heil­brigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga. 

Umboðsmaður rakti að samkvæmt lögum um heilbrigðisstarfsmenn bæri þeim að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vissu sönnur á og væri nauðsynlegt í hverju tilviki. Með hliðsjón af því hvernig hugtakið „heilbrigðisþjónusta“ væri skilgreint í lögum yrði að meta það hverju sinni hvort það væri heilbrigðisþjónusta þegar heilbrigðisstarfsmaður gæfi út m.a. vottorð. Að því leyti kynni að hafa þýðingu hvort vottorð væri unnið að beiðni þriðja aðila. Tók umboðsmaður fram að í lögskýringargögnum kæmi fram að læknisvottorð væru að jafnaði mikilvægustu sönnunargögnin í málum til sviptingar lögræðis og að gera yrði þá kröfu að læknir hefði nýlega skoðað eða a.m.k. rætt við varnaraðila í tengslum við útgáfu vottorðs að því leyti.

Þar sem vottorðið um heilsufar A var gefið út af lækni sem hafði í u.þ.b. tvö ár verið með hana til meðferðar og byggðist á eigin athugunum hans og rannsóknum sem hann hafði látið framkvæma í því skyni að greina og meðhöndla sjúkdómsástand hennar, svo og með hliðsjón af því að ekki varð annað ráðið af vottorðinu en að hann hefði talið skilyrði uppfyllt til að svipta A sjálfræði til að koma við læknismeðferð, var það niðurstaða umboðsmanns að vottorð læknisins hefði verið liður í þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann veitti A. Hún hefði því átt lögvarinn rétt til að kvarta til landlæknis yfir ætluðum mistökum hans við þá greiningu á heilsufari hennar sem kom fram í vottorðinu.

Umboðsmaður beindi því til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin voru í álitinu.

    

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 29. júní 2022. 

  

     

I Kvörtun og afmörkun athugunar

Hinn 9. september 2021 leitaði A til umboðsmanns Alþingis með kvörtun yfir úrskurði heilbrigðisráðuneytisins nr. 9/2021 frá 27. ágúst þess árs. Samkvæmt úrskurðinum var kæru hennar vegna niðurstöðu landlæknis 23. ágúst 2019 vísað frá. Úrskurður ráðuneytisins byggðist einkum á því að kvörtun A til landlæknis vegna vottorðs, sem læknir gaf út um hana að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997, lyti ekki að heilbrigðisþjónustu og því væri ekki fyrir hendi kæruheimild til ráðuneytisins. Athugun umboðsmanns hefur beinst að þessari afstöðu ráðuneytisins. Við meðferð málsins hjá embættinu féll A frá en með hliðsjón af almennri þýðingu málsins hef ég ákveðið að ljúka athugun á því með áliti með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

  

II Málavextir

Með úrskurði Landsréttar 8. mars 2019 í máli nr. 99/2019 var staðfestur úrskurður héraðsdóms 23. janúar þess árs um að hafna kröfu dætra A um að hún yrði svipt lögræði tímabundið í fimm ár. Sama niðurstaða varð í úrskurði Landsréttar 18. júní 2020 í máli nr. 341/2020 í tilefni af kröfu um að hún yrði svipt fjárræði. Við meðferð fyrrnefnda málsins í héraði gaf öldrunarlæknir út vottorð 22. maí 2018 að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997 en um vottorðið var fjallað í téðum úrskurði héraðsdóms.

Í vottorði læknisins var rakið að A hefði verið í eftirliti á X frá árinu 2014, þar af hjá um­ræddum lækni frá árinu 2016. Fjallað var um heilsufar hennar á þessu tíma­bili og að hún hefði lítið viljað fara eftir ráðleggingum lækna um meðferð. Þá sagði að síðasta árið hefði henni farið hratt versnandi, [...]. Því næst kom fram að A hefði síðast verið hjá lækninum 31. október 2017 og hefði þá komið í ljós á prófum að [...]. Að lokum kom eftirfarandi fram: 

„Ég tel að ástand hennar sé það slæmt nú að hún geti ekki séð um sín fjármál sjálf og tel ég mjög hæpið að m.t.t. hennar öryggis að hún geti séð um sig sjálf eins og staðan er orðin þegar hún var hjá mér síðast, átti síðar tíma hjá mér en mætti ekki.

     Tel að þurfi að skipa talsmann til að gæta hagsmuna hennar.

     Efast einnig um að það hafi nokkurn tilgang að kalla hana fyrir dóm.“

A kvartaði til landlæknis yfir vottorðinu 24. október 2018 á þeim grunni að læknirinn hefði með útgáfu þess gert mistök við veitingu heilbrigðisþjónustu, sbr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýð­heilsu. Með kvörtuninni fylgdi bréf hennar 17. sama mánaðar þar sem hún gerði athugasemdir við efni vottorðsins, þ.á m. að það hefði verið gefið út sex mánuðum eftir að hún hafði hitt lækninn. Í umsögn læknisins 15. mars 2019, sem landlæknir aflaði í tilefni af kvörtuninni, fjallaði hann frekar um þau kynni sín af A sem bjuggu að baki áliti hans í vottorðinu.

Í niðurstöðu landlæknis 23. ágúst 2019, sem ber heitið „Niðurstaða eftirlitsmáls“ og byggðist á 13. gr. laga nr. 41/2007, kom fram að vottorðið uppfyllti allar skyldur laga og reglna sem giltu um útgáfu læknisvottorða. Í framhaldi af því að A leitaði til umboðs­manns Alþingis með kvörtun yfir þessari niðurstöðu kærði hún hana til heil­brigðisráðuneytisins.

Í fyrrgreindum úrskurði ráðuneytisins 27. ágúst 2021 vegna kæru A sagði að taka yrði afstöðu til þess hvort rétt hefði verið af landlækni að leggja málið í annan farveg og þá sem kvörtunarmál samkvæmt 12. gr. laga nr. 41/2007. Í því sambandi yrði m.a. að leggja mat á hvort atvik í málinu teldust veiting heilbrigðisþjónustu og landlækni hefði þannig borið að skera úr um hvort mistök eða vanræksla hefði átt sér stað við útgáfu vottorðsins. Því næst var fjallað um hugtakið heilbrigðisþjónustu í skilningi laga nr. 41/2007:

„Af skilgreiningu á hugtakinu heilbrigðisþjónusta í lögum um land­lækni og lýðheilsu verður ekki ráðið hvort ákvæðið eigi aðeins við um heilbrigðisþjónustu sem veitt sé sjúklingi með beinum hætti í hans þágu eða hvort ákvæðið taki einnig til atvika eins og í máli þessu, þar sem vottorð er gefið út að beiðni þriðja aðila. Með hliðsjón af framangreindum lagaákvæðum og orðalagi 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu er það þó mat ráðuneytisins að veiting heilbrigðisþjónustu feli almennt í sér bein samskipti milli sjúklings og heilbrigðisstarfsmanns eða heilbrigðis­stofn­unar sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrir­byggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis nr. 6767/2011.“

Um vottorðið sagði því næst í úrskurðinum að fyrir lægi að það hefði aðeins falið í sér yfirferð á þeim gögnum sem lágu fyrir um heilsu­far A eftir að eftirlit með henni hófst árið 2014. Útgáfa vott­orðsins hefði auk þess ekki verið liður í því að efla heilbrigði hennar, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endur­hæfa hana heldur mat læknis á heilsufari A með tilliti til fjárræðis að beiðni þriðja aðila. Væri það mat ráðuneytisins, eins og atvikum í málinu væri háttað, að útgáfa vottorðsins hefði ekki falið í sér veitingu á heilbrigðisþjónustu í skilningi 12. gr. laga nr. 41/2007. Landlækni hefði þannig ekki borið að afgreiða málið á grundvelli 2. mgr. greinar­innar og þar sem A gæti ekki kært niður­stöðu á grundvelli 13. gr. sömu laga til ráðuneytisins yrði kærunni vísað frá.

  

III Samskipti umboðsmanns Alþingis og heilbrigðisráðuneytisins

Heilbrigðisráðuneytinu var ritað bréf 6. október 2021. Þar var þess óskað að ráðuneytið afhenti öll gögn málsins og skýrði nánar þá afstöðu að það hefði ekki verið heilbrigðisþjónusta í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, þegar áðurlýst læknisvottorð var gefið út um A að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997.

Í svari ráðuneytisins 27. sama mánaðar var fjallað um 11. gr. lögræðislaga. Því næst sagði eftirfarandi um hugtakið heilbrigðis­þjónustu: 

„Á grundvelli 2. mgr. 12. gr. [laga um landlækni og lýðheilsu] er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Verður kvörtun á grundvelli ákvæðisins aðeins tekin til meðferðar ef hún lýtur að veitingu heilbrigðisþjónustu í skilningi laganna. Hugtakið heilbrigðisþjónusta er skilgreint í 2. tölul. 3. gr. laganna sem hvers kyns heilsugæsla, lækningar, hjúkrun, almenn og sérhæfð sjúkrahúsþjónusta, sjúkraflutningar, hjálpartækjaþjónusta og þjónusta heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðis­stofnana sem veitt er í því skyni að efla heilbrigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga. Hugtakið er skilgreint með nær sambærilegum hætti í lögum nr. 34/2012, um heilbrigðis­starfsmenn, og lögum nr. 40/2007, um heilbrigðis­þjónustu. Að mati ráðuneytisins verður orðalagið greining á sjúk­dómum ekki skilið öðruvísi en svo að átt sé við rannsókn á því hvers konar sjúkdómi sjúklingur þjáist af. Þannig geti röng sjúk­dóms­greining t.a.m. leitt til þess að sjúklingi sé heimilt að kvarta til embættis landlæknis á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu.“

Þá sagði eftirfarandi í svarinu um læknisvottorðið sem gefið var út um A:

„Ráðuneytið telur, með vísan til hagsmuna sjúklinga, að almennt verði hugtakið heilbrigðisþjónusta í skilningi framangreindra laga túlkað rúmt en þó innan þeirra marka sem orðanna hljóðan heimilar. Að mati ráðuneytisins getur útgáfa læknisvottorðs verið liður í veitingu heilbrigðisþjónustu, svo sem þegar vottorð er gefið út í beinu framhaldi af greiningu eða meðhöndlun á sjúkdómi. Læknis­vottorð það sem um ræðir í máli kvartanda var hins vegar ekki gefið út við slíkar aðstæður heldur laut vottorðið eingöngu að almennri umfjöllun um [...] [A]. Upplýsingar um ástand hennar í vottorðinu voru byggðar á fyrir­liggjandi gögnum og án þess að læknirinn hafi hitt [A] sérstaklega vegna útgáfu vottorðsins. Var útgáfa vott­orðsins í máli [A] þannig aðeins liður í öflun sönnunar­gagna í dómsmáli þar sem skorið var úr um hvort uppfyllt væru skilyrði lögræðislaga fyrir því að svipta [A] fjárræði. Við útgáfu vottorðsins átti þannig ekkert af þeim atriðum sem tilgreind eru í 2. tölul. 3. gr. laga um landlækni og lýðheilsu við [...], þ.e. efling heilbrigðis, eða að læknirinn hafi fyrirbyggt, greint eða meðhöndlað sjúkdóma eða endurhæft [A]. Taldi ráðuneytið í þessu sambandi rétt að líta til þeirra sjónarmiða sem fram koma í áliti umboðsmanns Alþingis frá 15. apríl 2013 í máli nr. 6767/2011, um túlkun á hugtakinu heil­brigðis­þjónustu í tengslum við útgáfu læknisvottorðs. Er það mat ráðu­neytisins að, eins og máli þessu var háttað, að útgáfa vott­orðsins hafi ekki falið í sér veitingu á heilbrigðisþjónustu í skilningi laga um landlækni og lýðheilsu og hafi embætti landlæknis þannig ekki borið að leysa úr málinu á grundvelli 2. mgr. 12. laganna.“

  

IV Álit umboðsmanns Alþingis

1 Hugtakið „heilbrigðisþjónusta“

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er markmið laganna að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýð­heilsustarf og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að því að lýð­­heilsustarf og heilbrigðisþjónusta byggist á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.

Í samræmi við þetta markmið er það þáttur í eftirlitshlutverki landlæknis að heimilt er að beina formlegri kvörtun til hans vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðis­þjónustu, sbr. 2. mgr. 12. gr. laganna. Í sömu málsgrein segir að notendum heilbrigðis­þjónustu sé jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til land­læknis telji þeir að framkoma heilbrigðis­starfsmanna við veitingu þjónustunnar hafi verið ótilhlýðileg. Um málsmeðferð landlæknis er nánar fjallað í 5. mgr. 12. gr. laganna, en samkvæmt 6. mgr. greinarinnar er heimilt að kæra hana til ráðherra.

Af orðalagi 2. mgr. 12. gr. laganna leiðir að við afmörkun á því hvort efni kvörtunar falli undir gildissvið greinarinnar verður að meta hvort hún beinist að veitingu heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 2. tölulið 3. gr. sömu laga er með hugtakinu átt við hvers kyns heilsugæslu, lækningar, hjúkrun, almenna og sérhæfða sjúkrahúsþjónustu, sjúkra­flutninga, hjálpar­­tækjaþjónustu og þjónustu heilbrigðisstarfsmanna innan og utan heilbrigðisstofnana sem veitt er í því skyni að efla heil­brigði, fyrirbyggja, greina eða meðhöndla sjúkdóma eða endurhæfa sjúklinga. Einnig hefur hér þýðingu hver teljist notandi heilbrigðis­þjónustu og geti þar með átt aðild að kvörtun vegna vanrækslu eða mistaka við veitingu hennar. Í því tilliti verður m.a. að horfa til þess að samkvæmt 2. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, er „sjúklingur“ notandi heil­brigðis­þjónustu og „meðferð“ er rannsókn, aðgerð eða önnur heilbrigðis­þjónusta sem læknir eða annar heilbrigðisstarfsmaður veitir til að greina, lækna, endurhæfa, hjúkra eða annast sjúkling.

  

2 Útgáfa læknisvottorðs á grundvelli lögræðislaga

Um læknisvottorð er fjallað almennt í 19. gr. laga nr. 34/2012, um heil­brigðisstarfsmenn, og reglum nr. 586/1991, um gerð og útgáfu læknis­vottorða, sem voru settar með stoð í 11. gr. þágildandi læknalaga nr. 53/1988 og hér eiga við.

Í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 34/2012 kemur fram að heilbrigðis­starfsmönnum beri að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við útgáfu vottorða, álitsgerða, faglegra yfirlýsinga og skýrslna og votta það eitt er þeir vita sönnur á og er nauðsynlegt í hverju tilviki. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er heilbrigðisstarfs­mönnum skylt að láta hinu opinbera í té vottorð um sjúklinga er þeir annast þegar slíkra vottorða er krafist vegna samskipta sjúklings við hið opinbera. Í athuga­semdum við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum nr. 34/2012 segir að ekki þurfi að hafa mörg orð um nauðsyn þess að hvers konar gögn á sviði heilbrigðis­þjónustunnar séu skýr og greinar­góð og ekki þurfi að velkjast í vafa um innihald þeirra og merkingu (sjá þskj. 147 á 140. löggjafarþingi 2011-2012, bls. 24).

Með hliðsjón af því hvernig hugtakið „heilbrigðisþjónusta“ er skilgreint í lögum nr. 41/2007 verður að meta það hverju sinni hvort það sé heilbrigðisþjónusta þegar heilbrigðisstarfsmaður gefur út vott­orð, álits­gerð, faglega yfirlýsingu eða skýrslu. Meðal þess sem kann að hafa þýðingu fyrir þetta mat er hvort slíkt verk sé unnið að beiðni notanda heilbrigðisþjónustu eða þriðja aðila, sbr. álit setts umboðsmanns Alþingis 15. apríl 2013 í máli nr. 6767/2011 og til hliðsjónar álit 17. sama mánaðar í máli nr. 6697/2011 og 5. maí 2014 í málum nr. 7092, 7126 og 7127/2012.

Í fyrstnefnda álitinu sagði að ekki kæmi fram í 2. tölulið 3. gr. laga nr. 41/2007 hvort þar væri eingöngu átt við heilbrigðis­þjónustu sem veitt er einstaklingi í hans eigin þágu eða hvort einnig væri átt við tengda þjónustu sem heilbrigðisstarfsmaður veitir þriðja aðila, s.s. vinnu­veitanda eða tryggingarfélagi, á grundvelli fag- eða sérfræði­þekkingar sinnar, t.d. með mati á læknisfræðilegum gögnum eða ritun almennra eða sértækra álitsgerða. Þá var nánar rakið að í lögskýringar­gögnum virtist gert ráð fyrir að í flestum tilvikum ættu sér stað bein samskipti milli notanda heilbrigðisþjónustunnar og hlutaðeigandi heilbrigðisstarfs­manns eða heilbrigðisstofnunar. Þegar jafnframt væri litið til markmiða með lagaákvæðum um eftirlit landlæknis með heil­brigðisþjónustu og heilbrigðisstarfsmönnum, um að tryggja öryggi og við­­unandi þjónustustig, hnigu rök enn frekar til þess að réttur til að bera fram kvörtun á grundvelli 12. gr. laga nr. 41/2007 væri ætlaður þeim sem í reynd njóta hinnar eiginlegu heilbrigðisþjónustu fremur en þeim sem kaupa aðra sérfræðiþjónustu af heilbrigðisstarfsmönnum og þá jafnframt þeim sem eiga hagsmuni því tengda. Var það niðurstaða setts umboðsmanns að ekki hefðu verið uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun manns til meðferðar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. laganna sem laut að álitsgerð læknis um það hvort hann hefði orðið fyrir einelti á vinnustað og var unnin að beiðni vinnuveitanda hans. Jafnframt lá fyrir að álitsgerðin hafði verið unnin með mati á fyrirliggjandi gögnum og án þess að læknir­inn hefði skoðað manninn sjálfur eða tekið viðtal við hann.

Um vottorð heilbrigðisstarfsmanna við meðferð lögræðissviptingar­mála er m.a. fjallað í 8. og 11. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Þar segir að í kröfu um lögræðissviptingu skuli koma fram nöfn heimilislæknis varnar­­aðila og sérfræðinga þeirra er hann kann að hafa leitað til, ef um þá er vitað, nema vottorð þessara aðila fylgi kröfunni, sbr. g-lið 1. mgr. 8. gr. laganna og einnig 2. mgr. sömu greinar. Ef slíkt vottorð fylgir ekki kröfunni skal dómari sjálfur afla þess, sbr. 2. mgr. 11. gr. laganna, en í athugasemdum við það frumvarp sem varð að lögunum segir að ljóst sé að læknis­vottorð séu að jafnaði mikilvægustu sönnunargögnin í málum til sviptingar lög­ræðis. Í vottorði skuli gerð grein fyrir því hvort varnaraðili sé haldinn einhverjum þeim sjúkdómi eða í slíku ástandi sem sé skilyrði lögræðis­sviptingar samkvæmt 4. gr. laganna ásamt sjúkdómsgreiningu, ef unnt er, eða ítarlegri lýsingu á ástandi varnaraðila. Þá segir að þegar litið sé til þess á hvaða grundvelli læknisvottorð byggist verði að gera þá kröfu að læknir hafi nýlega skoðað eða að minnsta kosti rætt við varnaraðila, ef því verður við komið (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 3694-3696).

Krafa um lögræðissviptingu getur byggst á því að sá sem hún beinist að sé ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé vegna andlegs vanþroska, ellisljóleika eða geðsjúkdóms eða vegna annars konar alvarlegs heilsubrests, sbr. a-lið 4. gr. lögræðislaga, en á þessum grundvelli var þess krafist á árinu 2018 að A yrði svipt lögræði, svo sem áður greinir. Samkvæmt athugasemdum í fyrrgreindu frumvarpi er það meðal þeirra sjónarmiða sem kunna að réttlæta sviptingu samkvæmt þessum staflið að koma megi við nauðsynlegri læknishjálp í þágu hlutaðeigandi(Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 3682-3683).

  

3 Læknisvottorðið um A

Fyrrgreint læknisvottorð 22. maí 2018 var gefið út af lækni sem hafði í um það bil tvö ár verið með A til meðferðar og var hún því sjúklingur hans í skilningi 2. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Ólíkt því sem átti við í fyrrgreindu máli umboðsmanns nr. 6767/2011, og kann að eiga við um ýmsa heilbrigðisstarfsmenn sem eru kvaddir til af dómara til að meta aðila að dómsmálum, svo sem lögræðissviptingar- eða forsjármálum, var A þannig notandi heilbrigðisþjónustu sem téður læknir veitti henni.

Við mat á því hvort útgáfa framangreinds vottorðs hafi verið liður í heilbrigðisþjónustu sem A þáði verður í samræmi við lögskýringargögn að leggja til grundvallar að hugtakið „heilbrigðisþjónusta“ í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007 beri að skýra rúmt, líkt og nánar greinir í athugasemdum við 3. gr. þess frumvarps er varð að lögunum (Alþt. 2006-2007, A-deild, bls. 1381). Að þessu virtu, svo og að teknu tilliti til þeirra réttaröryggissjónarmiða sem búa að baki eftirlitshlutverki landlæknis samkvæmt umræddri lagagrein, verður að leggja til grundvallar að vottorð læknis um eigin sjúkling, sem byggt er á þeirri þekkingu sem hann hefur aflað um sjúkling við veitingu heilbrigðisþjónustu, sé að jafnaði einnig liður í þeirri heilbrigðisþjónustu sem samband þeirra byggist á.

Líkt og áður greinir byggðist téð vottorð, svo og umsögn læknisins 15. mars 2019, um heilsufar A á eigin athugunum hans og rannsóknum sem hann hafði látið framkvæma í því skyni að greina og meðhöndla sjúkdómsástand hennar. Þá verður ekki annað ráðið af vottorðinu en að læknirinn hafi við gerð þess talið skilyrði uppfyllt til að svipta hana sjálfræði til að koma við læknismeðferð, enda rakti hann að A hefði hafnað ráð­leggingum lækna þar að lútandi og taldi hana eiga erfitt með að sjá um sig, m.a. þar sem hún hefði ekki mætt í læknistíma hjá honum. Einnig er eftirfarandi haft eftir lækninum í fyrrgreindum úrskurði héraðsdóms 23. janúar 2019: „Spurður af dómara um rök fyrir mati sínu á þörf sjálfræðissviptingar vísaði [læknirinn] til þess að [A] hefði ekki farið eftir ráðleggingum heilbrigðis­starfsfólks um læknismeðferðir.“

Þegar horft er til þeirra sjónarmiða sem búa að baki sviptingu lögræðis á grunni a-liðar 4. gr. lögræðislaga og litið er til alls þess sem að framan greinir verður að líta svo á að A hafi átt lögvarinn rétt til að kvarta yfir ætluðum mistökum læknisins við þá greiningu á heilsufari hennar sem kom fram í téðu vottorði. Er það þar af leiðandi álit mitt að vottorð læknisins 22. maí 2018 hafi verið liður í þeirri heilbrigðisþjónustu sem hann veitti A í skilningi 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, sbr. 2. tölulið 3. gr. sömu laga. Landlækni bar því að taka kvörtun hennar yfir störfum læknisins við gerð vottorðsins til meðferðar á þeim grundvelli. Samræmdist öndverð afstaða ráðuneytisins til þessa atriðis í úrskurði þess 27. ágúst 2021 því ekki lögum.

  

V Niðurstaða

Það er álit mitt að úrskurður heilbrigðisráðuneytisins nr. 9/2021 frá 27. ágúst 2021 hafi ekki verið í samræmi við lög. Sú niðurstaða byggist á því að ég tel útgáfu læknisvottorðs um heilsufar A, sem unnið var að beiðni Héraðsdóms Reykjavíkur á grundvelli lögræðislaga nr. 71/1997, hafa verið lið í þeirri heilbrigðisþjónustu sem læknir hennar og útgefandi vottorðsins hafði veitt henni.

Í ljósi andláts A eru ekki efni til að beina tilmælum til ráðuneytisins um að leita leiða til að rétta hlut hennar. Ég beini því þó til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem að framan eru rakin. Þá tel ég tilefni til að senda landlækni afrit af áliti þessu til upplýsingar.

  

 

 

VI Viðbrögð stjórnvalda

Ráðuneytið upplýsti að það hefði borið sjónarmiðin í álitinu undir embætti landlæknis og haft hliðsjón af því við meðferð sambærilegra mála sem komið hefðu til kasta þess.