Kvartað var yfir því að sóknarprestur hefði synjað beiðni um að tiltekinn prestur annaðist útför.
Þar sem það fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um ákvarðanir og athafnir kirkjunnar er snerta kenningar hennar og trúariðkun voru ekki skilyrði til að hann fjallaði um ákvörðun sóknarprests um helgihald í kirkju.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. júní 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar 15. júní sl. yfir því að sóknarprestur hafi synjað beiðni dóttur yðar um að ákveðinn prestur annaðist útför bróður yðar frá tilgreindri kirkju fyrr á þessu ári, en það mun hafa verið ósk bróður yðar að umræddur prestur jarðsyngi hann.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og tilgreindar siðareglur. Í samræmi við þetta hlutverk er kveðið á um það í 1. mgr. 3. gr. sömu laga að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, en líkt og nánar var rakið í bréfi umboðsmanns 8. þessa mánaðar í máli nr. 10990/2021, sem birt er á vefsíðu embættisins, leiðir m.a. af lagagreininni að það fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns að fjalla um ákvarðanir og athafnir kirkjunnar er snerta kenningar hennar og trúariðkun.
Í 3. gr. laga nr. 77/2021, um þjóðkirkjuna, kemur fram að henni beri að halda úti vígðri þjónustu á landinu öllu og tryggja að allir landsmenn geti átt kost á henni. Um ákvæðið segir í athugasemdum við 3. gr. þess frumvarps er varð að lögunum að meginþættir vígðrar þjónustu séu helgihald, þ.á m. útfarir. Samkvæmt 7. gr. starfsreglna kirkjuþings nr. 822/2000, um kirkjur og safnaðarheimili, sem enn eru í gildi, sbr. 5. tölulið 1. gr. starfsreglna nr. 14/2021, um áframhaldandi gildi starfsreglna kirkjuþings, er ábyrgð á helgihaldi í kirkju og öðru því sem þar fer fram á hendi hlutaðeigandi sóknarprests í samráði við sóknarnefnd. Í ljósi þessara ákvæða og með vísan til fyrrgreindra sjónarmiða um starfssvið umboðsmanns fellur það utan þess að fjalla um ákvörðun sóknarprests um helgihald í kirkju.
Með vísan til þess sem að framan greinir brestur lagaskilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til meðferðar og læt ég málinu því hér með lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.